Vefstefna Háskólans í Reykjavík

Vef- og samfélagsmiðlar HR eru lykilleið háskólans til upplýsingamiðlunar. Markmið með þeim er að miðla upplýsingum um nám, rannsóknir og aðra starfsemi HR, að veita notendum þjónustu og vera vettvangur samskipta við fjölbreytta markhópa. HR á enn fremur í margvíslegum samskiptum og veitir ákveðna þjónustu í gegnum hugbúnaðarkerfi sem nota vefviðmót.

Hönnun og innihald allrar þeirra miðlunar og þjónustu sem Háskólinn í Reykjavík veitir í gegnum vefviðmót skal ætíð fylgja öllum þeim lögum sem þar að lúta. Hönnun og innihald skulu enn fremur vera í samræmi við aðrar stefnur HR. Gæta skal sérstaklega að því að persónuverndarsjónarmið séu lögð til grundvallar allri miðlun og farið sé að persónuverndarlögum.

Á grunni vefstefnu eru skilgreindar verklagsreglur sem eru birtar í vefhandbók. Í þeirri handbók eru enn fremur birtar ritstefna, leiðbeiningar um útlit og tæknilegar leiðbeiningar. Allir sem koma að vefmiðlum HR skulu kynna sér vefstefnuna og vefhandbók. 

Skilgreiningar

Vefmiðlar eru hvers kyns vefsíður sem miðla upplýsingum frá Háskólanum í Reykjavík. Meðal slíkra miðla eru ytri síður vefsvæðis HR, innri vefur starfsmanna og fleira. Vefmiðlar byggja á vefbirtingarhugbúnaði.

Samfélagsmiðlar eru þeir miðlar þar sem HR veitir upplýsingar inn í umhverfi þar sem fleiri miðla og deila upplýsingum.

Vefviðmót kerfa er sá hluti notendaviðmóts kerfa sem birtist gegnum vafra eða önnur tól sem birta vefupplýsingar.

Vef-  og ritstjóri starfa innan markaðs- og samskiptasviðs HR og vefritarar innan annarra deilda og sviða háskólans.

Umfang stefnu

Vefstefna HR nær yfir alla vef- og samfélagsmiðla háskólans. Enn fremur nær hún til vefviðmóts kerfa sem veita þjónustu á vegum HR. 

Vefstefna skilgreinir viðmið og ábyrgðir í hönnun og á innihaldi þeirra miðla sem hún nær til. Vefstefna setur einnig fram leiðarljós sem höfð skulu til grundvallar allrar vinnu við vefmiðla, samfélagsmiðla og vefviðmót.

Vefstefna skal höfð til viðmiðunar varðandi útlit og ritstjórn vefviðmóts kerfa. Þróun, prófun og viðhald vefviðmóts kerfa eru á ábyrgð upplýsingatæknisviðs.

Leiðarljós

Þrjú leiðarljós skal hafa við vinnu á vef og samfélagsmiðlum Háskólans í Reykjavík:

  • Þjónusta  
  • Gæði
  • Áreiðanleiki

Þjónusta

Á vefmiðlum HR skal vera auðvelt að finna viðeigandi upplýsingar og sækja notendavæna þjónustu. Þarfir notenda, aðgengi og efnistök skulu vera í forgangi þegar efni er unnið á vefmiðlum, í samræmi við neðangreint. 

Þarfir notenda

  • Viðmót og efnisinnihald skulu ávallt miðast við þarfir notenda í upplýsingaleit.

Aðgengi

  • Ytri vefir háskólans skulu vera aðgengilegir í öllum helstu tækjum, snjallsímum og spjaldtölvum og skulu fylgja tækniþróun hvers tíma. Gætt skal að tæknilegum útfærslum fyrir skjálesara og önnur slík hjálpartól, og þannig leitast við að allir hafi aðgang að upplýsingum á vefjum.

Efnistök

  • Efni á vefjum skal sniðið að markhópum í orðalagi og með innihaldi. Efni er reglulega uppfært til að halda vefjum lifandi, réttum og áhugaverðum.

Gæði

Hönnun og viðmót skal taka mið af þörfum notenda. Í texta skal gæta að réttu málfari og stafsetningu. Gæta skal að öryggi, stöðugleika og þjónustugildi vefjanna og skulu hugbúnaður og viðmót virka sem skyldi. Hönnun og upplýsingagjöf eru byggðar á mælingum, könnunum og markhópagreiningum.   

Áreiðanleiki

Upplýsingar á vefjum eru réttar og áreiðanlegar. Í því felst m.a. að þær eru uppfærðar reglulega samkvæmt vefhandbók.

Vefhandbók

Vefhandbókin inniheldur

  • almennar verklags-  og viðmiðunarreglur þ.m.t. ritstjórnarverklag og ábyrgð
  • leiðbeiningar um útlit og uppsetningu
  • ritstefnu
  • tæknilegar leiðbeiningar

Verklag við vefinn samkvæmt vefhandbók gerir ráð fyrir vefstjóra, ritstjóra og vefriturum.

Uppfærð vefhandbók skal ætíð vera aðgengileg á innri vef starfsmanna HR.

Vefhandbók er yfirfarin og endurskoðuð einu sinni á ári. Vefstjóri og forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs bera ábyrgð á efni vefhandbókar.

Leiðbeiningar um útlit

Leiðbeiningar um útlit vefmiðla, umgjarðar samfélagsmiðla og vefviðmót kerfa skal vera aðgengilegt starfsmönnum í vefhandbók. Þar skal meðal annars fjallað um merki HR, leturgerðir og uppsetningu texta og liti háskólans.

Ritstjórnarverklag

Skilgreina skal og birta verklag fyrir ritstjórn vefja og samfélagsmiðla í vefhandbók. Þar skal meðal annars fjallað um ábyrgð og uppfærslu á rituðu efni vefja háskólans.

Vefstjóri skipar vefritara í samráði við skrifstofustjóra og forstöðumenn viðkomandi deilda og sviða.

 


Vefstefnan er samþykkt af framkvæmdastjórn 27. júní 2017 og birt á ytri og innri vef. 

Framkvæmdastjórn skal láta endurskoða vefstefnu reglulega og ekki sjaldnar en á þriggja ára festi.

 

Var efnið hjálplegt? Nei