Hagnýt og raunhæf verkefni

Í heiminum búa meira en sjö milljarðar manna. Öllu þessu fólki viljum við tryggja fæði, klæði og húsnæði. Við viljum líka tryggja því heilbrigði, aðgang að orku, öryggi og afþreyingu. Verkfræðingar og tæknifræðingar byggja á vísindum og beita skipulögðum vinnubrögðum til þess að takast á við þessa áskorun og hjálpa þannig til við að móta framtíðina. 

Tækninám í HR gefur ykkur tækifæri á að leggja ykkar af mörkum á skapandi og skemmtilegan hátt. HR útskrifar flesta nemendur í tæknigreinum á háskólastigi á Íslandi, og er með mestu rannsóknarvirkni á landinu í þeim greinum. Nemendur í verkfræði og tæknifræði eru þjálfaðir til að takast á við þau vandamál sem liggja fyrir í dag með raunhæfum aðferðum byggðum á traustum fræðilegum grunni.

Í tækninámi við deildina er lögð sérstök áhersla á verklega hluta námsins við kennslu undirstöðugreina og hagnýtra fag- og tæknigreina. Tækni- og verkfræðideild er aðili að alþjóðlegu samstarfsneti um þróun tæknináms sem kallast CDIO (e. Conceive, Design, Implement, Operate). Í netinu eru um 100 framsæknir háskólar og megináhersla er lögð á gæði náms í verkfræði og tæknifræði með því að setja undirstöðugreinar í samhengi við raunveruleg viðfangsefni. 

Diplómanám

Iðnfræði er hagnýtt 90 ECTS eininga nám til diplómagráðu á háskólastigi. Kennt er í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, eina helgi í senn. 

Grunnnám (BSc) 

Verkfræði - 180 ECTS einingar

Lengd verkfræðináms er fimm ár. Eftir þriggja ára nám til BSc-gráðu bæta nemendur við sig tveggja ára námi til MSc-gráðu til að öðlast starfsréttindi sem verkfræðingar. 

Íþróttafræði - 180 ECTS einingar

Nemendur kynnast undirstöðuatriðum í þjálfun og kennslu og ljúka einingum í verknámi. Jafnframt er kennt hvernig nota má niðurstöður rannsókna og nýjustu tækni til að efla þjálfun, afreksíþróttir og heilsu almennings. 

Tæknifræði - 210 ECTS einingar

Í tæknifræði er lögð áhersla á að byggja upp verkvit, fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið. Námið er  tilvalið fyrir þá sem vilja geta hafið starfsferil sinn strax að loknu BSc–námi. Þeir sem útskrifast með lokapróf í tæknifræði hljóta lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. 

Byggingafræði - 210 ECTS

Byggingafræði í HR er 210 ECTS eininga nám. Fyrri hluti námsins er 90 ECTS einingar, kennt í fjarnámi sem kennt er með námsbraut í byggingariðnfræði.  Síðari hluti námsins er 120 ECTS eininga verkefnamiðað nám, kennt í staðarnámi. 

Meistaranám (MSc)

MPM - Master of Project Management - 90 ECTS einingar

MPM-námið er stjórnunar- og leiðtoganám með sérstakri áherslu á stjórnun umfangsmikilla verkefna, verkefnaskráa og verkefnastofna. Námið býr nemendur undir að stjórna fyrirtækjum, félögum, stofnunum og teymum. Það er skipulagt sem nám samhliða vinnu og varir í tvö ár. 

Verkfræði - 120 ECTS einingar

Í meistaranámi í verkfræði nýta nemendur sér hagnýtt meistaranám í verkfræði til sérhæfingar, auk þess sem meistaragráða í verkfræði er forsenda þess að nemendur geti öðlast lögverndað starfsheiti sem verkfræðingar. 

Íþróttafræði - 120 ECTS einingar 

Íþróttafræði við HR undirbýr íþróttafræðinga og íþróttakennara fyrir störf á fjölmörgum sviðum íþrótta, líkams- og heilsuræktar er lúta að kennslu, þjálfun og stjórnun. Í náminu er lögð áhersla á tengsl við samfélag og atvinnulíf og eru unnin mörg verkefni á námstímanum sem geta nýst samfélaginu beint. 

Orkuverkfræði - 120 ECTS einingar

Við Íslenska orkuháskólann (Iceland School of Energy) er boðið upp á tvær námsbrautir á meistarastigi þar sem endurnýjanlegir orkugjafar og nýting þeirra er í forgrunni.  

Doktorsnám (PhD)

Fyrir nemendur sem vilja stunda fræðilegar rannsóknir á einu af sérsviðum deildarinnar.

Áhugasamir einstaklingar eru hvattir til að hafa samband við akademískt starfslið deildarinnar til að ræða um mögulegar rannsóknir til doktorsgráðu.Umsagnir nemenda í tækni- og verkfræðideild

Anna Berglind Jónsdóttir - heilbrigðisverkfræði

Í náminu hingað til hef ég búið til straummæli, smíðað öxul, farið í heilalínurit og búið til þrívíddarmódel.


Viðburðir

Engin grein fannst.


Fréttir

Tvær konur skoða veggspjald

12.6.2018 : Meistaranemar sýndu niðurstöður rannsókna sinna

Á hverju vori heldur tækni- og verkfræðideild uppskeruhátíð sem nefnist Verkin tala. Þar sýna meistaranemar við deildina veggspjöld með niðurstöðum rannsókna sinna. Verðlaun fyrir bestu veggspjaldið eru afhent og gestir og gangandi geta lesið sér til um nýjustu þekkinguna í verkfræði og íþróttafræði.

Picture-198

11.6.2018 : Íslensku björgunarsveitirnar fyrirmynd í ákvörðunar- og áhættufræðum

Ákvörðunar- og áhættufræði voru í brennidepli á alþjóðlegri vinnustofu í HR dagana 5. júní til 8. júní. Tækni- og verkfræðideild HR, í gegnum CORDA rannsóknasetur í ákvörðunar- og áhættufræðum, tekur þátt í Dahoy-verkefninu sem er Erasmus+ Evrópuverkefni ásamt nokkrum öðrum evrópskum háskólum og menntastofnunum.

Myndin sýnir lógó THE

7.6.2018 : HR einn af hundrað bestu ungu háskólum heims

Háskólinn í Reykjavík er einn af hundrað bestu ungu háskólum í heiminum í dag, samkvæmt  lista Times Higher Education sem birtur var í dag. Á listanum eru háskólar 50 ára og yngri og er Háskólinn í Reykjavík í 89. sæti á listanum.

Nemendur kynna verkefni í skólastofu

30.5.2018 : Yfirmenn hjá IKEA hlýddu á hugmyndir nemenda

Nemendur Háskólans í Reykjavík gátu lokið þriggja vikna vinnustofu á vorönn á vegum tækni- og verkfræðideildar með einum fremsta vöruhönnuði Íslands, Siggu Heimis. Vinnustofan hét Sjálfbærni í heimi fjöldaframleiðslu. Henni lauk fyrir stuttu með opnum kynningum á fimm verkefnum. Nemendur úr öllum deildum gátu skráð sig, og eina skilyrðið til að taka þátt hafi verið brennandi áhugi á sjálfbærni og vöruþróun.

Nasa-fyrirlestur-1

23.5.2018 : Ísland hentar vel til undirbúnings rannsókna á Mars

„Það er engin furða að við séum á Íslandi!“ sagði vísindamaðurinn dr. Jennifer Heldmann í fyrirlestri sínum í morgun hér í HR. Hún starfar hjá Bandarísku geimferðarstofnuninni NASA við vettvangsrannsóknir þar sem líkt er eftir aðstæðum á Mars og tunglinu. Heldmann er stödd hér á landi ásamt samstarfsfélaga sínum, dr. Darlene Lim. Hún segir Ísland vera tilvalinn stað fyrir slíkar rannsóknir þar sem jarðfræði landsins sé á margan hátt ótrúlega lík þeirri sem fyrirfinnst á Mars.

Eldri fréttir