Fréttir

Stærsti hópur nýnema í sögu skólans

15.8.2014

Aldrei hefur jafn stór hópur nýnema hafið nám við Háskólann í Reykjavík og núna í haust. Alls eru nýnemar 1418 talsins en í fyrra var fjöldi þeirra um 1300.

Metfjöldi umsókna barst Háskólanum í Reykjavík í ár en ríflega 2.500 umsóknir bárust um skólavist fyrir haustið 2014. Þetta er 11,3% aukning frá því á árinu 2013, sem einnig var metár hvað varðar fjölda umsókna.  Mest var aukningin í tölvunarfræðideild og viðskiptadeild. Þá jókst fjöldi umsókna í tæknifræði umtalsvert og fjöldi umsókna í Íslenska orkuháskólann í HR margfaldaðist á milli ára. Mikill fjöldi umsókna barst einnig um nám á þeim fjórum nýju þverfaglegu námsbrautum sem boðið verður upp á í fyrsta sinn í haust; viðskiptafræði með lögfræði sem aukagrein, lögfræði með viðskiptafræði sem aukagrein, viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein og tölvunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein. Loks var áberandi mikil fjölgun umsókna um meistaranám við allar deildir Háskólans í Reykjavík. 

Aðsóknin sýnir vaxandi áhuga á þeim námsleiðum sem háskólinn býður upp á í tækni, viðskiptum og lögum, um leið og hann staðfestir sterka stöðu HR í menntun á þeim sviðum. HR útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tækninámi á háskólastigi á Íslandi, helming þeirra sem ljúka viðskiptanámi og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi.

                           

Í dag bauð dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, nýja  nemendur velkomna og setti skólann fyrir skólaárið 2014-2015.