Alþjóðastarf nemenda í HR

HR félagar, alþjóðaráð og ESN

Það eru ýmsir möguleikar á því að taka þátt í alþjóðastarfi innan HR. Margir nemendur sem fara í skiptinám erlendis eru virkir þátttakendur í alþjóðastarfinu etir að heim er komið. Nemendur sem ekki fara í skiptinám eru þó hvattir til þess að taka þátt til þess efla tengslanet sitt og kynnast fólki frá öðrum menningarheimum.   

HR-félagar

Með því að gerast HR-félagi kemst nemandi í samband við einstaklinga frá samstarfsháskólum HR erlendis. 

Við hvetjum nemendur til að skrá sig sem HR félaga. Að kynnast nýju fólki frá öllum heimshornum eykur víðsýni og gerir lífið skemmtilegra.  Tökum vel á móti erlendu skiptinemunum okkar og sýnum þeim með stolti allt það góða sem við höfum upp á að bjóða.  

Hvað felst í því að gerast HR félagi?

HR félagi eða buddy felst eins og nafnið gefur til kynna í því að vera vinur skiptinemans sem er að koma til landsins. HR félagi er ekki bundinn af því að sinna vini sínum stöðugt og engin skylda að fara eftir neðangreindum atriðum. Stundum þarf skiptineminn bara praktískar upplýsingar í byrjun, t.d. um strætóferðir, verslanir og aðrar mikilvægar upplýsingar um líf í nýju landi.

Hér eru nokkur atriði sem góður HR-félagi gerir:

  • Mikilvægasta atriðið er að setja sig í samband við skiptinemann áður en hann kemur til landsins og hjálpa honum að undirbúa sig.
  • Verið skiptinemum innan handar þegar þeir stíga sín fyrstu skref á íslandi. Sumir sækja vini sína á flugvöllinn eða á BSÍ. Það er mjög góð móttaka.
  • Bjóða þeim í mat heim. Þó að Reykjavík bjóði upp á urmul af góðum veitingastöðum þá finnst erlendum skiptinemum ekkert skemmtilegra en að fá að upplifa það að koma inn á íslenskt heimili, borða íslenskan mat og ekki síst að fá að upplifa fjölskyldumenninguna.
  • Leiðbeint þeim innan HR og gert þeim kleift að taka þátt í félagslífinu.
  • Sýna þeim Reykjavík og allt það sem okkar litli suðupottur menningarlífs  hefur upp á að bjóða. 

Alþjóðaráð Háskólans í Reykjavík

Helstu störf Alþjóðaráðs Háskólans í Reykjavík eru að taka vel á móti skiptinemum þegar þau koma til landsins og vera þeim innan handar á meðan þau eru að koma sér fyrir og kynnast landi og þjóð. Við erum einnig til taks fyrir þau út önnina og aðstoðum við hvað sem kemur uppá, hvort sem það eru vandamál tengd skóla eða lífinu á Íslandi.

Alþjóðaráð sér um að skipuleggja ýmsar ferðir og viðburði fyrir skiptinemana um Ísland svo að þau kynnist landi og þjóð betur. Síðastliðinn vetur höfum við til dæmis farið í mjög vel lukkaðar ferðir til Vestmannaeyja, Akureyrar og austur í Skaftafell og skipulagt „welcome pizza party“ fyrir skiptinemana þegar þau voru nýkomin til landsins.

Ef nemendur hafa áhuga á að taka þátt í starfi Alþjóðaráðs þá er best að hafa samband á intstudents@ru.is eða við alþjóðaskrifstofu HR á gudlaugm@ru.is.

ESN  - Erasmus Student Network

ESN eru ein stærstu þverfaglegu nemendasamtök Evrópu og voru stofnuð árið 1990 til að byggja upp  og þjónusta skiptinemasamfélag á háskólastigi. ESN eru með útibú á Íslandi sem kallast ESN Reykjavík en það var stofnað árið 2007. Öllum er frjálst að taka þátt í starfi samtakanna hvort sem þeir eru skiptinemar eða ekki, eina skilyrðið er að vera nemandi á háskólastigi á Íslandi.  Nemendur HR og HÍ vinna saman í ESN í félagsstarfi með erlendum skiptinemum og skipuleggja marga viðburði og ferðalög yfir skólaárið. 


Var efnið hjálplegt? Nei