Skipan og starfsreglur siðanefndar HR

Rektor skipar siðanefnd HR og er skipan nefndarinnar samþykkt í framkvæmdastjórn skólans.

Siðanefnd HR

  • Dr. Ingunn S. Unnsteinsdóttir Kristensen formaður nefndar frá stoðsviði (tímabundið)

  • María Kristín Jónsdóttir, af samfélagssviði
  • Svala Ísfeld Ólafsdóttir, af samfélagssviði
  • Hrafn Loftsson, af tæknisviði
  • Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, af tæknisviði
  • María Nína Gunnarsdóttir, fulltrúi nemenda

* Margrét Þóroddsdóttir, formaður frá stoðsviði (er í leyfi)

Samkvæmt starfsreglum siðanefndar HR, skal öllum ábendingum til siðanefndar beint til formanns nefndarinnar. Formaður nefndarinnar, Helgi Héðinsson er með starfsaðstöðu í Opna Háskólanum, 2. hæð. Netfangið helgihedins@ru.is. Einnig má senda ábendingar beint til nefndarinnar sidanefnd@ru.is og berst þá erindið til allra nefndarmeðlima.

Hlutverk nefndarinnar er að taka til skoðunar ábendingar um brot á siðareglum og taka afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum sé að ræða. Frekari upplýsingar um hlutverk nefndarinnar er að finna í starfsreglum hennar.

Skipan og starfsreglur siðanefndar Háskólans í Reykjavík

1. Skipan siðanefndar

1.1  Rektor skipar sex manna siðanefnd. Nefndin skal skipuð formanni sem kemur frá stoðsviðum skólans, einum fulltrúa úr hópi akademískra starfsmanna hverrar deildar samkvæmt tilnefningu viðkomandi deildar og einum fulltrúa tilnefndum af Stúdentafélagi HR.

1.2  Skipunartími nefndarmanna er tvö ár í senn. Tveir til þrír nefndarmenn skulu að jafnaði sitja annað skipunartímabil. Nefndarmenn skulu ekki starfa lengur en fjögur ár samfellt.

2. Valdsvið og hlutverk siðanefndar

2.1  Siðanefnd Háskólans í Reykjavík starfar samkvæmt siðareglum HR, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla.

2.2  Hlutverk siðanefndar HR er:

                 a) að taka til skoðunar ábendingar um brot á siðareglunum

                 b) að taka afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum er að ræða og um grófleika brots.

2.3  Siðanefnd fjallar ekki um mál að eigin frumkvæði.

2.4  Siðanefnd er heimilt að ljúka máli án þess að taka afstöðu sbr. grein 2.2.b ljúki aðilar málinu með sáttum.

2.5  Formaður siðanefndar ritar fundargerð. Í henni skal m.a. tilgreina þær ábendingar sem nefndinni berast, málsmeðferð og ákvarðanir um lok máls.

2.6  Nefndarmaður skal víkja sæti þegar fjallað er um málefni þeirrar deildar sem nefndarmaður tilheyrir, að öðru leyti  skal farið eftir reglum stjórnsýsluréttar varðandi hæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála.

3. Aðild og málsgrundvöllur

3.1  Þeim sem telja að nemendur og starfsmenn Háskólans í Reykjavík hafi brotið gegn siðareglunum er heimilt að leggja mál fyrir siðanefnd.

3.2  Ábendingum til siðanefndar skal beint til formanns nefndarinnar.

3.3  Sé tilefni til ábendinga um brot á siðareglum skal þeim beint til siðanefndar svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en 4 mánuðum frá því að hinn meinti atburður eða háttsemi kom í ljós. Ábending skal vera skrifleg og undirrituð af þeim sem hana ber fram. Í ábendingu skal lýsa þeim atburðum/háttsemi sem eru tilefni hennar og tilgreina með rökstuddum hætti þau ákvæði siðareglna sem meint brot tekur til. Ábendingu skulu fylgja tiltæk gögn um meint brot. Siðanefnd getur ákveðið að aðili sem vísar máli til nefndarinnar skuli njóta nafnleyndar. Þeirri heimild verður aðeins beitt undir sérstökum kringumstæðum.

3.4  Málum eða einstökum þáttum mála sem ekki snerta siðareglur verður vísað frá nefndinni. Hið sama gildir ef mál er augljóslega ekki á rökum reist og um mál sem varða lagareglur sem leyst verður úr fyrir dómstólum eða af stjórnvöldum. Ef máli er vísað frá nefndinni þegar í upphafi skal nefndin tilkynna þeim sem erindi bar fram um þau málalok.

4. Málsmeðferð

4.1  Formaður siðanefndar boðar til fundar innan viku frá því að nefndinni berst ábending. Afgreiðsla mála er bundin við að allir hæfir nefndarmenn séu viðstaddir.

4.2  Ef ábending er tekin til skoðunar ákveður siðanefnd hvort afla þurfi frekari gagna. Nefndin getur krafið þann sem ábendingu ber fram um frekari gögn eða upplýsingar sem hann getur látið í té. Nefndin hefur einnig aðgang að gögnum sem málið varðar í skjalasöfnum HR.

4.3  Siðanefnd getur leitað álits hjá sérfróðum aðilum innan HR eða utan sé til þess ástæða.

4.4  Siðanefnd skýrir aðila sem málið varðar frá framkominni ábendingu, óskar eftir gögnum sem hann getur látið í té og gefur honum kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, enda liggi afstaða hans og rök ekki þegar fyrir. Siðanefnd getur sett málsaðila ákveðinn frest í þessu skyni. Sá frestur skal að jafnaði vera tvær vikur. Athugasemdir málsaðila og þau gögn sem hann kann að vilja leggja til málsins skulu berast nefndinni skriflega innan tímafrests. Nefndin getur ákveðið að afla munnlegra upplýsinga og/eða kalla málsaðila, annan eða báða, til skýrslugjafar. Siðanefnd skal skrá allar upplýsingar sem veittar eru munnlega og hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Skráningin skal þá borin undir málsaðila til samþykktar. Siðanefnd er heimilt er að gera hljóðupptöku af slíkum fundum eða skýrslutökum með samþykki málsaðila.

4.5  Málsaðilum skulu að jafnaði kynnt gögn máls eftir því sem þau berast nema slíkt sé bersýnilega óþarft eða réttmætar ástæður mæla gegn því að mati siðanefndar.

4.6  Ef málsaðilar sinna ekki tilmælum um afhendingu gagna eða athugasemda innan tímafrests skulu þau ítrekuð með nýjum stuttum fresti. Sinni sá aðili sem ábending varðar ekki slíkum tilmælum verður niðurstaða siðanefndar byggð á fyrirliggjandi upplýsingum. Ef upphafsmaður máls sinnir ekki tilmælum um framlagningu gagna erindi sínu til stuðnings eða mál verður að öðru leyti ekki nægilega upplýst er siðanefnd heimilt að vísa máli frá.

5. Niðurstaða og viðbrögð

5.1  Siðanefnd skal ljúka máli svo fljótt sem unnt er. Erindi sem berast á reglulegum skólatíma skal að jafnaði lokið innan 8 vikna frá því ábending barst nefndinni. Berist ábending milli anna skal formaður boða til fundar við fyrsta tækifæri en aldrei seinna en í fyrstu viku næstu annar.

5.2  Siðanefnd skal taka rökstudda afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum HR er að ræða. Í rökstuðningi skal rekja málsatvik í stuttu máli og þær reglur sem brotið er gegn. Ef ákvörðun byggist á mati eða túlkun siðareglna skal í rökstuðningnum greina frá þeim sjónarmiðum sem ráðandi voru við matið eða túlkunina. Ef það er niðurstaða siðanefndar að um brot á siðareglum hafi verið að ræða skal einnig koma fram afstaða hennar til grófleika brots og hvort brot eru ítrekuð.

5.3  Niðurstaða siðanefndar er skrifleg og tilkynnt málsaðilum, rektor, forseta viðkomandi deildar eða framkvæmdastjóra stoðsviða. Siðanefnd getur ákveðið að gögn og niðurstaða einstakra mála sé trúnaðarmál.

5.4  Niðurstöður siðanefndar eru endanlegar og verður ekki áfrýjað.

5.5. Viðbrögð við brotum á siðareglum HR eru ákveðin af deildarforseta, rektor eða framkvæmdastjóra eftir atvikum, sem hafa heimild til að veita nemanda / starfsmanni áminningu eða víkja honum úr námi eða starfi tímabundið eða varanlega. Viðurlög skulu taka mið af grófleika brotsins, sem er ákveðinn af siðanefnd HR. Eftirfarandi gildir almennt um viðurlög vegna brota á siðareglum HR:

a. Fyrsta brot á siðareglum HR varðar áminningu nema um gróft brot sé að ræða, þá getur það varðað tímabundinni eða varanlegri brotvikningu allt eftir eðli málsins.

b. Annað brot á siðareglum HR leiðir að jafnaði til tímabundinnar eða varanlegrar brottvikningar. Deildarforseti, rektor eða framkvæmdastjóri getur þó í vægari tilvikum gert undanþágu og veitt áminningu.

c. Gróf eða ítrekuð brot skulu að jafnaði varða varanlegri brottvikningu.

Samþykkt af rektor og framkvæmdastjórn í október 2007.
Endurskoðað og samþykkt af rektor og framkvæmdastjórn í september 2011.
Endurkoðað og samþykkt af rektor og framkvæmdastjórn í mars 2013. Viðbót við 5.5. grein starfsreglna siðanefndar HR.


Var efnið hjálplegt? Nei