Reglur um BSc-nám í viðskipta- og hagfræði

Náms- og framvindureglur

Framvinda í BS námi

Nemandi flyst upp á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 48 ECTS á fyrsta ári. Nemandi skal hafa lokið a.m.k. 90 ECTS áður en hann tekur námskeið af þriðja námsári og hafa lokið öllum skyldunámskeiðum 1.árs. Ef nemandi sem uppfyllir ekki skilyrði um námsframvindu hyggst halda áfram námi ber honum að sækja endurinnritun. Sjá nánar í kafla um endurinnritun. Hámarks námstími er 2 ár ofan á eðlilega framvindu í námi samkvæmt skipulagi námsbrautar.
Nemandi í viðskiptafræði með lögfræði sem aukagrein skal hafa lokið öllum námskeiðum 1. og 2. árs, þ.e. 120 ECTS til þess að gefa hafið nám á 3.ári.
Nemandi í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein flyst upp á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 48 ECTS á fyrsta ári. Nemandi skal hafa lokið a.m.k. 90 ECTS áður en hann tekur námskeið af þriðja námsári og hafa lokið öllum skyldunámskeiðum 1.árs.

Framvinda í diplómanámi

Nemandi flyst upp á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 48 ECTS á fyrsta ári. Ef nemandi sem uppfyllir ekki skilyrði um námsframvindu hyggst halda áfram námi ber honum að sækja um endurinnritun. Sjá nánar í kafla um endurinnritun. Hámarks námstími er 2 ár ofan á eðlilega framvindu í námi samkvæmt skipulagi námsbrautar.

Reglur um próftöku

Nemendum er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi er skráður í námskeið eftir að frestur um úrsögn er liðinn. Nemendur sem þurfa að sitja námskeið í annað sinn þurfa að skila öllum verkefnum námskeiðsins að nýju sem þýðir að nemendur geta ekki fengið verkefni metin á milli anna. Standist nemandi ekki námskeið eftir setu í annað sinn, telst hann fallinn úr námi. Ber honum þá að sækja um endurinnritun í námið vilji hann stunda námið áfram, sjá nánar í kafla um endurinnritun. Nánari reglur um próf og próftöku má sjá í náms- og prófareglum HR.

Reglur um verkefnavinnu
Náms- og námsmatsreglur HR
Siðareglur HR

Endurinnritun

Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu samkvæmt reglum deildarinnar, fellur réttur hans til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í námið. Umsókn um endurinnritun skal vera skrifleg og skal send til verkefnastjóra námsins. Viðskiptadeild áskilur sér þann rétt að hafna nemendum um endurinnritun. Sé nemanda veitt heimild til endurinnritunar heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Reglur um endurinnritun gilda einnig um nemendur sem hafa hætt námi og kjósa að hefja nám að nýju. Nemendur innritast á það námsskipulag sem er í gildi á hverjum tíma.

Undanfarar námskeiða

Nemendi skal kynna sér kröfur um undanfara áður en hann skrár sig í námskeið. Upplýsingar um undanfara námskeiða koma fram í kennsluskrá sem má finna á heimasíðu skólans.

Hámarksfjöldi eininga sem nemandi getur tekið

Nemandi í BSc-námi í viðskiptafræði getur skráð sig í 30 ECTS á önn að hámarki. Viðskiptadeild getur heimilað nemanda að skrá sig í eitt námskeið á önn umfram fullt nám (30 ECTS). Sú heimild er aðeins veitt nemendum sem hafa meðaleinkunn 7,5 eða hærri. Beiðni skal send til verkefnastjóra BSc-náms í viðskiptafræði. Aðeins er leyfilegt að skrá sig í eitt námskeið í hverri þriggja vikna lotu.

Sjálfstætt verkefni

Nemendur geta óskað eftir því að taka sjálfstætt verkefni (independent study) hjá einstökum kennurum. Getur það bæði átt við um aðlögun á almennu námskeiði sem kennari hefur umsjón með eða vinnu nemanda við sértækt rannsóknarverkefni undir handleiðslu fastráðins kennara við deildina. Í slíkum tilvikum er það alfarið undir viðkomandi kennara komið að samþykkja eða hafna slíkri beiðni. Kennurum ber að upplýsa forstöðumann námsbrautar og verkefnisstjóra um nemendur sem þeir hyggjast leiðbeina í sjálfstæðu verkefni.

Námshlé

Nemandi getur sótt um að gera hlé á námi sínu. Beiðninni skulu fylgja fullnægjandi gögn sem sýna að gildar ástæður séu fyrir henni. Meðal þeirra ástæðna sem réttlætt geta námshlé eru t.d. barnsburður eða veikindi. Með umsókn þarf t.d. að berast læknisvottorð ef sótt er um námshlé vegna veikinda. Sækja þarf um námshlé fyrir upphafsdag viðkomandi annar og skal umsókn send til verkefnastjóra námsins. Námshlé er veitt fyrir eina önn í senn en hámarkstími námshlés er eitt ár.

Almennt ákvæði um fyrningu námskeiða

Námskeið sem nemandi hefur staðist án þess að útskrifast fyrnast á 9 árum.

 Var efnið hjálplegt? Nei