Ekki bara lengra líf heldur betra

Íslendingar þurfa að efla öldrunarrannsóknir

Milan Chang Guðjónsson er heilsu- og öldrunarfræðingur og lektor við íþróttafræðisvið tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hún er frá Suður – Kóreu og hefur stundað rannsóknir bæði í Japan og í Bandaríkjunum en búið hér á landi frá árinu 2004 með eiginmanni og fjórum börnum. Milan hóf starfsferil sinn á Íslandi hjá Hjartavernd og sinnir faraldsfræðilegum rannsóknum fyrir Rannsóknarstofu í öldrunarfræðum (RHLÖ) við Landspítalann-Háskólasjúkrahús, þar sem meðal annars eru notuð gögn úr Reykja­víkurrannsókn Hjartaverndar (AGES - Reykjavik study).  Milan hefur undanfarin misseri boðið upp á líkamsræktarnámskeiðin „Í fullu fjöri“ í Gerðubergi í Breiðholti en þau standa eldri borgurum í hverfinu til boða án endurgjalds. Á námskeiðunum safnar hún jafnframt gögnum um þátttakendurna og nýtir í rannsóknir sínar.

Í sundleikfimi

Göngutúrarnir ekki nóg

„Það sem ég legg áherslu á er að hafa æfingarnar krefjandi og að þátttakendur séu við betri heilsu eftir námskeiðið en þeir voru áður en þeir byrjuðu. Það sem ég mæli fyrir og eftir námskeiðin er til dæmis gönguhraði, sem getur sagt okkur mjög mikið um líkamlegt ástand. Ég legg einnig fyrir spurningalista um ýmis atriði eins og kvíða.“ Margir sem komnir eru af léttasta skeiði eru duglegir að hreyfa sig og fara jafnvel reglulega í göngutúra. Milan segir að í langflestum tilvikum gæti fólk ögrað líkamanum meira en það gerir og ætti að gera sem mest það getur. „Það er ekki nóg að fara í göngutúra, sem ég veit að margir gera mjög samviskusamlega. Þegar fólk eldist þá þarf það einmitt að virkja líkamann og æfa vöðvana. Passa sig á að gera styrktar- og teygjuæfingar en bara það að teygja í klukkustund örvar hjartsláttinn.“

Milan Chang Guðjónsson

Getum lært af Japönum

Námskeiðin í Breiðholti eru mikilvægur hluti rannsókna Milan en hana langaði líka einfaldlega að bjóða upp á líkamsræktarnámskeið fyrir eldra fólk hér á landi og fannst þörf á slíku. Hún bjó um margra ára skeið í Japan þar sem mikil áhersla er lögð á að fá eldri kynslóðirnar til að hreyfa sig. „Ég hef orðið vör við að á Íslandi hafa öldrunarrannsóknir minna vægi en í þeim löndum sem ég hef starfað í. Þar er meiri fjármunum veitt í slíkar rannsóknir enda geta þær leitt til mjög öflugra forvarna og fjármagnið sem lagt er í þær kemur því margfalt til baka.“ Hún segir að sérstaklega þurfi að hugsa um að börn og eldra fólk hreyfi sig þar sem það sé hópurinn sem til dæmis er ekki mikið í líkamsræktarstöðvum. „Við sjáum að flest markaðsefni sem kemur frá líkamsræktarstöðvunum höfðar til fólks sem er á bilinu 20-60 ára. Það er að sjálfsögðu alveg frábært að fá sem flesta til að hreyfa sig, en það verður að bjóða upp á þjálfun fyrir börn og eldra fólk líka. Með síðarnefnda hópinn þarf líka að passa upp á að æfingarnar séu sérsniðnar eldra fólki og nógu erfiðar.“

Ætti að vera aðgengilegt öllum

Milan vinnur ötullega að því að efla rannsóknir á þessu sviði á Íslandi. Hún kennir lýðheilsu- og íþróttafræði við HR og vonast til þess að vekja áhuga nemenda á rannsóknum í öldrunarfræði.  Námskeiðin í Breiðholti, sem hafa verið fjármögnuð af Reykjavíkurborg síðastliðin tvö ár, eru samstarfsverkefni Milan og Maríu Sastre hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, fræðimanna matvæla- og næringafræðideildar Háskóla Íslands, Ólafar Guðnýjar Geirsdóttur og Alfons Ramel. „Við völdum Breiðholt þar sem þar er góð aðstaða nálægt íbúðum eldri borgara og þessi hópur sem ég hef unnið með er alveg ótrúlega skemmtilegur. Draumurinn er að geta þróað verkefnið áfram í öðrum hverfum borgarinnar og út um allt land, að búa til prógramm þar sem boðið er upp á fræðslu og líkamsrækt fyrir eldri borgara.“ Fræðsluhlutinn er mikilvægur að hennar sögn. „Það getur verið öðruvísi að vera annars vegar úti á vinnumarkaði og í miklum tengslum við fólk alls staðar að úr þjóðfélaginu og safna þannig að sér upplýsingum úr öllum áttum og hins vegar að vera löngu kominn á eftirlaun; þá þarf oft að bera sig meira eftir upplýsingum.“ Hún segir fólk vita um mikilvægi hreyfingar en að það þurfi að sýna áhuga í að vilja aðstoða eldri borgara við að hreyfa sig. „Að mínu mati vantar miklu meiri áróður varðandi þetta hér á landi.“ Þjóðir heimsins eru að eldast og Milan telur okkur þurfa að horfa lengra fram á veginn. „Fólk lifir lengur, en hvernig viljum við hafa það líf? Með rannsóknum í öldrunarfræði má safna saman gögnum sem nýst geta fólki til að lifa ekki einungis lengra lífi heldur betra lífi.“


Var efnið hjálplegt? Nei