Röddum safnað í þágu vísindanna

Mörg þeirra viðfangsefna sem fræðimenn innan veggja rannsóknarháskóla takast á við eru afmörkuð við ákveðna akademíska deild eða fræðasvið. Sameiginlegt verkefni þeirra Kamillu Rúnar Jóhannsdóttur, lektors við sálfræðisvið, og Jóns Guðnasonar, lektors við tækni- og verkfræðideild, er unnið þvert á þrjú fræðasvið innan Háskólans í Reykjavík; sálfræði, verkfræði og tölvunarfræði. Markmiðið með rannsókn þeirra er að mæla vinnuálag í flugumferðastjórn og þróa nýtt mælitæki til að meta slíkt álag í rauntíma. Verkefnið fékk styrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, á síðasta ári.

Getum ekki treyst sjálfsmati

Kamilla Rún og Jón settust niður með blaðamanni til að útskýra málið betur. „Í stuttu máli erum við að þróa talgreiniforrit sem nemur vinnuálag í rödd,“ útskýrir Kamilla. „Rannsóknir sýna að ef þú ert undir of miklu eða of litlu álagi gerir þú mistök. Í dag eiga flugumferðarstjórar að meta álagið sjálfir. Þeir vinna reyndar á stuttum vöktum og þeim er róterað hratt en það er samt sem áður ekkert kerfi sem metur álagið.“ Margar rannsóknir innan sálfræðinnar hafi sýnt að ekki sé hægt að treysta sjálfsmati, að starfsmenn geti hreinlega ekki á fullnægjandi máta metið álag sem þeir verða fyrir. „Til að ná sem mestri skilvirkni í starfi flugumferðarstjóra er mæling á vinnuálagi mikilvæg, svo ekki sé minnst á öryggi í flugumferð. Gott mælitæki þarf að vera ódýrt, geta mælt og skilað niðurstöðum jafnóðum og geta greint milli ólíkra stiga vinnuálags.“

Möguleikar raddgreiningar miklir

En hvernig kom þessi rannsókn til? „Jón var með hugmynd að frekari nýtingu raddgreinis og langaði að fá einhvern úr sálfræðinni að borðinu, “ segir Kamilla. Jón hefur til að mynda unnið að gerð íslensks talgreinis sem er notaður af Google í dag. Hann segir röddina forvitnilegt rannsóknarefni. „Já, það var spennandi að skoða samband raddar og álags til að meðal annars geta bætt heilsu fólks og minnkað hættu á að starfsfólk geri mistök. Röddin gefur vísbendingar um svo ótal margt.“ Hann segir til dæmis vera hægt að greina suma sjúkdóma með raddprófi. „Það eru vísbendingar um að raddgreiningin sé jafnvel betri og hraðvirkari í sumum tilfellum en venjuleg próf. Til dæmis er talið að hægt sé að greina Parkinsonssjúkdóminn hraðar með þessum hætti en með hefðbundnum vöðvaprófum.“ Ákveðnar stöðvar í heilanum sjái um hreyfistjórnun sem nái til vöðva í talfærum rétt eins og annarra  vöðva líkamans. „Rannsóknir benda einnig til þess að með raddgreiningu sé hægt að meta hvort manneskja er þunglynd eða kvíðin,“ segir Kamilla. „Einnig er hægt að greina nokkuð nákvæmlega hvort einstaklingur sé reiður eða ekki, til dæmis í síma. Þessa tækni er hægt að nýta til að láta sjálfvirka símsvara greina hugarástand þess sem hringir inn og gefa honum strax samband við manneskju sem er þá þjálfuð í ákveðnum aðstæðum og viðbúin samtalinu.“ Þau Jón og Kamilla telja að nýta megi mælingar á rödd í mun víðara samhengi, jafnvel sem ákveðna forvörn þar sem álagi fólks og streitu í erfiðu vinnuumhverfi er stjórnað. Með því að halda fólki á réttu róli og koma í veg fyrir streitu væri hægt að koma í veg fyrir mörg heilbrigðisvandamál.

Kamilla og Jón

Kamilla Rún Jóhannsdóttir og Jón Guðnason 

Þau hafa nú þegar safnað saman töluverðu magni af gögnum en stærsta rannsóknin hingað til er handan við hornið. 150 einstaklingar munu taka þátt í rannsókninni og gangast undir álagsprófanir þar sem bæði tal og lífeðlisfræðilegar breytur eru skráðar. Jón útskýrir rannsóknina nánar. „Við notum gögnin sem við tökum upp til þess að búa til líkan af álagi á röddina. Þetta líkan er svo notað í reikniriti sem metur álag í talupptöku. Mat á gæðum þessa reiknirits má svo fá með fleiri talupptökum.”  Þau segja fleiri aðstæður verða skoðaðar og frekari rannsóknir verði gerðar með þátttöku flugumferðastjóra síðar í vetur.

Samvinnan gerir okkur víðsýnari

Þau sjá fyrir sér að hægt verði að nota raddgreiningu til að mæla álag í margvíslegum aðstæðum í framtíðinni og hjá öðrum starfsstéttum, eins og meðal lækna. Þau hafi með vinnu sinni við þessa rannsókn komið auga á fleiri möguleika en voru þeim augljósir þegar lagt var af stað. „Það getur verið svo gefandi að vinna saman þvert á ólíkar vísindagreinar. Ég kem úr sálfræðinni og Jón úr verkfræði,“ segir Kamilla.  „Það hefur verið nytsamlegt fyrir mig að fá athugasemdir úr verkfræðinni og ég er fullviss um að það geri mig víðsýnni sem vísindamann. Svo er nýdoktorinn sem vinnur að rannsókninni tölvunarfræðingur, svo við höfum öll ólík sjónarhorn og það verða oft líflegar umræður á vinnufundum.“ Jón tekur undir þetta: „Við höfum mismunandi bakgrunn og það gefur manni á endanum mikið að kynnast því hvernig rannsóknir eru gerðar á öðrum fræðasviðum. Til dæmis var áhugavert að kynnast þeirri ströngu aðferðafræði sem þarf að vera í sálfræðinni.“   Kamilla segist vita vel hvað hann meinar: „Þetta er svona í rannsóknum þar sem unnið er með manneskjur, rannsóknarferlið er viðkvæmt og margt sem getur haft áhrif á niðurstöðurnar. Því er mikilvægt að staðla aðstæður eins og hægt er.“


Var efnið hjálplegt? Nei