Launastefna

Háskólinn í Reykjavík (HR) greiðir laun sem taka mið af þeim kröfum sem störf útheimta um menntun, þekkingu, hæfni og ábyrgð. Launastefna samrýmist mannauðsstefnu HR.

  • Háskólinn í Reykjavík er með einstaklingsbundna ráðningarsamninga og er ekki aðili að almennum kjarasamningum. 
  • HR ber skylda til að bjóða ekki lakari heildarkjör (greiðslur og hlunnindi) en almennir kjarasamningar segja til um.
  • Notast er við viðmiðunarkjarasamninga þegar kemur að veikindarétti og orlofsrétti starfsmanna, en eingöngu í þeim tilfellum. Það á t.d. ekki við þegar kemur að uppsagnarfresti eða öðrum kjörum.
  • Launaákvarðanir eru skjalfestar, rökstuddar, rekjanlegar og undirritaðar af ábyrgðaraðilum.
  • Umfang og eðli starfs hefur áhrif á laun og ræðst af þáttum eins og menntun, reynslu, þekkingu, hæfni, ábyrgð, frammistöðu, álagi, mannaforráðum, samstarfshæfileikum, stjórnun og umfangi verkefna.
  • Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við launauppbyggingu HR, studdar rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf. 
  • Ákvarðanir um launabreytingar eru teknar af framkvæmdastjórn HR einu sinni á ári. Framkvæmdastjóri mannauðs og gæða fer yfir laun allra fasta starfsmanna tvisvar á ári; annars vegar við gerð fjárhagsáætlunar þegar ákvörðun um heildarsvigrúm til launahækkana er tekin og hins vegar við árlega launaendurskoðun og launaviðtöl til að tryggja að samræmis sé gætt í launagreiðslum. Launaendurskoðun HR er framkvæmd árlega í febrúar/mars en launabreytingar taka gildi frá 1. janúar ár hvert. 
  • Í HR eiga að vera til starfslýsingar fyrir öll störf. Þar skulu koma fram allir meginþættir starfs, svo sem kröfur um menntun, hæfni, reynslu og þá ábyrgð sem í starfinu felst.
  • HR hefur það að markmiði að tryggja öllum starfsmönnum jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn launamunur sé til staðar. Tryggja skal öllum jafna möguleika til starfa, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, endurmenntunar og starfsþjálfunar.


Rektor ber ábyrgð á launastefnu Háskólans í Reykjavík. Rektor ber einnig ábyrgð á jafnlaunastefnu HR og að þeim lagalegu kröfum og öðrum kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu sé framfylgt. Framkvæmdastjóri mannauðs sér um framfylgd launastefnunnar ásamt innleiðingu á jafnlaunakerfi sem og rýni, viðhaldi og stöðugum úrbótum á því.Var efnið hjálplegt? Nei