Stefna Háskólans í Reykjavík

Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi.   

Stefna Háskólans í Reykjavík er að vera öflugur kennslu- og rannsóknaháskóli með áherslu á tækni, viðskipti og lög.

Kjarnastarfsemi Háskólans í Reykjavík er kennsla og rannsóknir í sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag, þar sem áhersla er lögð á þverfagleika, alþjóðleg viðmið, nýsköpun og faglega þjónustu. Starfsemin mótast af persónulegum tengslum og virðingu fyrir samfélagi og umhverfi.

Nám og kennsla

Háskólinn í Reykjavík býður nemendum framúrskarandi menntun sem skilar víðtækri þekkingu á fagsviði, djúpum skilningi á einstökum þáttum, hugtökum og kenningum, leikni í að beita aðferðum fagsviðs og hæfni til að nýta þekkingu í námi og starfi. Sérstaða náms við HR felst í áherslu á fjölbreyttar kennslu- og námsmatsaðferðir, raunhæf verkefni, virka þátttöku nemenda og tengsl námsins við atvinnulíf og samfélag. Náminu er ætlað að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, sköpunarhæfni og sjálfstæðum vinnubrögðum.

Rannsóknir

Við Háskólann í Reykjavík eru stundaðar metnaðarfullar rannsóknir sem næra kennslu, stuðla að nýsköpun og veita nýrri þekkingu inn í atvinnulíf og samfélag. Rannsóknir eru skapandi starf og brautryðjendaverk sem verður einungis stjórnað af  þeim drifkrafti sem knýr hvern vísindamann. Rannsóknir eru metnar samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og skulu hlutleysi, fagmennska og vísindaleg vinnubrögð höfð í heiðri. 

Tengsl við atvinnulíf og samfélag

Í starfi Háskólans í Reykjavík er lögð áhersla á samstarf, innanlands og erlendis, sem grundvallast á heilindum og virðingu fyrir heildarhagsmunum samfélagsins. HR tekur virkan þátt í mótun og uppbyggingu atvinnulífs og samfélags og leggur áherslu á að mæta þörf fyrir sérfræðiþekkingu með menntun, rannsóknum, nýsköpun, þróun og þátttöku í samfélagsumræðu. Þá leggur HR ríka áherslu á að halda góðum tengslum við útskrifaða nemendur og mæta þörf einstaklinga fyrir símenntun.

Alþjóðlegt starf

Háskólinn í Reykjavík er alþjóðlegt háskólasamfélag sem notar alþjóðleg viðmið í rannsóknum, kennslu og stjórnun. HR starfar markvisst með leiðandi erlendum háskólum og rannsóknastofnunum og leggur áherslu á að þjálfa nemendur í alþjóðlegum samskiptum.  

Þverfaglegt starf

Háskólinn í Reykjavík leggur áherslu á þverfaglegt starf í kennslu og rannsóknum í því skyni að efla færni og víðsýni. Virk samskipti, gagnkvæmur skilningur og virðing fyrir framlagi fræðigreina eru forsendur þverfaglegs samstarfs.

Nýsköpun

Háskólinn í Reykjavík er uppspretta og driffjöður nýsköpunar og leggur áherslu á að efla frumkvöðlafærni. HR skapar tækifæri fyrir hagnýtingu þekkingar og tækni með rannsóknum, kennslu og tengslum við atvinnulíf og samfélag. 

Gæðastýring

Háskólinn í Reykjavík vinnur stöðugt að því að auka gæði náms, kennslu, rannsókna, stjórnunar, þjónustu og tengsla við atvinnulíf og samfélag. HR gætir þess að starfsemin sé í samræmi við viðurkennd innlend og alþjóðleg viðmið.

Mannauður

Árangur Háskólans í Reykjavík byggir fyrst og fremst á hæfileikaríku starfsfólki sem endurspeglar fjölbreytt viðhorf. HR býður starfsfólki hvetjandi starfsumhverfi, áskorun í starfi, faglega endurgjöf og tækifæri til að eflast, þróast og hafa áhrif.  HR býður sanngjörn og samkeppnishæf starfskjör, sveigjanleika og tækifæri til að sinna fjölskyldu, einkalífi og heilbrigðu líferni. HR leggur áherslu á jöfn tækifæri. Starfsfólk HR sýnir fagmennsku og ábyrgð í starfi og sinnir því af jákvæðni og heilum hug.

Þjónusta og aðbúnaður

Háskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að þjónusta, aðstaða og tækniumhverfi skapi góð skilyrði til náms og starfs og séu samkeppnishæf í alþjóðlegu háskólaumhverfi. Í HR eru boðleiðir stuttar og þjónustan einkennist af fagmennsku, jákvæðni, skilvirkni og persónulegu viðmóti.

Samþykkt af framkvæmdastjórn í nóvember 2011.


Var efnið hjálplegt? Nei