Reglur um verkfræði BSc

Reglur um inntöku nemenda, prófkröfur, endurtöku prófa, námsframvindu, forsetalista o.fl.

Reglur þessar byggja á almennum náms- og prófareglum Háskólans í Reykjavík og samræmdum reglum Háskólans í Reykjavík um grunnnám, sem og reglugerð fyrir Háskólann í Reykjavík.  Að öðru leyti en hér kemur fram er vísað til þeirra reglna. Vakin er athygli á því að nemendur bera sjálfir ábyrgð á að haga námi sínu í samræmi við þessar reglur.

1. Inntaka nemenda

1.1. Bókleg inntökuskilyrði eru stúdentspróf, frumgreinapróf úr HR eða sambærilegt próf. Til þess að geta hafið nám í verkfræði þarf haldgóða þekkingu í stærðfræði, raungreinum, íslensku og ensku. Til leiðbeiningar er miðað við að nemendur hafi lokið að lágmarki 21 einingu (30 fein) í stærðfræði (þ.m.t. STÆ 503 eða sambærilegt) og 6 einingum (10 fein) í eðlisfræði (þ.m.t. EÐL 203 eða sambærilegt).
1.2. Tækni- og verkfræðideild setur viðmiðunarreglur um val á umsækjendum við inntöku í námið. 

2. Mat á fyrra námi

2.1. Nemandi sem óskar eftir því að fá fyrra háskólanám sitt metið sækir um það til verkefnastjóra á þar til gerðu eyðublaði.
2.2. Námskeið sem tekið hefur verið í öðrum háskóla er metið til eininga við Háskólann í Reykjavík og skráð á námsferil sem metið (M) ef um er að ræða sambærilegt námskeið frá viðurkenndum háskóla, enda hafi nemandi staðist námskeiðið með einkunn 6 eða hærri m.v. einkunnaskala HR. Til að geta útskrifast úr HR skal þó almennt miða við að nemandi hafi tekið a.m.k. 50% af heildareiningafjölda viðkomandi námsbrautar við HR.
2.3. Mat námskeiða frá öðrum háskólum skal vera í höndum námsmatsnefndar.
2.4. Við mat á fyrra námi gildir almennt að námskeið eldri en 9 ára eru ekki metin. Einungis eru metin námskeið með einkunn 6 eða hærri.

3. Lágmarkseinkunn og fjöldi eininga á önn

3.1. Til að standast námskeið þarf nemandi að fá einkunn 5,0 eða hærri.
3.2. Nemandi getur sjálfur skráð sig í að hámarki 32 ECTS einingar á önn. Ef nemandi vill taka fleiri einingar á önn þarf hann að sækja um það til verkefnastjóra.

4. Námsmat og endurtekning prófa

4.1. Fyrirkomulag námsmats í hverju námskeiði er tilkynnt við upphaf kennslu.  Í þeim tilfellum þar sem haldið er lokapróf í námskeiði er boðið upp á sjúkra- og endurtektarpróf.
4.2. Ef nemandi stenst ekki endurtektar- eða sjúkrapróf sem hann þreytir ber honum að sitja námskeiðið að nýju áður en hann þreytir aftur próf í því, sjá almennar náms- og prófareglur HR.
4.3. Nemanda er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar sinnum og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin (þ.e bæði aðalpróf og sjúkra-/endurtektarpróf).  Ef nemandi hefur ekki staðist námskeið eftir að hafa setið það tvisvar sinnum og vill halda áfram námi ber honum að sækja um endurinnritun. Sé honum veitt heimild til þess heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri.  Ný innritun tekur mið af gildandi námskrá hverju sinni.
4.4. Nemandi sem staðist hefur lokapróf getur óskað eftir að endurtaka prófið. Í þeim tilvikum gildir einkunn úr seinna prófinu. 
4.5. Verkefnastjóri og nemendaskrá hafa eftirlit með rétti nemenda til að endurtaka próf.

5. Námsáætlun og valnámskeið

5.1. Nám í verkfræði BSc er 180 ECTS einingar og miðast skipulag þess við að námsframvinda sé 30 ECTS einingar á önn.  Á vef tækni- og verkfræðideildar er birt kennsluskrá og yfirlit yfir skipulag námsins.  Á vef tækni- og verkfræðideildar eru einnig birtar samþykktar námsáætlanir fyrir hverja námsbraut. 

5.2. Nemendum er bent á mikilvægi þess að kynna sér kröfur um undanfara áður en þeir skrá sig í námskeið.

6. Námsframvinda

6.1. Til að mega flytjast á annað námsár þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 42 ECTS einingum af námsefni fyrsta námsárs. Ef nemandi sem uppfyllir ekki þetta skilyrði hyggst halda áfram námi ber honum að sækja um endurinnritun og tekur ný innritun mið af gildandi námskrá hverju sinni. Sé honum veitt heimild til þess heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri.
6.2. Nemandi skal hafa lokið öllum námskeiðum fyrsta námsárs eigi síðar en 2 árum eftir að hann innritaðist.  Hafi hann ekki gert það getur hann sótt um endurinnritun ef hann vill halda áfram námi. Sé honum veitt heimild til þess heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri.  Ný innritun tekur mið af gildandi námskrá hverju sinni.
6.3. Nemandi skal ljúka námi sínu innan 5 ára. Ef námi er ekki lokið 5 árum eftir að nemandi innritaðist ber honum að sækja um endurinnritun ef hann vill halda áfram námi og tekur ný innritun mið af gildandi námskrá hverju sinni. Við endurinnritun heldur nemandi einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri.
6.4. Nemandi getur sótt um að gera hlé á námi sínu eða að stunda nám samkvæmt sérstakri áætlun sem víkur frá ofangreindu. Umsóknin, ásamt áætlun um námsframvindu til námsloka, skal send til verkefnastjóra, studd viðeigandi gögnum. Gildar ástæður fyrir námshléi eða hægferð í námi eru t.d. barnsburður eða veikindi. Námsmatsnefnd metur umsóknir um námshlé, hægferð eða önnur frávik. Námshlé er veitt í eitt ár að hámarki.
6.5. Verkefnastjóri hefur eftirlit með námsframvindu nemenda.

7. Skiptinám

7.1. Nemandi sem vill fá heil misseri í skiptinámi metin að fullu þarf að leggja fram áætlun fyrir skiptinámið til verkefnastjóraog fá áætlun sína samþykkta áður en skiptinámið hefst.  Skiptinám er skráð á námsferil sem metið (M).
7.2. Vísað er til greinar 2.2 að ofan varðandi mat á einstökum námskeiðum.

8. Forsetalisti

8.1. Þeir nemendur í grunnnámi sem bestum árangri ná á hverju próftímabili eiga þess kost að komast á forsetalista tækni- og verkfræðideildar og fá skólagjöld næstu annar niðurfelld.  Til þess að vera gjaldgengir á forsetalista þurfa nemendur í dagskóla að ljúka einingum sem svara til fulls náms á viðkomandi önn og þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum viðkomandi annar samkvæmt samþykktri námsáætlun. Samþykkt námsáætlun getur annars vegar verið birt námsáætlun (sjá grein 5.1) og hins vegar eigin námsáætlun nemanda sem námsmatsnefnd hefur samþykkt (sjá grein 6.4).

8.2. Eingöngu námskeið sem nemendur ljúka á hefðbundnu próftímabili, eða fyrir þann tíma, eru gjaldgeng á forsetalista. Í útreikningi á meðaleinkunn gilda eingöngu próf sem tekin eru í fyrsta sinn í tilteknu námskeiði, m.ö.o. sjúkrapróf gilda en endurtektarpróf ekki.

9. Annað

9.1. Nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli geta sótt um að skila verkefnum, taka próf o.þ.h. á ensku.
9.2. Undanþágur frá reglum þessum eru aðeins veittar með samþykki námsmatsnefndar. Umsóknir um undanþágur skulu sendar til verkefnastjóra, studdar viðeigandi gögnum.

Gildistaka:

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Reglur þessar gilda fyrir nemendur sem innrituðust í Háskólann í Reykjavík 1. júlí 2005 eða síðar.

Þannig samþykkt á fundi deildarráðs þann 25.október 2005.

Þannig samþykkt, með áorðnum breytingum, á deildarráðsfundi tækni- og verkfræðideildar HR 17. desember 2008.

Þannig samþykkt, með áorðnum breytingum, á deildarráðsfundi tækni- og verkfræðideildar HR 6. nóvember 2012.  


Var efnið hjálplegt? Nei