Perú, Malaví, Reykjavík

Perú, Malaví, Reykjavík

Heimsbyggðin öll stendur frammi fyrir því gríðarstóra verkefni á næstu árum og áratugum að minnka áhrif af mengun á náttúruna. Nauðsynlegt er að nýta endurnýjanlega orkugjafa í margfalt meira mæli en nú er gert. Íslendingar hafa á síðustu áratugum byggt upp sérfræðiþekkingu í orkuvísindum og þá sérstaklega á sviði jarðvarma og vatnsaflsvirkjana.

Þau Ximena Guardia Muguruza og Tufwane Mwagomba stunda meistaranám í orkuvísindum við Íslenska orkuháskólann í HR, (Iceland School of Energy, ISE) og ætla að flytja þessa þekkingu á jarðvarmanýtingu með sér til síns heima.  Þau eru hvort um sig komin langt að, Ximena er frá Perú og Tufwane frá Malaví.

Ximena hefur unnið um árabil við ráðgjöf í orkuiðnaðinum í Perú. „Ég hef sérstakan áhuga á endurnýjanlegum orkugjöfum. Við höfum Andes-fjöllin og tækifæri á því landsvæði til að nota vatnsorkuver sem við nýtum okkur að einhverju leyti. Í dag er fókus hins opinbera og fjárfesta á slíkum framkvæmdum. Mér finnst þó nýting jarðvarma spennandi og eitthvað sem við í Perú gætum nýtt okkur betur.“ Ximena var búin að leita að meistaranámi í Evrópu sem hefði þessar áherslur og fann loks Íslenska orkuháskólann í HR. Við hann eru í boði tvær námsbrautir þar sem nemendur fá þverfaglega kennslu og þjálfun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og nýtingu þeirra.  Námið er skipulagt í samvinnu tækni- og verkfræðideildar HR, Orkuveitu Reykjavíkur og Íslenskra orkurannsókna (ISOR).

Tufwane hefur síðustu misseri starfað hjá orkustofnun Malaví og kom fyrst til Íslands í gegnum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hluti þeirra nemenda sem stunda nám við þann skóla eiga kost á því að sækja um styrki til meistaranáms. Þar sem Tufwane hafði strax mikinn áhuga á Íslandi og  þeirri þekkingu sem hér býr, sótti hann um námið við Íslenska orkuháskólann í HR. Um styrkina ríkir mikil samkeppni en Tufwane var einn þeirra heppnu og stundar nú draumanámið. „Malaví er að ganga í gegnum mjög spennandi tímabil. Landið liggur á Austur – Afríska flekasvæðinu en við höfum ekki þróað tækni til nýtingu jarðvarmans. Við notum vatnsorkuver en þau eru ekki mjög áreiðanleg því stundum verða mikil vatnsveður sem setja strik í reikninginn. Möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar og við munum þurfa mikla sérfræðiþekkingu til að byggja upp iðnað í kringum endurnýjanlega orkugjafa.“ Þau segjast bæði vera hrifin af því hversu mikil áhersla sé lögð á að hafa námið hagnýtt. „Okkur finnst þessi fókus alveg frábær. Nú þurfum við bara að læra sem mest og flytja þessa þekkingu til okkar heimalanda.“

 


Var efnið hjálplegt? Nei