Alþjóðastarf nemenda í HR

Mentorar og ESN

Það eru ýmsir möguleikar á því að taka þátt í alþjóðastarfi innan HR. Margir nemendur sem fara í skiptinám erlendis eru virkir þátttakendur í alþjóðastarfinu etir að heim er komið. Nemendur sem ekki fara í skiptinám eru þó hvattir til þess að taka þátt til þess efla tengslanet sitt og kynnast fólki frá öðrum menningarheimum.

Mentorar

Nemendur HR geta tekið þátt í að bjóða erlenda nemendur velkomna til skólans á eftirminnilegan hátt.

Alþjóðaskrifstofan óskar á hverri önn eftir drífandi og alþjóðlega þenkjandi nemendum til að vera mentorar. Tilgangurinn með þessu er að mentorar sjái til þess að hóparnir fái innsýn inn í menningu og félagslíf á Íslandi og í HR.

Að takast á við þetta hlutverk gefur nemendum frábært tækifæri til að efla alþjóðlegt tengslanet, eignast vini alls staðar að úr heiminum og svo er félagsstarf af þessu tagi mjög góð viðbót á ferilskrá. Alþjóðaskrifstofa gefur þeim sem sinna verkefninu af staðfestu og alúð góð meðmæli. Fyrir þá sem hyggja á skiptinám þá er þetta góður undirbúningur og eins fyrir þá sem eru nýkomnir úr skiptinámi þá er tilvalið að taka þátt í alþjóðlegu starfi hér í HR eftir að hafa öðlast reynslu erlendis.

Hvað felur það í sér að verða mentor?

Tveir mentorar vinna saman með nemendahóp sem er 15-25 manns. Þeir þurfa að bjóða nemendur velkomna, aðstoða við nýnemadaga og skipuleggja ferðir eða viðburði með hópnum.

Mentorar skuldbinda sig til að gera eftirfarandi:

  • Mæta á skipulagsfund sem er 1-2 klst.
  • Full þátttaka í nýnemadögum (Orientation) í ágúst og janúar. 
  • Skipuleggja að lágmarki fimm viðburði eða ferðir með hópnum, aðallega fyrsta mánuðinn, t.d. sundferðir, fjallgöngur etc. 
  • Facebook: Mentorar verða að halda úti Facebook-grúppu þar sem skipst er á upplýsingum.
  • Vera tilbúnir til að veita aðstoð og gefa upplýsingar fyrsta mánuðinn af dvöl hópsins.

Ef nemendur óska eftir því að gerast mentorar þá skal hafa samband við alþjóðaskrifstofu HR, en auglýst er eftir sjálfboðaliðum á hverri önn.

ESN - Erasmus Student Network

ESN eru ein stærstu þverfaglegu nemendasamtök Evrópu og voru stofnuð árið 1990 til að byggja upp  og þjónusta skiptinemasamfélag á háskólastigi. ESN eru með útibú á Íslandi sem kallast ESN Reykjavík en það var stofnað árið 2007. Öllum er frjálst að taka þátt í starfi samtakanna hvort sem þeir eru skiptinemar eða ekki, eina skilyrðið er að vera nemandi á háskólastigi á Íslandi. Nemendur HR og HÍ vinna saman í ESN í félagsstarfi með erlendum skiptinemum og skipuleggja marga viðburði og ferðalög yfir skólaárið. 


Var efnið hjálplegt? Nei