Fréttir

Sýndarvélmenni tekur sjónvarpsviðtal

2.9.2014

Dr. Kristinn R. Þórisson, dósent við tölvunarfræðideild HR og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands, birti ásamt samstarfsmönnum sínum grein á ráðstefnunni Intelligent Systems & Agents í Portúgal í síðasta mánuði. Greinin hlaut hin eftirsóttu „Outstanding Paper“ verðlaun sem besta grein ráðstefnunnar.

Sýndarvera sem lærir

Greinin lýsir nýjum áfanga í gervigreindarrannsóknum - fyrsta sjálfvirka kerfinu sem getur lært flókið verk án leiðbeininga með því að fylgjast með hvernig það er framkvæmt. Í greininni lýsa Kristinn og meðhöfundar hans hvernig gervigreinda sýndarvélmennið S1 lærir að taka sjónvarpsviðtal með því að fylgjast með manneskjum taka viðtal við hvor aðra, án þess að því sé gefið fyrirfram upplýsingar um setningaskipan, eða yfir höfuð aðrar upplýsingar um hvernig framkvæma á verkið.

Sýndarverur taka viðtalEftir að fylgjast með í um 20 klukkustundir gat S1 tekið viðtal með fullkomlega réttum setningum og túlkað og notað handa- og höfuðhreyfingar í samræmi við það sem gerist þegar manneskjur tala saman. S1 getur hvort sem er tekið hlutverk spyrils eða þess spurða. Við mat á gæðum þess sem S1 hafði lært fundust engar villur í setningarskipan, sem telur 100 orð, og langar setningar voru algengar, t.d. „Compared to recycling, making new paper produces thirty-five percent more water pollution“ og „More energy is needed to recycle a glass bottle than a can of aluminum“.

Rannsóknirnar eru afrakstur HUMANOBS-verkefnisins, sem hlaut tveggja milljón evra styrk frá Evrópusambandinu 2009, en í því er leitast við að þróa kerfi með alhliða greind. Í tilefni verðlaunanna hefur vísindaritið IADIS Journal of Computer Science & Information Systems boðið Kristni og félögum að undirbúa greinina til heiðursútgáfu í ritinu á næsta ári.