Jafnréttisdagar

Jafnréttisdagar verða haldnir hátíðlegir í HR eins og í öðrum háskólum á landinu dagana 3. -7. febrúar nk.

Jafnréttisdagar 2020Dagarnir eru árlegur vettvangur til að skoða jafnréttisbaráttu, forréttindi, fjölbreytileika, þöggun, vald og mismunun en Jafnréttisdagar hafa verið haldnir á sama tíma árlega af öllum háskólum landsins frá árinu 2015.

Eitt af markmiðum HR er að útskrifa nemendur „ sem leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð, jafnrétti, nýsköpun og þróun sem miðar að aukinni sjálfbærni með gott siðferði að leiðarljósi.

Háskólinn í Reykjavík vinnur markvisst að innleiðingu PRME-markmiðanna þvert á deildir háskólans en PRME er hluti af vinnu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en tvö þeirra fjalla um jafnrétti eins og það birtist okkur á Jafnréttisdögum: Menntun fyrir alla og Jafnrétti kynjanna .

Dagskrá Jafnréttisdaga HR er unnin í kröftugu samstarfi við Stúdentafélag HR (SFHR) og þar kennir ýmissa grasa:

Mánudagur:
Kl. 12-12.30  Sólin

  • Ari rektor ávarpar skólann og opnar Jafnréttisdaga formlega.
  • Jafnréttiskaka verður borin á borð. Fáðu þér eins og eina sæta réttindasneið eftir matinn.

Þriðjudagur:
12-13  Stofa M101

  • Náms- og starfsráðgjöf HR veit eitt og annað um jafnrétti til náms og hvaða rétt þú hefur til sértækra úrræða í námi.
  • Komdu og kynntu þér hvernig kvíði, prófkvíði og lesröskun getur hamlað þér í námi og daglega lífinu. Hvaða úrræði eru í boði til að ná góðum tökum á kvíðanum og hvernig er komið til móts við nemendur með lesraskanir.

Miðvikudagur:
Kl. 12:00-13:00  Stofa M101

  • Queer Ísland – qvað er það?
  • Samtökin eru fyrir alla sem láta sig hinsegin mál varða. Hvort sem þú skilgreinir þig nú þegar sem hinsegin eða ert óviss um kynhneigð þína þá er Q fyrir þig. Verum saman, komið og takið þátt í starfinu!

Fimmtudagur:
Kl. 12:00-13:00 Stofa M208

  • Fræðslustýra Samtakanna 78 kemur í heimsókn og fer yfir grunninn að hinseginleikanum. Kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning. Hvað þýðir þetta allt saman?

Kl. 20-22  Bragginn
  • Pubquiz á Bragganum með ómótstæðilegum jafnréttistilboðum fyrir nemendur HR. SFHR hefur vakið og sofið yfir spurningagerð undanfarnar vikur. Fjölmennið fjölmennin ykkar!

Hér má sjá alla viðburði á Jafnréttisdögum

Uppruna samstarfs háskólanna við verkefnið Jafnréttisdaga má rekja til samstarfs jafnréttisfullrúa Háskóla Íslands og Listaháskólans 2015 en verkefnið fékk svo formlegri grundvöll á fundi sem þáverandi Jafnréttisfulltrúi Menntamálaráðuneytisins, Jóna Pálsdóttir, kallaði til og sameinaði þar jafnréttisfulltrúa allra háskóla landsins í samvinnu sem sér ekki fyrir endann á. 

Eftir því sem best verður komist er samstarfsverkefnið Jafnréttisdagar einstakt í heiminum því hvergi annarsstaðar þekkist álíka samstarf á háskólastigi eins og þetta þar sem ólík háskólasamfélög vinna saman að því að rækta sitt innra samfélag með áhrifum á það ytra.


Var efnið hjálplegt? Nei