Kepptu með kafbát í San Diego

Tíu manna lið frá Háskólanum í Reykjavík hélt til San Diego í Bandaríkjunum í júlí síðastliðnum til að taka þátt í hinni árlegu RoboSub kafbátakeppni.  Kafbáturinn Ægir var hannaður og smíðaður af nemendum í tækni- og verkfræðideild og tölvunarfræðideild. 

Keppnisliðið frá HR

Níu nemendur héldu utan til keppni ásamt Stefáni Frey Stefánssyni, aðstoðarkennara við tækni- og verkfræðideild. Alls hafa milli 40-50 manns komið að kafbátargerðinni á einn eða annan hátt í gegnum árin, en þetta er í fjórða skiptið sem HR tekur þátt í RoboSub. 

Kafbátarnir, sem liðin keppa með, eru sjálfráðir, sem þýðir að þeim er ekki stýrt, og þurfa þeir að geta leyst ýmsar þrautir; Meðal annars að komast í gegnum hlið, finna baujur og skjóta pílu í skotmark. Ægir er útbúinn tveimur myndavélum, þremur hljóðnemum, hröðunarnema, gýró, þrýstinema og seguláttavita til þess að skynja umhverfi sitt. Einnig sex mótorum til þess að stýra sér. Liðið frá HR komst í úrslit keppninnar og hafnaði í 6. sæti af 39.

„Að taka þátt í kafbátaverkefninu hefur gefið mér tækifæri til að láta reyna á það sem ég hef verið að læra í skólanum. Þú ert með þekkt vandamál fyrir framan þig og þarft að finna lausn á því bæði með því að vinna einn og með öðrum í hóp. 

Að sjá svo afraksturinn eftir alla þessa vinnu í keppninni úti í San Diego er mjög gefandi og lærdómsríkt. Úti kynnistu mörgum öðrum sem eru að leysa sömu vandamál og þitt lið og þú sérð allar þessar mismunandi leiðir sem hægt er að fara til að leysa sömu þrautirnar. Annað sem ég sá líka, eftir að hafa tekið þátt, var að vinnuveitendur hafa alltaf haft mikinn áhuga á verkefnum eins og þessum og er það oftast eitt að aðalatriðum sem rætt er um í viðtölum.“

Emil Már

- Emil Már Einarsson, nemi í hátækniverkfræði við tækni- og verkfræðideild og starfsmaður hjá sjálfvirknisetrinu Samey. 


Var efnið hjálplegt? Nei