Umhverfisvika í HR
Margt smátt gerir heilmikið

Bless, ísbirnir og sjávarskjaldbökur
Sjávarborð hækkar og sjórinn hlýnar. Lengri þurrkar hafa áhrif á uppskeru, dýralíf og aðgengi að fersku vatni. Fjölbreytileiki dýralífsins minnkar, og nú þegar eru ísbirnir og sjávarskjaldbökur í útrýmingarhættu ásamt fjölda annarra dýrategunda og gróðurs.
Hægt er að vinna á móti þessari þróun með því að minnka losun kolefnis í andrúmsloftið. Við þurfum jafnframt að vera viðbúin því að vinna úr afleiðingum loftslagsbreytinga. Ástandið er ekki eitthvað sem kynslóðir framtíðarinnar fást við heldur eru áhrifin þegar komin fram.
Hvað get ég gert?
Hugsaðu þig um í tvær sekúndur
Þetta er mjög mikilvægt. Þarf ég að henda þessu hér, þarf ég þetta plaströr?
Minnkaðu plastið
Ef hver og einn minnkar notkun á plasti, gerir það mikið þegar upp er staðið. Það tekur plastflösku allt að 450 ár að leysast upp í umhverfinu.
Flestar einnota drykkjarvöruumbúðir úr plasti
eru PET-flöskur. Nær allir landsmenn nota PET á hverjum degi án þess þó að gera sér grein fyrir því. PET stendur fyrir polyethylene terephthalate og
var fyrst þróað árið 1941 fyrir þræði í efnavöru (flís). PET er að fullu endurvinnanlegt og er endurunnið í margar ólíkar vörur, ekki bara í
flöskur heldur teppi, föt og umbúðir. Mjúka flíspeysan
þín gæti því verið drykkjarvöruumbúðir að uppruna. Merking er ávallt á umbúðunum og er hægt að þekkja það
af þremur örvum í þríhyrningi með númeri í miðjunni.
Flokkaðu
Endurvinnsla virkar. Sögusagnir um að allt endi í sama haugnum eru bull og vitleysa. 8000 tonn af pappír og 1200 tonn af plasti voru send út til endurvinnslu árið 2016 af Íslenska gámafélaginu, og hluti þessa magns var flokkað af okkur í HR. Búið er að gera betri leiðbeiningar fyrir flokkun í háskólabyggingunni, gefðu þér eina mínútu til að lesa þær:
Blár miði - fyrir pappír
Í ÞÁ TUNNU FARA TIL DÆMIS:
- Einnota kaffimál úr pappa, ekki lokin (þau eru úr plasti!)
- Dagblöð og tímarit
- Kassakvittanir
- Safa- og mjólkurfernur

Rauður miði - fyrir flöskur og dósir
Í ÞÁ TUNNU FARA EINGÖNGU:
Drykkjarumbúðir úr plasti, áli eða gleri.
Grænn miði - fyrir plast
Í ÞÁ TUNNU FARA TIL DÆMIS:
- Jógúrt- og skyrdósir
- Lok af kaffimálum
- Pokar utan af samlokum
Nóg er að strjúka innan úr ílátum, til dæmis með eldhúsrúllu, sem má svo fara í fötu merkta lífrænum úrgangi. Einnig er hægt að skola umbúðir og ílát undir krananum.
Grár miði - fyrir almennt sorp
Ruslafötur með gráum miða eru fyrir almennt sorp sem ekki er hægt að endurvinna. Hér fer einnig óhreint sorp.
Gulur miði - ruslafata fyrir lífrænan úrgang í Málinu
Í ÞÁ TUNNU FARA:
- Matarleifar
- Servíettur og eldhúsrúllur
Í þær fötur fer allur matur ásamt servéttum sem notaðar eru til að þrífa matarafganga úr áhöldum. Lífræna ruslafatan verður þrifin daglega.
Prófaðu nýja hluti
Prófaðu að koma í strætó í skólann. Notaðu góðviðrisdaga til að hjóla í Öskjuhlíðina. Prófið að koma nokkur saman í bíl. Hver veit, þú gætir eignast nýja vini. Málið er að við þurfum hvert og eitt að finna lausnir sem henta okkur og geta jafnvel gert lífið skemmtilegra.
Sýndu frumkvæði
Adidas hefur framleitt hlaupaskó úr plasti sem tekið var úr sjónum. Tökum ábyrgð á ástandinu, notum hugmyndaflugið. Þið eruð framtíðin, HR-ingar!
HR hefur:
Skrifað undir yfirlýsingu Reykjavíkurborgar
Háskólinn í Reykjavík, ásamt fleiri fyrirtækjum og Reykjavíkurborg, hefur skrifað undir yfirlýsingu um loftslagsmál. Samkvæmt henni ætlar HR að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.
Stofnað starfshóp
Í framhaldi af undirritun yfirlýsingarinnar var stofnaður umhverfishópur starfsfólks sem vinnur að hugmyndum um aðferðir til að efla vistvæna starfsemi.
Gert samgöngusamning við starfsfólk
Starfsmenn HR hafa breytt fararvenjum sínum eftir að háskólinn hóf að bjóða starfsmönnum að skrifa undir samgöngusamning. Tæplega 90 fastráðnir starfsmenn hafa skrifað undir. Í vinnustaðagreiningu kom fram að helmingi fleiri ferðast núna með strætisvögnum eða gangandi og hjólandi í vinnuna en fyrir þremur árum. Árið 2013 ferðuðust 83% starfsmanna HR einir til vinnu í einkabíl en árið 2016 er þetta hlutfall komið niður í 62%. Þeim starfsmönnum sem nota einkabílinn sjaldnar en einu sinni viku fjölgar í 12% miðað við 8% árið 2013.
Fjarlægt plast
Öll plastílát hjá kaffivélum og vatnsvélum í kaffistofum starfsmanna hafa verið fjarlægð. Starfsmenn sækja sér núna vatn í glerflöskur.
Tekið flokkun í gegn
Ruslatunnur á skrifstofum voru teknar í burtu. Flokkun sorps var skipulögð upp á nýtt og var bætt við ruslafötu fyrir lífrænan úrgang. Núna er ein ruslatunna fyrir plast. Heimildir: