Fréttir

Hljóta alþjóðleg verðlaun fyrir rannsóknir á gervigreind

13.8.2013

Tveir vísindamenn frá Háskólanum í Reykjavík, þeir Kristinn R. Þórisson dósent í tölvunarfræði og Eric Nivel sérfræðingur við Gervigreindarsetur HR,  hlutu hin virtu Kurzweil-verðlaun árið 2013 fyrir rannsóknir sínar á sviði alhliða gervigreindar (e. artificial general intelligence).

Kurzweil-verðlaunin eru veitt árlega rannsóknum sem þykja skara fram úr á sviði almennrar gervigreindar. Rannsóknirnar eru hluti af niðurstöðum úr rúmlega þriggja ára rannsóknarverkefni við Gervigreindarsetrið sem var styrkt af HR og Evrópusambandinu. Verkefnið, sem nefnist HUMANOBS og lauk í júní 2012 og hafði það markmið að þróa nýja tegund gervigreindar sem getur forritað sig sjálf, var unnið í samstarfi við nokkra af helstu rannsóknarsetrum Evrópu á þessu sviði, þá sérstaklega IDSIA vísindamenn við rannsóknarsetrið í Lugano í Sviss, sem skrifuðu verðlaunagreinina með HR-ingunum.

Upphaflegt markmið gervigreindar var sköpun „hugsandi véla” – tölvukerfa með mannlega greind. Vegna þess hve verkefnið hefur reynst vísindunum erfitt hefur meirihluti fræðimanna og rannsakenda sem fást við gervigreind einbeitt sér að svokallaðri „takmarkaðri" gervigreind.  Greind slíkra kerfa er bundin við fyrirfram ákveðið svið, og getur einungis framkvæmt sérhæfð verkefni sem ákveðin eru af hönnuðunum. Á undanförnum árum hafa sífellt fleiri vísindamenn þó komið auga á nauðsyn og hagkvæmni þess að snúa aftur til upprunalegs markmiðs fræðigreinarinnar, það er, smíð kerfa sem búa yfir almennri og víðtækri greind líkt og mannskepnan.

Með þetta markmið að leiðarljósi færa höfundar greinarinnar, þeir Bas Steunebrink, Jan Koutnik, Kristinn R. Thórisson, Eric Nivel and Juergen Schmidhuber, rök fyrir því að forvitni sé nauðsynleg öllum greindum kerfum, og lýsa hvernig má nota forvitni til að stýra námi kerfa með alhliða gerivgreind þannig að þau læri hraðar og nýti til hins ýtrasta alla reiknigetu sem þau hafa aðgang að.

Greinin nefnist „Resource-Bounded Machines are Motivated to be Effective, Efficient, and Curious".

Aðrir hlekkir: