Nýtir útrunnar blóðflögueiningar til stofnfrumuræktunar

„Hugmynd okkar snýst um að skapa verðmæti úr efnivið sem vanalega er fargað.“ Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson er dósent við tækni- og verkfræðideild HR og forstöðumaður rannsókna við Blóðbankann. Ólafur stundar rannsóknir í heilbrigðisverkfræði og þróar meðal annars aðferðir til klínískrar ræktunar og sérhæfingar á stofnfrumum. Hugmyndina sem Ólafur vísar hér til, á hann, ásamt doktorsnemanum Söndru Mjöll Jónsdóttur, og gengur hún út á að nýta útrunnar blóðflögueiningar til ræktunar á stofnfrumum.

Ólafur Eysteinn Sigurjónsson

Mikill áhugi er á þróun öruggra stofnfrumumeðferða til notkunar í vefjaverkfræði og vefjalækningum. Til að slíkt verði mögulegt er mikilvægt að þróa vel skilgreindar aðferðir til fjölgunar og sérhæfingar á stofnfrumum sem nota á í þessum tilgangi. Miðlagsstofnfrumur (e. mesenchymal stem cells) eru stofnfrumur sem er að finna m.a. í beinmerg, fituvef og naflastrengsblóði. Þær hafa vakið töluverðan áhuga í þessu tilliti vegna hæfni þeirra til að mynda beinvef og brjóskvef. „Það er tiltölulega auðvelt að einangra miðlagsstofnfrumur úr vefjum líkamans, til dæmis úr beinmerg og fituvef. Einnig eru til vel skilgreindar aðferðir til að sérhæfa þær sem bein-, brjósk- og fituvefi en þetta hefur leitt til áhuga á að nýta þessa sérhæfingu í læknisfræðilegum tilgangi. Annar áhugaverður eiginleiki sem miðlagsstofnfrumur búa yfir er hæfni þeirra til að draga úr ónæmissvari og það hefur verið sýnt fram á að þær séu mögulega gagnlegar í ónæmisfræðilega tengdum sjúkdómum á borð við vefjahöfnunarveiki. Það er ástand sem sem getur myndast við ígræðslu blóðmyndandi stofnfruma úr óskyldum einstaklingum.“

Einn af mikilvægu þáttunum í fjölgun og sérhæfingu stofnfruma, sérstaklega ef á að nota þær í læknisfræðilegri meðferð, er að finna leiðir til að fjölga þeim án þess að nota afurðir úr dýrum.  „Í dag er algengt að nota kálfasermi í slíkum ferlum en það getur valdið alvarlegu ónæmissvari í sjúklingum sem þiggja þær frumur auk þess sem að dýrborin smit geta borist á milli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Hugsanleg lausn á slíku vandamáli er að nota útrunnar blóðflögueiningar sem viðbæti í staðinn fyrir kálfasermi. Á hverju ári er töluverðum fjölda af blóðflögueiningum fargað en geymslutími þeirra er takmarkaður við fimm til sjö daga. Blóðbankinn á Íslandi framleiðir í dag örveruóvirkjaðar blóðflögueiningar, þar sem að nýlegri aðferð er beitt til að hindra fjölgun á veirum, bakteríum og öðrum sýkingarvöldum sem innihalda kjarnsýrur og gerir þær um leið enn öruggari fyrir sjúklinga og lengir geymslutíma þeirra upp í sjö daga.

Rofalausn kallast það efni sem eftir er þegar blóðflögueiningar hafa verið frystar og þýddar (endurtekið þrisvar sinnum) og frumubrot skiljuð frá. Á undanförnum árum hefur komið í ljós að með því að búa til rofalausnir úr blóðflögum, með því að frysta þær og þýða endurtekið, er hægt að nálgast efnivið sem hentar vel sem viðbætir til ræktunar á stofnfrumum. „Nýverið höfum við unnið að því að þróa aðferðir til frostþurrkunar á blóðflögurofalausnunum og hafa þær tilraunir lofað góðu. Slíkt mun auðvelda alla meðhöndlun og geymslu rofalausnanna. Nú þegar höfum við hafið samvinnu við ýmsa aðila sem tengjast ræktun á stofnfrumum til vefjalækninga, um að prófa  þá afurð sem við höfum verið að þróa, í sínum ræktunarlíkönum. Kostir okkar hugmynda eru þeir að ekki þarf að breyta verkferlum í Blóðbankanum og ekki þarf heldur að fara í samkeppni við blóðbanka um þá takmörkuðu auðlind sem blóðgjafar eru, þar sem að við nýtum einungis blóðflögueiningar sem renna út á tíma og er venjulega fargað.“ 

 


Var efnið hjálplegt? Nei