Starfsnám

Nemendur í  verkfræði  við HR geta sótt um starfsnám í bæði grunnnámi og meistaranámi. Í grunnnámi er starfsnám 6 ECTS en í meistaranámi getur það verið viðameira, eða 12 ECTS.

Markmið með starfsnámi er að auka þekkingu nemenda á því sviði sem þeir stunda nám á og búa þá undir störf að námi loknu. Nemendur fá metnar einingar vegna starfsnámsins.

Dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem hafa tekið við nemendum í starfsnám:

• Actavis • Arion banki • Blóðbankinn •EFLA • Elkem • Hjartavernd • Icelandair • Ikea • Íslensk erfðagreining
• ÍSOR • Landsbankinn • Landsnet • Landspítalinn • Landsvirkjun • Mannvit • Marel • Marorka • Olís • Orkuveitan • Raförninn • Reitir •Samey • Samskip • Securitas • Síminn • Sjóvá • Verkís • Vodafone •
VSÓ ráðgjöf • Össur

Umsagnir nemenda

Ég ákvað að skrá mig í starfsnám á lokaönninni minni í heilbrigðisverkfræði. Það var mikið úrval fyrirtækja í boði og ég ákvað að einblína á þau fyrirtæki sem starfa í tengslum við heilbrigðisgeirann. Ég hóf svo störf sem nemi hjá Raferninum en fyrirtækið sér um sölu, viðhald og tækniþjónustu fyrir nánast alla myndgreiningu á Íslandi. Þar að auki er fyrirtækið að þróa og hanna hugbúnað fyrir myndgreiningartæki. Starfsnámið hefur verið virkilega skemmtilegt og ég fékk að kynnast alveg nýrri hlið á starfsemi í tengslum við námið mitt. Ég er fyrst og fremst búin að læra sjálfstæð vinnubrögð en það er mikið atriði að hver og einn starfsmaður hér vinni sjálfstætt og sinni sínum verkefnum. Ég fékk í hendurnar rannsóknarverkefni og það var mjög krefjandi að koma því af stað. Ég mæli eindregið með því að nemendur skrái sig í starfsnám, fyrst og fremst til þess að fá reynslu af vinnumarkaðinum og mynda sér tengslanet en þar að auki er starfsnámið frábær kynning á starfssemi tengdri náminu.

Aníta Hauksdóttir nemandi í heilbrigðisverkfræði

Ég er í starfsnámi í Marel,  verkefnið mitt er að endurgera gæðahandbókina á framleiðslusviðinu. Marel stendur í miklum breytingum þessa stundina og verkefnið felst í rauninni í því að fara yfir gömlu gæðahandbókina, fara yfir hvert og eitt ferli (eða hverja og eina framleiðslusellu), fara svo yfir í selluna, spyrja starfsmenn og skoða hvaða breytingar hafa orðið og setja upp flæðirit og texta sem lýsa nýja ferlinu.

Svo er mjög gaman að því að ég er búin að ná að nýta mér Marel í verkefni í öðrum áföngum líka, þannig að það hefur verið mjög auðvelt að nálgast réttu tengiliðina fyrir verkefnin.

Hrafnhildur Ýr Matthíasdóttir meistarnemi í rekstrarverkfræði

Var efnið hjálplegt? Nei