RANNSÓKNIR
A. Umfang: Gæðakerfi HR í rannsóknum nær til alls rannsóknarstarfs innan háskólans, þ.e. allra rannsókna akademískra starfsmanna og annarra sem stunda rannsóknir við skólann.
B. Tilgangur: Að styrkja stöðu skólans sem háskóla og gæði rannsókna innan hans og að styðja útfærslu á markmiðum háskólans um kröftugt rannsóknarstarf sem muni efla orðstír skólans á alþjóðavettvangi, næra kennsluna með nýjum hugmyndum og veita nýrri þekkingu inn í bæði atvinnulíf og samfélag (sjá nánar í rannsóknarstefnu HR).
C. Hugtök og skilgreiningar :
1. Árlegt einstaklingsmat: Árlegt mat á rannsóknarstarfi allra akademískra starfsmanna við Háskólann í Reykjavík, en þetta mat er unnið af erlendum sérfræðingum.
2. Akademískur starfsmaður: Akademískur starfsmaður við HR er sá sem hefur gengist undir, eða mun síðar gangast undir, mat til að ákvarða hæfni til að gegna stöðu lektors, dósents, prófessors eða atvinnulífsprófessor.
D. Lykilferli:
Árlegt einstaklingsmat: Á hverju ári stýra fjórir alþjóðlegir sérfræðingar mati á rannsóknarstarfi hvers einstaks akademísks starfsmanns. Þetta mat fór fyrst fram árið 2007. Megintilgangurinn með matinu er að kanna gæði rannsókna og rannsóknastarfsemi allra akademískra starfsmanna við HR á 5 ára bili. Rannsóknarráð HR ber ábyrgð á þessu mati og stjórnar því í samstarfi við Rannsóknarþjónustu HR. Rannsóknarþjónustan sér um að samræma framkvæmd á matsferlinu.
i. Matsnefnd: Matsnefndin er skipuð af Rannsóknarráði HR í samvinnu við deildirnar. Hver deild er beðin um að mæla með að minnsta kosti 5 virtum erlendum sérfræðingum sem hugsanlegum nefndarmönnum, þ.e. 20 nefndarmönnum í allt. Deildirnar eru sérstaklega beðnir að huga að því að hvergi búi nein hagsmunatengsl að baki meðmælum sínum. Úr þessum hópi velur svo Rannsóknarráð matsnefndina, sem er skipuð einum fulltrúa fyrir hvert megin rannsóknarsvið í HR. Auk þess tilnefnir Rannsóknarráðið einn hinna völdu fulltrúa sem formann matsnefndarinnar. Nefndarmönnum er gert að gera grein fyrir hugsanlegum hagsmunaárekstrum sem þeir telja að kunni að vera fyrir hendi.
ii. Matsferlið: Matsnefndin styðst við árlega rannsóknarskýrslu sem sérhver akademískur starfsmaður skólans skilar til að meta rannsóknarstarfsemi hans eða hennar. Öllum háskólastarfsmönnum sem sinna rannsóknum og gefa þær út undir merkjum Háskólans í Reykjavík er skylt að skila árlegri rannsóknarskýrslu fyrir 1. október ár hvert. Matsnefndinni er ætlað að byggja mat sitt fyrst og fremst á gæðum og fjölda birtinga á ritrýndum vettvangi. Nefndin raðar akademískum starfsmönnum í eftirfarandi flokka (categories) á skalanum 0-4.
0) Engin eða smávægileg rannsóknarstarfsemi.
1) Lítil en ekki ómarkverð rannsóknarstarfsemi
2) Framlag til rannsóknarsamfélagsins en lítil áhrif.
3) All nokkur og virk hlutdeild í rannsóknarsamfélaginu, með greinilegu framlagi og áhrifum.
4) Mikilvæg og virk þátttaka í rannsóknarsamfélaginu, með talsverðu framlagi og áhrifum.
iii. Viðmið við matið: Allur samanburður skal miðast við alþjóðlegt rannsóknarsamfélag í hverju fagi og skal byggjast á útgáfu, tilvitnunum í verk, afleiddum verkum, leiðbeiningu doktorsnema og nýdoktora, styrkjum sem hefur verið aflað, stöðu í fræðasamfélaginu o.s.frv. Nefndin er hvött til að nota allan skala kvarðans. Hins vegar ætti ekki að gefa hæstu einkunn nema nefndin álykti að viðkomandi rannsakandi hafi markað sér sterka stöðu á alþjóðavettvangi.
E. Kynning og birting grunngagna, leiðbeininga og niðurstaðna: Í lok mat á rannsóknavirkni einstaklinga er skrifuð matsskýrsla og er henni ritstýrt af meðlimum matsnefndarinnar með aðstoð tengiliðar. Skýrslan er trúnaðargagn og ekki gerð opinber. Skýrslan er gerð aðgengileg viðkomandi deildarforseta og það er á hans eða hennar ábyrgð að kynna niðurstöðurnar fyrir einstökum starfsmönnum. Tölfræðileg samantekt á niðurstöðu matsins er birt á heimasíðu HR. Útkoman úr þessu mati er notuð til grundvallar við skiptingu rannsóknarframlags ríkisins til HR samkvæmt fjárlögum ár hvert. Einnig eru niðurstöður notaðar í árlegum starfsmannaviðtölum deildarforseta.
F. Ábyrgð: Forstöðumaður Rannsóknarþjónustu, formaður Rannsóknarráðs, Rannsóknarráð.