Umsóknarferlið

  • Umsóknarfrestur fyrir skiptinám til Bandaríkjanna og Kanada er 1. febrúar fyrir haustönn og 1. september fyrir vorönn.
  • Umsóknarfrestur fyrir skiptinám til annarra landa er 1. mars fyrir haustönn og allt skólaárið.
  • Auka umsóknarfrestur fyrir skiptinám á vorönn er 10. september.

Skref 1 – Ákvörðun um skóla

Undirbúningstíminn fyrir skiptinámið er einn mikilvægasti hlutinn af öllu ferlinu því þær spurningar sem koma upp við undirbúning á skiptinámi og þær ákvarðanir sem þarf að taka geta skerpt sýn nemenda á það hvaða stefnu þeir þurfa að taka að loknu námi. Að velja rétta skólann er vandasamt og þá þarf að huga að því hvaða nám viðkomandi skóli býður upp á og hvort það nám henti nemandanum. Því er mikilvægt að vanda valið og ráðlegt er að velja sér tvo skóla, einn í aðalval og annan til vara. Til þess að vera viss um að samningur við viðkomandi skóla sé í gildi þá er rétt að fá það staðfest hjá alþjóðaskrifstofu HR. Gott er að mæta á kynningar á skiptinámi, leita upplýsinga á alþjóðadegi HR og koma í viðtal á alþjóðaskrifstofu.

Skref 2 – Rafræn umsókn til HR

Þegar búið er að ákveða hvaða skóla nemandi vill fara í þá er send inn rafræn umsókn til HR. Umsókn má finna á þínu svæði á MySchool.  Ekki er þörf á að velja námskeið í gestaskóla þegar sótt er um. Það er gert síðar.  Engu að síður er mjög mikilvægt að skoða námsframboð í gestaskóla vel áður en sótt er um.

Þegar umsóknarfrestur er liðinn þá eru umsóknir sendar til deilda þar sem tekin er ákvörðun um hvort nemandin megi fara í skiptinám.  Það tekur u.þ.b. viku og nemendur fá póst frá alþjóðaskrifstofu að því loknu.

Í sumum tilfellum komast nemendur ekki í þau pláss sem þeir sóttu um vegna fjölda umsókna. Þá þarf deild að skera úr um hverjir fá plássin. Einkunnir og fjöldi ára í námi hefur þar áhrif.

Nemendur er síðan tilnefndir til þeirra skóla sem þeir sóttu um og þegar það hefur verið gert þá fá þeir staðfestingu frá gestaskóla  og leiðbeiningar um umsóknarferli. Það getur tekið allt frá einum degi upp í þrjár vikur að fá svar frá viðkomandi gestaskóla. Samstarfsskólar áskilja sér rétt til að velja eða hafna tilnefningum og því er tilnefning ekki staðfesting á því að nemandi hafi komist inn í skólann.  Þegar nemandi hefur hafið umsóknarferli í gestaskóla þá má ganga út frá því sem nokkuð vísu að nemandi komist inn, að því tilskildu að hann sendi öll umbeðin gögn og standist enskupróf sé gerð krafa um það.

Skref 3 – Umsókn í gestaskóla

Nemendur þurfa að senda inn umsókn til gestaskóla og fá þeir leiðbeiningar um það ferli frá gestaskóla eftir að búið er að tilnefna þá þangað af alþjóðaskrifstofu. Mikilvægt er að senda öll gögn sem beðið er um og lesa vel leiðbeiningar sem berast í tölvupósti. Einnig er mikilvægt að skoða vel heimasíður skólanna þar sem koma fram mikilvægar upplýsingar um praktísk mál sem varða skiptinámið eins og húsnæðismál, mikilvægar dagsetningar og þess háttar. 

Skref 4 – Gerð námssamnings (Learning Agreement)

Til að tryggja að námið við gestaskólann gangi upp miðað við námsframvindu þá er gerður námssamningur, Form fyrir námssamning er sent til nemenda þegar þeir hafa verið tilnefndir til gestaskóla.

Námssamningurinn er trygging nemenda fyrir því að skiptinámið verði metið til eininga í HR.  Samningurinn þarf að vera undirritaður af verkefnastjóra deildar, nemanda og fulltrúa frá gestaskóla áður en nemandi fer út í skiptinámið. 

  • Námskeið við gestaskóla eru valin í samræmi við námsáætlun sem er blanda af skyldu- og valnámskeiðum.  Best er að taka sem flest valnámskeið. Það þarf að muna að athuga vel einingafjölda námskeiða, að þau séu kennd á réttri önn og að þau séu í boði fyrir skiptinema!
  • Þegar nemendur hafa fundið námskeið sem þeir telja sig geta tekið þá þarf að senda námskeiðsheiti og lýsingar á verkefnastjóra viðkomandi deildar í HR til að athuga hvort námskeiðin verði metin til eininga. Einnig þarf að hafa á hreinu hvaða skyldunámskeið nemendur þurfa að taka í HR og hvaða námskeið í gestaskóla gætu mögulega verið metin sem slík.
  • Þegar verkefnastjórar hafa samþykkt val á námskeiðum þá þarf að fylla út í námssamninginn, prenta hann út og skila honum undirrituðum (verkefnastjóra HR, nemanda og gestaskóla) til alþjóðaskrifstofu.

Athugið að oft tekur langan tíma að klára námssamninginn vegan skorts á upplýsingum frá gestaskóla og einnig þarf að hafa í huga að deildir í HR þurfa sinn tíma til að fara yfir námskeiðsval. 

Stundum þarf að breyta námssamningi eftir að skiptinámið hefst og þá er mikilvægt að vera í sambandi við deild og alþjóðaskrifstofu HR og uppfæra námssamninginn.

Ábyrgð nemenda

Það er á ábyrgð nemenda að sjá til þess að námssamningur sé samþykktur af heimaskóla. Hafa ber í huga að mismunandi reglur gilda í háskólum og því mikilvægt að nemendur kynni sér vel aðstæður í gestaskóla og fylgi þeim fyrirmælum sem lögð eru fyrir. Nemendur bera jafnframt ábyrgð á samskiptum við gestaskóla er varða endurtekt prófa.

Athugið að í einstaka tilfellum þurfa nemendur að bæta við sig einni önn af námi ef ekki tekst að finna sambærileg skyldunámskeið í gestaskóla. Í flestum tilfellum er þó hægt að hagræða námstilhögun og skal það gert í samráði við viðkomandi deild í HR.

Hætt við

Ef nemandi hættir við af einhverjum ástæðum þá er mikilvægt að láta alþjóðaskrifstofu strax vita.


Var efnið hjálplegt? Nei