Áætlun um viðbrögð við tilkynningum og kvörtunum um einelti og kynferðislega áreitni

Starfsmenn og nemendur skulu koma fram við hver annan af virðingu og í samræmi við Siðareglur HR . Hverskonar einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin við Háskólann í Reykjavík. Við slíkum tilvikum skal brugðist samkvæmt áætlun.

Skilgreiningar

Háskólinn í Reykjavík skilgreinir einelti í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015: Ámælisverð
eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að
niðurlægja, gera litið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim
sem hún beinist að.

Háskólinn í Reykjavík styðst við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008
varðandi skilgreiningu á kynbundinni og kynferðislegri áreitni:

Kynbundin áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess
sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og
er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur
verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er
alvarlegt.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í
óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir
að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin
eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Tilkynningar / kvartanir

Nemandi sem telur sig hafa orðið fyrir einelti eða áreitni af hálfu starfsmanns eða nemanda er hvattur til að tilkynna slíkt til deildarforseta, forstöðumanns námsbrautar, Siðanefndar, sviðsforseta eða rektors. Varði kvörtunin einhvern af ofangreindum aðilum skal leita til næsta stjórnunarlags fyrir ofan viðkomandi aðila. Vitni að einelti, áreitni eða ofbeldi eru jafnframt hvött til að vekja athygli ofangreindra aðila á slíkri hegðun. Nemendur eru
einnig hvattir til að leita til Náms- og starfsráðgjafar HR til að fá ráðgjöf, stuðning og leiðbeiningar um ferlið við tilkynningar og meðhöndlun þeirra.

Viðbrögð

Brugðist skal við öllum tilkynningum/kvörtunum um einelti eða áreitni með formlegri athugun.
Ef ástæða þykir til skal kallaður til sérfróður óháður aðili sem leggur mat á málavexti og
staðfestir hvort um einelti eða áreitni sé að ræða. Sá sem leggur fram kvörtunina á rétt á því
að óska eftir að slíkt verði gert. Sé kvörtun um einelti eða áreitni staðfest getur það varðað
áminningu eða brottrekstur geranda úr starfi/námi.


Viðbragðsáætlun endurskoðuð og samþykkt í mars 2019
Reglur þessar voru settar í október 2012

 


Var efnið hjálplegt? Nei