CDIO
Hugmynd, hönnun, framkvæmd og rekstur
Iðn- og tæknifræðideild og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík eru þátttakendur í alþjóðlegu samstarfsneti háskóla sem kenna tæknigreinar. Þetta samstarf heitir CDIO, eða „Conceive, Design, Implement and Operate“.
Meðal þess sem þátttaka í CDIO felur í sér er samráð háskóla við atvinnulífið og fagfélög. Mótun námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur fái lausnamiðaða verkfræðilega færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.
CDIO í HR
Nemendur við deildirnar njóta góðs af CDIO-aðferðafræðinni á margan hátt. Í náminu er lögð mikil áhersla á traustan, fræðilegan grunn ásamt því að láta nemendur beita þessari þekkingu í alls kyns verkefnum sem oft eru unnin í hópum. Nemendur hafa meðal annars skotið upp eldflaug af Mýrdalssandi, smíðað kappakstursbíl og náð góðum árangri í alþjóðlegri keppni með kafbát sem þeir smíðuðu sjálfir.
Hér eru dæmi um fleiri verkefni sem nemendur hafa unnið og eru í anda CDIO. Nemendur hafa kynnt mörg þessara verkefna á viðburðum eins og Tæknideginum í HR, UTmessunni í Hörpu og á Háskóladeginum.
• hexapod • chessmate • litlir róbotabílar • hönnun á Tesla-túrbínu • endurbætur á bílalyftu • hjartalínurit og súrefnismettun • standsetning varmadælu og mælingar • brunakerfi í jarðgöngum • líkanagerð háspennulína • könnun á rafgæðum á Akranesi • rennslismælingar í læk • SCADA-kerfi fyrir Alvogen (loftræsting) • laser-net fyrir undankomuherbergi • ljósastýring með 3D-handskynjun • reglun jafnstraumsmótors • smíði lítillar vatnsaflsvirkjunar ásamt túrbínu • Teslaspóla - háspenna og tónlist • Hitamyndun í rafmótorum og spennugæði • mæling aflspenna • hönnun og smíði kamínu
Hvað þýðir þetta fyrir nemendur?
Fræði og þjálfun á sama tíma
Við menntun verkfræðinga og tæknifræðinga takast gjarnan á tvö sjónarmið sem bæði eiga rétt á sér. Nemendur þurfa annars vegar að innbyrða sívaxandi magn vísindalegrar þekkingar til að verða góðir sérfræðingar. Hins vegar þurfa þeir að ná yfirsýn yfir uppbyggingu flókinna kerfa, tengja fræðin við praktíkina og hafa samskiptafærni til að ná árangri í hópavinnu með öðrum sérfræðingum.
Vinnuveitendur hafa þær væntingar að verkfræðingar og tæknifræðingar séu góðir í samskiptum og ráði við að greina flókin verkefni, bera kennsl á aðalatriði og skorður, hanna hagnýtar lausnir og koma þeim í framkvæmd og rekstur. Þessa hæfni er æskilegt að nemendur öðlist á meðan á skólagöngu stendur. Þessum kröfum um fræðilegan grunn ásamt þjálfun í að leysa verkefni er reynt að mæta með CDIO-aðferðinni.
Framsæknir tækniháskólar, Boeing og Volvo
Stofnun CDIO árið 2000 var svar við áhyggjuröddum atvinnulífsins. Á tíunda áratug síðustu aldar fengu kennarar við verkfræðideildir tveggja virtra háskóla, MIT og Chalmers, skýr skilaboð frá samstarfsfyrirtækjum, m.a. Boeing flugvélaverksmiðjunum og Volvo bílaverksmiðjunum, um að ungir verkfræðingar sem skólarnir útskrifuðu réðu ekki við einföld verkfræðileg viðfangsefni. Þótt þeir kynnu fræðin þá réðu þeir ekki við raunhæfar lausnir, hagnýta hönnun né hópvinnu. Fyrirtækin kvörtuðu undan því að það tæki of langan tíma að kenna nýútskrifuðum nemendum að vinna. Prófessorar við háskólana ræddu þetta sín á milli og hófu samstarf um hvernig bæta mætti tæknimenntun og úr því varð CDIO-samstarfið.
Fleiri háskólar í CDIO eru meðal annarra:
MIT - Massachusetts Institute of Technology • DTU - Danmarks Tekniske Universitet • Chalmers Tekniska Högskola • KTH - Royal Institute of Technology • Aalborg University • Delft University of Technology • University of Sydney • Beijing Jiaotong University