Stjórnarháttayfirlýsing HR

Stjórnarhættir

Stjórnarhættir Háskólans í Reykjavík ehf. (hér eftir nefnt „HR“) taka fyrst og fremst mið af lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög [1], samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. HR leggur áherslu á að viðhafa góða stjórnarhætti og hefur því ákveðið að taka mið af Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, 5. útgáfu, sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins [2], hvað stjórnarhætti félagsins varðar. HR telur sig fylgja leiðbeiningunum í öllum megindráttum en víkur þó frá nokkrum tilmælum þeirra vegna sérstöðu félagsins. 

Helstu frávik eru:

 • Það eru ekki undirnefndir starfandi á vegum stjórnar þar sem stjórn sinnir þeim verkefnum sem slíkum undirnefndum yrði annars falið að sinna.
 • Það er ekki tilnefningarnefnd hjá HR þar sem kosning og val stjórnarmanna er ákveðin í samþykktum skólans og í hluthafasamkomulagi allra hluthafa skólans.
 • Upplýsingagjöf til hluthafa um hluthafafundi og stjórnarhætti fer fram í gegnum lokað vefsvæði í stað þess að birta allar upplýsingar á heimasíðu skólans.
 • Stjórnarháttayfirlýsing þessi er eingöngu birt á heimasíðu skólans í stað þess að birta hana í ársreikningi eða ársskýrslu.

Stjórn

Stjórn fer með æðsta vald í málefnum HR milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri HR í samráði við háskólaráð í stærri og stefnumarkandi málum. Stjórn félagsins er skipuð fimm einstaklingum sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára í senn. Hluthafar hafa rétt til að tilnefna stjórnarmenn í samræmi við gildandi hluthafasamkomulag á hverjum tíma. Formaður stjórnar skal tilnefndur sameiginlega af hluthöfum félagsins á aðalfundi. Stjórnin er nú skipuð þremur körlum og tveimur konum, kynjahlutföll eru því 60% karlar og 40% konur. Stjórnarmenn búa yfir víðtækri menntun og fjölbreyttri starfsreynslu.

Stjórn hefur sett sér ítarlegar starfsreglur, í samræmi við ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, samþykktir félagsins og Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og rektors eru skilgreind. Gildandi starfsreglur stjórnar voru staðfestar á stjórnarfundi 7. maí 2020 og eru að finna á heimasíðu félagsins.

Almennt er miðað við að reglulegir fundir stjórnar séu haldnir á fjögurra til sex vikna fresti en fundarhlé er gert í júlí nema sérstakar aðstæður kalli á fund. Á árinu 2019 voru haldnir 11 stjórnarfundir. Mættu allir stjórnarmenn á meirihluta stjórnarfunda ársins 2019, en í einstaka tilfellum vantaði einn stjórnarmann á fundi.

Stjórn félagsins skipa:

 • Hjörleifur Pálsson, formaður stjórnar, hefur setið í stjórn félagsins frá júlí 2014 og í háskólaráði frá júní 2010. Hjörleifur er fæddur árið 1963 og er viðskiptafræðingur að mennt og hlaut löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 1989 og starfaði sem endurskoðandi til 2001. Hann var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Össurar hf. frá 2001 til 2013. Frá 2013 hefur Hjörleifur setið í stjórnum margskonar fyrirtækja og fjárfest í og stutt við nýsköpunarfyrirtæki. Í dag er hann stjórnarformaður Sýnar hf., í fjárfestingarráði Akurs fjárfestinga slhf., í stjórn Brunns vaxtarsjóðs slhf., Lotus Pharmaceutical Co., Ltd í Taiwan og Ankra ehf. Hjörleifur er formaður tilnefningarnefndar Icelandair Group hf. og í endurskoðunarnefnd Landsbankans hf..
 • Frosti Ólafsson, hefur setið í stjórn félagsins frá júlí 2014. Frosti er fæddur árið 1982 og með BSc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og Macquire University í Sydney, auk MBA gráðu frá London Business School. Frosti er fráfarandi forstjóri ORF Líftækni og situr einnig í stjórnum Grunnstoðar ehf., Íslandsbanka og framtakssjóðsins Freyju.
 • Guðrún Hafsteinsdóttir, hefur setið í stjórn félagsins frá desember 2016 og í háskólaráði frá september 2014. Guðrún er fædd árið 1970 og er með BA próf í mannfræði og kynjafræði frá Háskóla Íslands, auk diplómanáms í hagnýtum jafnréttisfræðum. Guðrún er markaðsstjóri Kjöríss ehf. og situr m.a. í stjórnum eftirfarandi félaga, Samtaka atvinnulífsins, Steingerði ehf., Kjörís ehf., stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða og Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
 • Ásta Sigríður Fjeldsted er fædd árið 1982 og hún er með Bsc og Ms próf í vélaverkfræði frá DTU. Ásta er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og hefur setið í stjórn frá árinu 2017. Ásamt því að sitja í stjórn HR og tengdum félögum þ.e. dótturfélaginu Grunnstoð ehf. og Nauthólsvegi 83 hses og Nauthólsvegi 85 hses. Einnig situr Ásta í stjórn NDF (Nordic Development Fund), Útflutnings- og markaðsráði og er formaður Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Hún er einnig ræðismaður Slóveníu á Íslandi.
 • Halldór Benjamín Þorbergsson er fæddur árið 1979. Hann er með Bsc próf í hagfræði frá HÍ og MBA frá Oxford háskóla. Hann er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og hefur setið í stjórn HR frá árinu 2017.
Hjörleifur Pálsson og Frosti Ólafsson eru óháðir stjórnarmenn innan stjórnar HR í skilningi Leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja.

Stjórnin skal árlega meta störf sín og félagsins í heild í samræmi við ákvæði starfsreglna stjórnar og Leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Stjórn hefur ákveðið að formlegt árangursmat verði framkvæmt með aðstoð þriðja aðila annað hvert ár. Formlegt árangursmat var framkvæmt í ársbyrjun 2016 og var endurtekið í febrúar 2018.

Framkvæmdastjórn

Rektor HR, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins, er Ari Kristinn Jónsson og hefur hann starfað sem rektor háskólans síðan 2010. Hann er fæddur árið 1968 útskrifaðist með BSc í stærðfræði árið 1990 og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1991. Árið 1995 útskrifaðist hann með Msc gráðu í tölvunarfræði frá Standford University og lauk doktorsgráðu í tölvunarfræði frá sama skóla árið 1997. 

Ari situr í stjórnum dótturfélaga HR. Einnig situr hann í stjórnum Videntifier Technologies, Kara Connect og Icelandic Startups . 

Rektor kemur fram fyrir hönd háskólans, annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor ræður sviðsforseta, forseta deilda, framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn háskólans sem heyra beint undir rektor, en hann hefur samráð við stjórn um val þeirra og meginverkefni.

Aðrir starfsmenn HR sem eiga sæti í framkvæmdaráði eru:

 • Ágúst Valfells, forseti verkfræðideildar
 • Bryndís Björk Ásgeirsdóttir forseti sálfræðideildar
 • Eiríkur Elís Þorláksson forseti lagadeildar
 • Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar
 • Gísli Hjálmtýsson, sviðsforseti tæknisviðs
 • Hafrún Kristjánsdóttir forseti íþróttafræðideildar
 • Hera Grímsdóttir forseti iðn- og tæknifræðideildar
 • Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar
 • Luca Aseto forseti tölvunarfræðideildar
 • Ragnhildur Helgadóttir, sviðsforseti samfélagssviðs

Innra eftirlit og áhættustýring

Stjórn ber ábyrgð á að koma á virku kerfi innra eftirlits og að skilgreina helstu áhættur í starfsemi HR. Þetta mat er unnið ár hvert og yfirfarið og samþykkt af stjórn. Virkni innra eftirlits er reglulega sannreynt af endurskoðendum félagsins og málefni þess síðan rædd á árlegum fundi með stjórn.

Rektor skilgreinir helstu áhættuþætti er varða starfsemi, stefnu og markmið HR þar á meðal eðli þeirra og umfang. Hann útbýr árlega áætlun fyrir áhættustjórnun sem lögð er síðan fyrir stjórn til samþykktar.

Samfélagsleg ábyrgð og siðferðisviðmið

Starfsfólk HR telur það hlutverk sitt að móta framtíðarleiðtoga sem leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð, nýsköpun og þróun sem miðar að aukinni sjálfbærni með gott viðskiptasiðferði að leiðarljósi. Unnið er að því að innleiða PRME-markmiðin þvert á deildir háskólans. PRME (e. Principles for Responsible Management Education) var sett á stofn árið 2007 á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Genf sem vettvangur til að auka skilning og hæfni nemenda til að takast á við áskoranir í viðskiptalífinu sem framtíðarleiðtogar og stjórnendur. Þá vill HR jafnframt taka þátt í því að minnka áhrif starfseminnar á umhverfið og leggja sitt af mörkum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

HR er þekkingarsamfélag þar sem nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn starfa saman að öflun, sköpun og miðlun þekkingar. Í slíku samfélagi er mikilvægt að allir taki siðferðislega ábyrgð á störfum sínum. Því vinnur háskólinn að því að skapa starfsumhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af virðingu, heilindum, sanngirni og jafnfrétti. HR hefur sett siðareglur sem hafa það að markmiði að stuðla að því að hegðun þeirra sem starfa innan skólans uppfylli ýtrustu siðferðiskröfur sem gerðar verða innan háskóla. Þá hefur rektor skipað siðanefnd HR sem sett hefur sér starfsreglur.

Hér er hægt að kynna sér nánar samfélagslega ábyrgð HR, siðareglur HR og siðanefnd HR .

Samskipti hluthafa og stjórnar

Sérstaða HR sem einkahlutafélags er nokkur þar sem félagið rekur háskóla líkt og um sjálfseignarstofnun væri að ræða. Hluthafar félagsins eru þrír, en þeir njóta ekki neins fjárhagslegs ávinnings af rekstri félagsins. Allir hluthafar félagsins eiga fulltrúa í stjórn þess. Æðsta vald félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda og fer formleg upplýsingagjöf til hluthafa fram á hluthafafundum.

Samþykkt á fundi í stjórnar Háskólans í Reykjavík 07.05.2020.

[1] Sjá: http://www.althingi.is/lagas/148a/1994138.html
[2] Sjá: http://leidbeiningar.is/Leidbeiningar/formali


Var efnið hjálplegt? Nei