Samfélagsskýrsla Háskólans í Reykjavík

Hlutverk Háskólans í Reykjavík (HR) er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi.

Stefna Háskólans í Reykjavík er að vera öflugur kennslu- og rannsóknaháskóli með áherslu á tækni, viðskipti og lög.

Kjarnastarfsemi Háskólans í Reykjavík er kennsla og rannsóknir í sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag, þar sem áhersla er lögð á þverfagleika, alþjóðleg viðmið, nýsköpun og faglega þjónustu. Starfsemin mótast af persónulegum tengslum og virðingu fyrir samfélagi og umhverfi.

Akademískar deildir HR eru sjö: iðn- og tæknifræðideild, verkfræðideild, tölvunarfræðideild, íþróttafræðideild, viðskiptadeild og lagadeild. Í þessum deildum eru stundaðar alþjóðlega viðurkenndar rannsóknir og þar fer fram kennsla í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi. Við HR er einnig hægt að stunda eins árs undirbúningsnám fyrir háskólanám sem heitir Háskólagrunnur HR. Opni háskólinn í HR býður upp á úrval lengri og styttri námskeiða fyrir fólk í atvinnulífinu sem hægt er að stunda meðfram vinnu.

Ábyrgir framtíðarleiðtogar

HR er þátttakandi í PRME (Principles for Responsible Management Education) verkefni Sameinuðu Þjóðanna sem er hluti af Global Compact-áætluninni ásamt u.þ.b 650 háskólum um allan heim. Viðskiptadeild HR reið á vaðið árið 2013 og innleiddi PRME-markmiðin sex í viðskiptadeild. Markmiðin sex fela í sér að háskólasamfélagið skuldbindi sig til að mennta og þjálfa framtíðarleiðtoga sem hafa samfélagsábyrgð að leiðarljósi í sinni ákvarðanatöku:

  1. Við munum leitast við að mennta nemendur okkar með það að leiðarljósi að þeir verði leiðandi í uppbyggingu á sjálfbærni í viðskiptum ásamt því að þeir geti unnið að heildrænum og sjálfbærum lausnum á vandamálum framtíðarinnar.
  2. Við munum leitast við að samtvinna hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og samfélagsábyrgðar við gerð námsskrár, námsefnis og í kennslu við háskólann.
  3. Við munum bjóða upp á námsefni, kennsluaðferðir og aðstæður sem gera nemendum kleift að efla færni og skilning á því hvað það er að vera ábyrgur stjórnandi. 
  4. Við munum leggja áherslu á að stunda rannsóknir sem auka skilning á bæði hlutverki sem og mögulegum áhrifum fyrirtækja og stofnana á þróun samfélags, umhverfis og efnahagslegra gilda.
  5. Við munum auka samskipti og samstarf við stjórnendur fyrirtækja í þeim tilgangi að auka skilning okkar á þeim samfélagslegu og umhverfislegu áskorunum sem þau standa frammi fyrir ásamt því að þróa með þeim árangursríkar leiðir til að takast á við þessar áskoranir. 
  6. Við munum standa fyrir og styðja við gagnrýna umræðu á meðal kennara, nemenda, fyrirtækja, stofnana, stjórnvalda, fjölmiðla og annarra áhugasamra aðila í samfélaginu um mikilvæg málefni tengd sjálfbærni og samfélagsábyrgð.

Háskólinn í Reykjavík hefur gefið út tvær framvinduskýrslur PRME, eina árið 2014 og aðra árið 2016, og hlutu þær báðar verðlaun. Árið 2017 var tekin ákvörðun um að innleiða PRME-markmiðin þvert á allar deildir háskólans. Horft er til þess að ábyrg stjórnun sé ekki eingöngu málaflokkur sem snertir þá sem mennta sig í viðskiptafræði og tengdum greinum því framtíðarleiðtogar koma úr öllum fögum og fræðigreinum. 

Samfélagslega ábyrgir nemendur

Nemendafélög innan Háskólans í Reykjavík standa fyrir viðburðum og öðru sem snúa að umhverfismálum, samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni. Innan Stúdentafélags háskólans er starfandi góðgerðanefnd og nemendur starfrækja einnig félag sem ber nafnið Birta og er félag um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni. Birta stendur meðal annars fyrir viðburðum og vitundarvakningu sem tengjast umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð, þar á meðal umhverfisviku HR og samgönguviku. Nemendur starfrækja einnig Jafnréttisfélag og er fulltrúi þess í jafnréttisnefnd HR. Lögrétta, félag laganema, býður almenningi endurgjaldslausa lögfræðilega aðstoð sem og aðstoð við framtalsgerð. Undanfarin tvö ár hefur verið lögð áhersla á umhverfismál, samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni í þverfaglegu þriggja vikna námskeiði sem nær allir nemendur HR ljúka á fyrsta árið og ber nafnið „Nýsköpun og stofnun fyrirtækja“. Sérstök verðlaun eru veitt þeim nemendahópi sem leggur mesta áherslu á sjálfbærni í sínu verkefni.

Jafnrétti í Háskólanum í Reykjavík

Ný jafnréttisáætlun HR

Ný jafnréttisáætlun Háskólans í Reykjavík var samþykkt og gefin út í Jafnréttisviku 2018. Það er Jafnréttisnefnd HR sem vann nýju stefnuna og helstu efnisatriði hennar snúa að launum og kjörum, ráðningum, framgangi, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og skilgreiningum og reglum vegna kynbundins ofbeldis og kynferðislegrar áreitni. Stefnan er mun ítarlegri en fyrri jafnréttisstefna en allt sem kveðið er á um í henni er aðgerðabundið og ábyrgðin skýr. Í nýrri jafnréttisstefnu er fjallað um jafnrétti í innra starfi háskólans. Það þýðir að meiri gaumur er gefinn að því hverjir kenna skyldukúrsa, dæmatíma og sinna aðstoðarkennslu. Þar er einnig kveðið á um að við inntöku nemenda verði þess gætt eftir megni að taka inn fleiri einstaklinga af því kyni sem er í minnihluta. Í nýju stefnunni er ekki talað um karla og konur heldur tekið fram að réttindi og ferlar séu óháðir kyni, það er, kynsegin (e. non-binary). 

Meðal þess sem kveðið er á um í stefnunni er að gera skuli úttekt á launum á að minnsta kosti þriggja ára fresti. Árlega skal birta samantekt um ráðningar í stjórnunarstöður í jafnréttisskýrslu og sömuleiðis skal á hverju ári taka saman og birta tölfræði yfir m.a. kynjasamsetningu, þjóðerni og aldursdreifingu starfsmanna. Niðurstöðurnar skulu birtar fyrir skólann í heild, hverja deild, akademískar stöður, stjórnunarstöður og helstu nefndir og ráð. Lesa má stefnuna hér: https://www.ru.is/skipulag/stefnur/jafnrettisaaetlun/

Jafnlaunavottun fyrst íslenskra háskóla

Árið 2018 fór fram vinna við undirbúning jafnlaunavottunar. Upphaflega stóð til að stærstu fyrirtækin með 250 starfsmenn eða fleiri myndu ljúka ferlinu fyrir áramótin 2018/2019. Þó að fresturinn hafi verið framlengdur um eitt ár ákvað HR að halda fyrri áætlun og hefur nú hlotið staðfestingu á því að jafnlaunakerfi háskólans standist kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Gerðar voru tvær úttektir á jafnlaunakerfi HR af fulltrúum BSI á Íslandi sem er faggild skoðunarstofa á Íslandi og umboðsaðili BSI-group (British Standards Institution). HR fær formlega afhent jafnlaunaskírteini frá BSI í lok mars 2019 og hlýtur þar með jafnlaunavottun og í kjölfarið leyfi til að nota merki jafnlaunavottunar frá jafnréttisstofu og velferðarráðuneytinu.

Stelpur og tækni

Stelpur og tækni dagurinn er haldinn árlega af Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við Samtök iðnaðarins og SKÝ. Árið 2018 var hann einnig í samstarfi við aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Tilgangurinn er að kynna möguleika í tækninámi og -störfum fyrir stelpum í 9. bekk grunnskóla og opna augu þeirra fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða. Dagurinn er haldinn að fyrirmynd Girls in ICT Day sem haldinn er víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna. Stelpur í 9. bekkjum grunnskóla fengu að spreyta sig á skemmtilegum verkefnum á vinnustofum í HR og heimsækja helstu tæknifyrirtæki landsins og hitta kvenfyrirmyndir í faginu. Dagurinn hefur verið mjög vel sóttur og um 700 stúlkur tóku þá í honum árið 2018. /Sys/tur er félag kvenna í tölvunarfræði innan HR sem var stofnað með það að markmiði að fjölga konum í tölvunarfræði. /sys/tur taka virkan þátt í því að kynna námið fyrir stúlkum og konum og fá m.a. til liðs við sig konur úr atvinnulífinu til að kynna sín störf.

Fræðsla um kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi

Í byrjun árs 2018 stóð mannauðssvið fyrir fræðslu fyrir starfsmenn og stjórnendur í HR um kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Fræðslan var í samstarfi við sálfræðistofuna Líf og sál. Umfjöllunarefnið var hegðun á vinnustað, einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi, birtingarmyndir, forvarnir, hlutverk samstarfsfólks og stjórnenda. Yfir 80% fastráðinna starfsmanna sóttu námskeiðin. 

Settur var á fót #metoo karlahópur sem bauð karlkyns starfsmönnum HR á vinnustofu. Tilgangur vinnustofunnar var fræðsla og umræða um kynbundna áreitni og tengd viðfangsefni. 

Times Higher Education birti lista yfir hvaða háskólar í heiminum hafa mest jákvæð áhrif á samfélagið, út frá sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Háskólinn í Reykjavík var þar í sæti 101-200 á listanum. HR fær sérstaklega góða einkunn fyrir fimmta sjálfbærnimarkmiðið, Jafnrétti kynjanna sem snýr að því að tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja stöðu kvenna og stúlkna. Þar er HR í 59. sæti. HR fær einnig mjög góða einkunn fyrir fjórða sjálfbærnimarkmiðið „Menntun fyrir alla“ sem snýr að því að tryggja gæðamenntun án aðgreiningar með jafnræði að leiðarljósi og að skapa tækifæri til símenntunar fyrir alla. Þar er HR í 86. sæti.
Við gerð listans er m.a. tekið tillit til áhrifa háskóla á hagvöxt, atvinnulíf, þróun innviða, viðbrögð við loftslagsbreytingum o.fl.

Niðurstöðurnar í heild sinni má nálgast á vef Times Higher Education .

Umhverfismál Háskólans í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík skrifaði undir samning við Reykjavíkurborg í lok árs 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í kjölfarið var settur saman umhverfishópur sem hefur verið starfandi síðan 2016. Meðal verkefna hópsins má nefna að vinna að því að draga úr plastnotkun t.a.m með því að fjarlægja plastmál við vatns og kaffivélar í öllum eldhúsum HR. Umhverfishópurinn hefur einnig beitt sér fyrir að sorpflokkunarmál væru tekin fastari tökum, nákvæmari og betri merkingar hafa verið settar upp sem og leiðbeiningar og fræðsla sem hvetja til flokkunar. Ruslafötur voru fjarlægðar af öllum skrifstofum og nú er eingöngu notast við flokkunartunnur. Tunnum fyrir lífrænt sorp hefur verið fjölgað.

HR hefur verið með samgöngustefnu og veitt starfsmönnum samgöngustyrki síðan árið 2016. Styrkirnir voru nýlega hækkaðir til að auka enn hvatann til að nota vistvænar samgöngur. Háskólinn í Reykjavík hefur einnig hlotið Gullvottun frá Hjólafærni og ÍSÍ fyrir að vera hjólavænn vinnustaður. Árlega tekur HR þátt í átakinu í Hjólað í vinnuna og býður starfsmönnum upp á ástandsskoðun reiðhjóla.

Háskólinn í Reykjavík var fyrstur til bjóða upp á deilibílaþjónustuna Zipcar á Íslandi árið 2018. Á dagskrá fyrir árið 2019 er að setja upp rafmagnshleðslustöðvar við 12 bílastæði og bjóða nemendum og starfsmönnum endurgjaldslausa tveggja klukkustunda hleðslu. Einnig er á dagskrá fyrir árið 2019 að byggja hjólaskýli á lóð háskólans og tryggja þannig nemendum HR betri aðstöðu fyrir reiðhjól. Umhverfishópur er einnig að vinna að því að endurskoða og uppfæra umhverfisstefnu HR og er sú vinna í gangi. 

Siðareglur Háskólans í Reykjavík og Siðanefnd

Háskólinn í Reykjavík hefur ekki sett sér mannréttindastefnu en mannauðsstefna , jafnréttisáætlun , siðareglur og önnur stefnuskjöl ná utan um þann hluta sem snýr að mannréttindum, t.a.m þegar kemur að nemendum með fötlun og hömlun . Í HR er starfandi siðanefnd og starfar hún samkvæmt siðareglum skólans. Háskólinn í Reykjavík er þekkingarsamfélag þar sem nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn starfa saman að öflun, nýsköpun og miðlun þekkingar. Í slíku samfélagi er mikilvægt að allir taki siðferðislega ábyrgð á störfum sínum. Til þess að þetta megi takast vill skólinn skapa starfsumhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af virðingu, heilindum, sanngirni og jafnrétti. Markmið siðareglna Háskólans í Reykjavík er að stuðla að því að hegðun þeirra sem starfa innan skólans uppfylli ýtrustu siðferðiskröfur sem gerðar verða innan háskóla.


Var efnið hjálplegt? Nei