Af hverju skiptinám?

Skiptinám við erlendan háskóla er dýrmæt reynsla.  Það eykur sjálfstæði og sjálfsþekkingu stúdenta þar sem það hvetur viðkomandi til að upplifa nýjar aðstæður í breyttu umhverfi. Með skiptinámi fá stúdentar tækifæri til þess að setja þekkingu sína í alþjóðlegt samhengi. Skiptinám eykur þar að auki víðsýni og skilning á menningarlegum fjölbreytileika og getur aukin tungumálakunnátta og innsýn í annan menningarheim gefið stúdentum mikilvægt forskot og jafnvel skipt sköpum þegar komið er út í atvinnulífið.

Skiptinám - fyrstu skrefin
Það eru margar leiðir til að skipuleggja og fjármagna skiptinám erlendis. Best er að skoða alla möguleika vel og hefja undirbúning með góðum fyrirvara, helst ári áður en haldið er utan. Stúdentar geta byrjað á því að spyrja sjálfa sig eftirfarandi spurninga:

  • Hvers vegna ætti ég að fara í skiptinám?
  • Hvenær hentar best að fara í skiptinám?
  • Hvert myndi ég vilja fara?
  • Hvaða námskeið verð ég að taka? Hvaða námskeið get ég fengið metin sem skyldufög og hvaða námskeið sem valfög?
  • Hvernig get ég fjármagnað skiptinámið?
  • Hef ég nógu mikla tungumálakunnáttu til að fara í skiptinám?
  • Hvaða önnur námskeið eða tómstundir eru í boði?

 

Undirbúningur skiptináms krefst töluverðs tíma og íhugunar af hendi stúdenta sjálfra
Það eru engar fyrirfram tilbúnar leiðir í skiptinámi. Hver og einn þarf að gera áætlun eftir eigin markmiðum og hentugleika. Stúdentar ættu að líta á undirbúningstímann sem mikilvægan hluta af öllu ferlinu, því þær spurningar sem koma upp við undirbúning á skiptinámi og þær ákvarðanir sem þarf að taka geta skerpt sýn nemenda á hvaða stefnu þeir vilja taka að loknu námi.

Starfsfólk alþjóðaskrifstofu HR er reiðubúið að aðstoða nemendur með því að veita þeim upplýsingar og góð ráð í gegnum heildarferlið, allt frá því að hugmyndin að því að fara út í skiptinám kviknar þar til nemandinn snýr aftur heim, reynslunni ríkari.


Var efnið hjálplegt? Nei