Iðkendur 30% en umfjöllun 9%

Iðkendur 30% en umfjöllun 9%Þórhildur Ólafsdóttir er fyrirliði meistaraflokks ÍBV í knattspyrnu ásamt því að vera útskrifaður íþróttafræðingur frá HR. Í lokaverkefni sínu rannsakaði hún umfjöllun um knattspyrnu kvenna í íslenskum fjölmiðlum og bar hana saman við umfjöllun um karlaboltann. Niðurstöðurnar sýna að munurinn er mikill, ekki aðeins í magni heldur tegund og umfangi umfjöllunar. Þórhildur segir þennan mikla mismun ekki hafa komið sér á óvart.

Í rannsókninni safnaði Þórhildur saman tölulegum upplýsingum um umfjöllun þriggja íslenskra vefmiðla og greindi gögnin. Þeir vefmiðlar sem teknir voru fyrir voru ruv.is, mbl.is og fotbolti.net og tímabilið var ein vika sumarið 2013. Þá voru niðurstöður rannsóknarinnar skoðaðar nánar eftir því hvort umfjöllunin sneri að efstu deild á Íslandi, neðri deildum eða erlendu efni.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru þær að heildarhlutfall umfjöllunar þar sem fjallað var um kvennaknattspyrnu var 9.1% í samanburði við 89.5%, sem var hlutfall umfjöllunar um karlaknattspyrnu. Hlutfall kvenna í umfjöllun miðlanna um efstu deildir karla og kvenna var 19.1% sem endurspeglar ekki fjölda kveniðkenda hér á landi, en konur eru um 31.5% iðkenda. Í neðri deildum var hlutfall kvenna aðeins 7.8% af heildarumfjöllun og 4.3% í erlendu efni. Munurinn var minnstur á ruv.is, en Þórhildur segir það að mörgu leyti eðlilegt þar sem um sé að ræða ríkismiðil sem hafi ákveðnum skyldum að gegna.

Umfjöllun um knattspyrnu karla var almennt fjölbreyttari og að meðaltali lengri hvort sem um var að ræða orðafjölda, sekúndur eða fjölda mynda. Algengasta snið umfjöllunar um kvennaknattspyrnu var stutt samantekt úr leikjum þeirra.

„Niðurstöðurnar koma mér þannig séð ekkert á óvart. Mér hefur þótt þetta áberandi síðan ég var ung knattspyrnukona,” segir Þórhildur. „Það þarf að rannsaka betur hvers vegna þessi munur er tilkominn. Rannsóknin mín sýnir stöðuna eins og hún er en í henni er ég ekki að leita að orsökinni. Það skiptir svo miklu máli að ungar stelpur sjái ekki bara strákana heldur hafi sínar fyrirmyndir líka.“

Þórhildur Ólafsdóttir


Var efnið hjálplegt? Nei