Um Skema í HR

Nám sem veitir nemendum forskot til framtíðar

Skema sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi. 

Hvað segja nemendur og foreldrar um Skema í HR? Skema stendur fyrir fjölbreyttum tækninámskeiðum og vinnur auk þess að því markmiði að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þá hefur Skema, í samstarfi við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, rannsakað þau áhrif sem kennsla í forritun hefur á hina ýmsu þætti þroska og námsgetu barna.

Skema notar aðferðafræði sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar.

Saga Skema

Nýsköpun byggð á rannsóknum

Árið 2010 hefst saga Skema þegar stofnandi fyrirtækisins, Rakel Sölvadóttir, vann verkefni í áfanga um þroskasálfræði í BSc-námi sínu í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Í verkefninu kannaði hún, ásamt Laufeyju Dís Ragnarsdóttur, öðrum nemanda, hvort börn hafi áhuga og getu til að forrita. Þær fluttu erindi um verkefnið hjá Samtökum íslenska leikjaframleiðenda, IGI, og hlutu afar jákvæðar móttökur. Þær Rakel og Laufey sáu fljótt að hugmyndin um nám fyrir börn í forritun hlaut góðan hljómgrunn og ákváðu að senda inn umsókn í frumkvöðlakeppnina Fræ ársins árið 2011 og hlutu fyrstu verðlaun. Þá varð fyrirtækið Skema til. Laufey Dís ákvað að einbeita sér að því að ljúka námi og því hélt Rakel áfram rekstri og uppbyggingu Skema. Árið 2017 tók Háskólinn í Reykjavík yfir verkefni Skema. Rakel tók við stöðu verkefnastjóra Skema í HR sem er hluti af Opna háskólanum í HR.

Frumkvöðlastarfsemi Skema

Þróun Skema var hröð á næstu árum. Fyrirtækið var hlaut verkefnastyrk úr Tækniþróunarsjóði árið 2012 og sama ár gerði Skema samninga við Háskólann í Reykjavík, þar sem háskólinn eignaðist hlut í fyrirtækinu, og samstarfsverkefni með Samtökum atvinnulífsins, Uppfærum Ísland, var ýtt úr vör. Einnig var gerður samningur við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og hefur á undanförnum árum verið þróuð upplýsingatæknibraut innan skólans. Skema og Reiknistofa bankanna (RB) stofnuðu árið 2013 sjóðinn Forritarar framtíðarinnar sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skema hefur jafnframt gert samninga síðan þá við fyrirtækin CCP, Advania og epli.is með það að markmiði að kynna möguleg atvinnutækifæri fyrir tæknifólki og forriturum framtíðarinnar og að styrkja upplýsingatækniiðnaðinn á Íslandi með öflugu samstarfi og uppbyggilegum verkefnum.

Skema utan landsteinanna

Skema hlaut fljótlega mikla athygli erlendis. Grein birtist í hinu virta tímariti Wired UK um Skema árið 2012. Rakel Sölvadóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hélt erindi á SXSW Interactive ráðstefnunni í Austin í Texas í Bandaríkjunum árið eftir og vakti Skema í kjölfarið gríðarlega athygli þegar tímaritið Forbes taldi upp þau tíu fyrirtæki af SXSW-ráðstefnunni sem talið var að myndu slá í gegn hjá neytendum. Það sama ár kom breska ríkissjónvarpið BBC og tók starfsfólk Skema tali. Undir nafninu reKode komst fyrirtækið, aðeins rúmu ári eftir stofnun þess, inn í hinn virta bandaríska viðskiptahraðal Techstars, fyrst íslenskra fyrirtækja.

Forritun gerð aðgengileg

Frá stofnun Skema hefur verið unnið ötullega að því að kenna börnum og unglingum forritun, bæði með því að halda hin svokölluðu Skema-námskeið og í samstarfi við grunn- og framhaldsskóla. Má þar nefna Hofsstaðaskóla og Finnbogastaðaskóla, einn minnsta grunnskóla landsins. Einnig hefur Skema verið áberandi á UTmessunni, árlegri upplýsingatæknihátíð, þar sem börn geta prófað forritun sér að kostnaðarlausu. Skema hefur átt fulltrúa Forritunarviku EU á Íslandi síðan árið 2013 þar sem sýnt er fram á mikilvægi forritunar. Reynt hefur verið að hvetja stelpur sérstaklega til að kynna sér forritun meðal annars með sérstökum tæknistelpunámskeiðum og samstarfi við félag í tölvunarfræðideild HR um aukningu kvenna í tölvunarfræði, /sys/tur. Skema hefur jafnframt sinnt kennslu á Stelpur og tækni deginum sem HR stendur fyrir og gert samning við Advania um verkefni sem miðar að því að efla áhuga stelpna á námi í forritun.

Ísland búið undir framtíðina

Starfmenn Skema hafa komið að stefnumarkandi vinnu um upplýsingatækni í íslensku skólastarfi auk þess að vera beinir þátttakendur í innleiðingarvinnu þeirra skóla og sveitarfélaga sem kosið hafa að fara af stað í virka innleiðingu á forritun og tækni í skólastarf. Þessir skólar hafa tekið slík skref án þess að formleg ákvörðun um að setja forritun í námskrá skólanna hafi verið tekin af hinu opinbera, enda gera þessar stofnanir sér grein fyrir mikilvægi þess að efla tæknimenntun í takt við tækniþróun þannig að þær kynslóðir sem nú eru að alast upp öðlist þá færni sem álitin verður grunnfærni innan atvinnulífsins innan fárra ára.

Verðlaun og viðurkenningar

Rakel og Laufey Dís

Fræ ársins 2011

Börnin í undralandi tölvuleikjanna

Verkefnið "Börnin í undralandi tölvuleikjanna" var valið Fræ ársins 2011 af atvinnulífinu.
Rakel nörd ársins

Nörd ársins 2012

Rakel Sölvadóttir kosin Nörd ársins

Advania leitaði til 10.000 viðskiptavina og samstarfsaðila og hlaut Rakel flest atkvæði.
Þórdís Lóa, Rakel og Ragnheiður Elín

Hvatningarviðurkenning FKA 2014

Rakel fær hvatningaviðurkenningu FKA

Með viðurkenningunni hvetur FKA Rakel til góðra verka í þágu atvinnulífsins á árinu 2014.

Samstarfs- og styrktaraðilar

Merki CCP

CCP

Tæknimenntun og tækifæri

Frá því að Skema hóf starfsemi sína árið 2011 hefur fyrirtækið átt gott samstarf við tölvuleikjafyrirtækið CCP. Hópur barna sem setið hefur námskeið Skema hefur í lok hvers námskeiðs fengið tækifæri til að heimsækja höfuðstöðvar CCP að Grandagarði og hafa þessar heimsóknir vakið mikla lukku. Nokkur hundruð börn hafa þegar heimsótt CCP og nú stefnir allt í að hundruðir til viðbótar fái tækifæri til að sækja fyrirtækið heim og fræðast um starfsemi þess og fyrirtækjamenningu. 

Mikill skortur er á tæknimenntuðum einstaklingum um allan heim og á það einnig við hér á Íslandi.  Samstarfssamningur CCP og Skema er liður í því að sporna við þessari vöntun, kveikja áhuga barna á tæknimenntun og auka líkurnar á því að þau muni síðar sækja inná þærbrautir í námsvali sínu og atvinnu. Hér er um að ræða mikilvægan lið og samstarf sem miðar að því að tengja saman tæknimenntun og þámöguleika sem hún hefur uppá að bjóða.

advania

Advania

Akademía fyrir tæknistelpur

Uppbygging á tækniakademíu fyrir stelpur er eitt af meginmarkmiðum samstarfssamnings milli Advania og menntunar- og tölvuþróunarfyrirtækisins SKEMA sem undirritaður var á dögunum. Tilgangur akademíunnar er að vekja áhuga stúlkna á forritun og hvetja þær til frekara náms í tölvunarfræðum.
Forritarar Framtíðarinnar logo

Forritarar framtíðarinnar

Stuðningur við skólakerfið

Reiknistofa bankanna (RB) og Skema stofnuðu sjóðinn „Forritarar framtíðarinnar“ árið 2013. Meginhlutverk sjóðsins er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Að sjóðnum koma fyrirtæki af öllum stærðum sem leggja honum lið á ýmsan máta, svo sem með fjárframlögum, tæknibúnaði, þekkingu og ráðgjöf. Atvinnulífið er mikilvægur hluti þessa samfélagsverkefnis og geta  fyrirtæki lagt sitt af mörkum til að efla enn frekar tækniþekkingu íslenskra ungmenna.

Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun, ráðgjöf og tækjabúnað, allt eftir þörfum umsóknaraðila. Skema mun sjá um þjálfun og ráðgjöf til styrkþega, en fyrirtækið hefur unnið ötullega að því að undanfarin ár að kenna börnum frá 6 ára aldri að forrita auk þess að þjálfa kennara og vinna að aukinni notkun tækni í skólastarfi.

  


Var efnið hjálplegt? Nei