Áður en þú sækir um

Adur-en-thu-saekir-um

Hjá Háskólanum í Reykjavík er reynt að hafa umsóknarferlið sem einfaldast. Það flýtir einnig mikið fyrir vinnslu umsókna ef umsækjendur hafa lesið sér til um nauðsynleg fylgigögn, inntökuskilyrði og fleira sem þarf að hafa í huga.

Uppfyllir þú inntökuskilyrðin?

Fyrir grunnnám og diplómanám

Þeir sem vilja hefja grunnnám (BSc eða BA) eða diplómanám þurfa að hafa lokið einu af eftirfarandi:

  • stúdentsprófi
  • lokaprófi úr Háskólagrunni HR (áður frumgreinapróf)
  • öðru sambærilegu prófi

Við mat á umsóknum er tekið tillit til einkunna á stúdentsprófi eða prófi úr Háskólagrunni HR, frekari menntunar, starfsreynslu, þátttöku í félagsstörfum og áhugamála. Umsækjendur eru því hvattir til að gera grein fyrir öllu því sem þeir telja geta orðið umsókn sinni til framdráttar. Á síðu hverrar námsbrautar er flipi sem heitir „Inntökuskilyrði“. Umsækjendur þurfa að fara vel yfir upplýsingarnar þar enda eru mismunandi kröfur milli námslína um lágmarksfjölda eininga í ákveðnum fögum.

Fyrir meistaranám

Almenna reglan fyrir inntöku í meistaranám er að umsækjandi hafið lokið bakkalárgráðu eða sambærilegu, sem veitir góðan grunn fyrir meistaranámið. Inntökuskilyrði fyrir meistaranám eru á síðum námsbrauta.

Ertu með öll fylgigögn?

Þegar sótt er um skólavist þarf í flestum tilvikum að senda skírteini með umsókn sem staðfestingu á því námi sem umsækjandi hefur þegar lokið. Þetta getur verið stúdentspróf, vélstjórnarpróf eða BSc-próf, til dæmis. Þessi skírteini þarf að skanna inn og senda sem viðhengi með umsókninni á umsóknarvefnum. Umsókn er ekki tekin til skoðunar nema öll nauðsynleg fylgigögn hafi borist. Háskólinn í Reykjavík áskilur sér rétt til að kalla eftir frumritum prófskírteina áður en nám hefst.

Grunnnám

Staðfest afrit af námsferli

Skila þarf staðfestum afritum af námsferli, eins og til dæmis einkunnum á stúdentsprófi, afriti af sveinsbréfi, meistarabréfi eða burtfararskírteini. Tekið er fram undir flipanum „Inntökuskilyrði“ á hverri námsbrautarsíðu hvaða fylgigögn þurfa að fylgja umsókninni. Þeir nemendur sem ekki hafa fengið stúdentsprófskírteini í hendurnar áður en umsóknarfrestur rennur út geta skilað staðfestu afriti af námsferli og tekið fram í umsókn að lokaskírteini verði skilað eins fljótt og auðið er.

Ef umsækjandi hefur lokið Háskólagrunni HR

Nemendur í Háskólagrunni HR sem hafa lokið prófi og sækja um grunnnám eiga að taka það fram undir „Menntun“ á umsóknarvefnum. Þeir þurfa þó ekki að skila inn fylgigögnum um að Háskólagrunni sé lokið enda geta skrifstofur deilda séð upplýsingar um námsferilinn í tölvukerfi HR.

Upplýsingar um aðra menntun

Ef umsækjandi hefur ekki lokið stúdentsprófi en telur sig vera með sambærilegt nám að baki er nauðsynlegt að skila inn yfirliti af námsárangri frá viðkomandi skóla.

Önnur gögn – mega fylgja en eru ekki skilyrði

Frekari menntun og starfsreynsla er einnig talin til tekna. Ef umsækjandi telur ástæðu til getur hann skilað inn yfirliti yfir náms- og starfsferil og meðmælum.

Meistaranám

Þegar sótt er um meistaranám þarf að skanna inn BA- eða BSc-skírteini og senda inn með umsókn. Ef umsækjandi hefur lokið grunnnámi í HR og sækir um meistaranám þarf ekki að skila þessum fylgigögnum enda eru þessar upplýsingar þegar aðgengilegar í tölvukerfi HR.

Tilbúin/n að sækja um?

Sótt er um allt nám á umsóknarvefnum:

Vinsamlega athugið:

Á umsóknarvefnum þarf að finna rétta deild til að geta valið það nám sem sótt er um. Deildirnar eru: frumgreinadeild (fyrir nám í Háskólagrunni HR), iðn- og tæknifræðideild, íþróttafræðideild, lagadeild, sálfræðideild, tölvunarfræðideild, verkfræðideild og viðskiptadeild. Deildirnar birtast í stafrófsröð og því er frumgreinadeild efst í listanum. Nám í frumgreinadeild er eingöngu undirbúningsnám fyrir háskólanám, ekki BSc-nám. Það er því mikilvægt að notendur haldi áfram niður listann og finni réttu deildina, annars fer umsóknin til frumgreinadeildar með óhjákvæmilegum töfum á afgreiðslu hennar.

Leiðbeiningar

Inni á umsóknarvefnum sjálfum eru leiðbeiningar um notkun hans og rafræn skil á umsóknum. Ef einhver vandræði eru varðandi notkun á umsóknarvefnum svara starfsmenn upplýsingatæknisviðs spurningum í netfanginu: help@ru.is.

Skráning

Umsækjendur þurfa að nýskrá sig með því að velja notendanafn og lykilorð og þá er hægt að skrá sig út af vefnum og inn aftur eftir því sem hentar.

Fylgigögn

Til að umsóknin sé tekin gild þurfa öll nauðsynleg fylgigögn að hafa borist. Ef sótt er um grunnnám og stúdentsprófskírteini liggur ekki fyrir er hægt að skila staðfestu afriti af námsferli og taka fram í umsókn að lokaskírteini verði skilað eins fljótt og auðið er.

Sótt um fleiri en eina námsbraut

Það er lítið mál að sækja um fleiri en eina námsbraut, en vinsamlega athugið að mismunandi inntökuskilyrði og reglur um fylgigögn geta verið í gildi milli brauta, jafnvel þó að brautirnar séu innan sömu deildar. Fyrst er send inn umsókn fyrir eina braut, svo hina/r.

Hvað svo?

Boð um skólavist

Umsóknin fer til deildar þar sem hún er metin. Þegar ákveðið hefur verið hvort umsókn sé hafnað eða hún samþykkt er nemanda sent boð um skólavist eða tilkynning um að umsókn sé hafnað. Reynt er að svara öllum umsóknum fyrir 1. júlí. Ef óskað er upplýsinga um stöðu umsókna þarf að hafa samband við skrifstofu deilda:

Umsókn samþykkt með fyrirvara

Í sumum tilvikum er umsókn samþykkt með fyrirvara um að viðkomandi ljúki ákveðnu námskeiði um sumarið. Umsækjendur fá þá upplýsingar um það í bréfi.

Staðfesting á skólavist

Þegar umsókn hefur verið samþykkt fá umsækjendur senda tilkynningu um það ásamt greiðsluseðli fyrir staðfestingargjald. Greiðsla staðfestingargjaldsins er í raun staðfesting á skólavist og gjaldið gengur upp í skólagjöldin. Greiðsluseðillinn kemur inn á heimabankann og þá er jafnframt send tilkynning í tölvupósti. Staðfestingargjaldið er óafturkræft.

Brautir sem eru með hvað mestu fjöldatakmarkanirnar biðja samþykkta umsækjendur jafnframt um að staðfesta að þeir þiggi skólavist. Upplýsingar um það eru þá teknar fram í bréfi sem viðkomandi fær sent.

Skólagjöld

Skólagjöld eru innheimt með greiðsluseðli sem fer inn á heimabankann og tilkynning um að greiðsluseðillinn sé kominn inn á heimabanka er send í tölvupósti. Ef ekkert tölvupóstfang er skráð hjá nemanda þá berst greiðsluseðill á pappírsformi í pósti á skráð heimilisfang viðkomandi. Nánari upplýsingar um upphæðir og reglur skólagjalda.

Að hefja nám

Þegar umsókn hefur verið samþykkt og gengið hefur verið frá greiðslu staðfestingargjalds þarf að huga að fleiri þáttum svo sem námslánum, húsnæði, greiðslu skólagjalda og skráningu í námskeið. Á síðu fyrir nýnema er að finna upplýsingar um þessi atriði og margt fleira sem tengist því að byrja í HR.

HR heldur nýnemadaga í byrjun hverrar annar þar sem nýjum nemendum er boðið að koma og fræðast um hagnýt atriði varðandi námið og þjónustuna sem þeim stendur til boða í HR. 


Var efnið hjálplegt? Nei