Guðmundur Oddur Eiríksson: viðskiptafræði
Á fyrstu önninni var stærsta þrekraunin sú að glíma við hópverkefni í Þjóðhagfræði. Það verkefni var mjög áhugavert þar sem við þurftum að rýna í skýrslur frá því fyrir hrun, gögn frá Hagstofunni og aðrar hagtölur. Ég hafði mjög gaman af því verkefni þar sem við þurftum að tengja námsefnið við raunheiminn og var það hagnýt og góð reynsla. Fyrst og fremst líður mér vel í skólanum, aðstaðan er til fyrirmyndar og það er alltaf hægt að finna sér stað til þess að setjast niður og læra. Kennararnir eru alltaf tilbúnir að hjálpa og sama má segja um samnemendur. Það getur orsakast af því að vera í hálfgerðu bekkjarkerfi að nemendur ná mjög vel saman og mér finnst ótrúlegt hvað ég hef náð að kynnast mikið af góðu fólki á svona stuttum tíma, fólki sem ég þekkti jafnvel ekkert áður en ég hóf nám við HR.