Bestun eignasafna út frá áhættu og væntri ávöxtun með og án tillits til skuldbindinga: samanburðargreining lausna og tengdar aðferðir

Í hefðbundinni eignastýringu er oftar en ekki stuðst við bestun eignasafna út frá áhættu og væntri ávöxtun (e. risk-return optimization). 

Eignasöfn má besta með tilliti til ýmissa viðmiða, til að mynda skuldbindinga. Í Lokaverkefni Guðmundar Magnússonar í Meistarnámi í fjármálaverkfræði eru líkön til bestunar eignasafna út frá áhættu og væntri ávöxtun, með og án tillits til skuldbindinga, leidd út og lausnir fyrir eignasöfn á framfalli (e. risk-return frontier) og dreifni ávöxtunar (e. standard deviation of returns) þeirra ritaðar með einföldum rithætti sem föll af ávöxtunarkröfu. Ritháttinn má ennfremur nýta til að segja til um mismuninn á framföllum eignasafna með og án tillits til skuldbindinga á einfaldan hátt. 

Bestunarlíkanið með skuldbindingaviðmiði getur tekið tillit til margra viðmiða í einu þar sem að hægt er að kljúfa varnarsafn skuldbindinga (e. liability hedge portfolio) niður í þætti tengda hverju viðmiði fyrir sig. Aðferðir sem nota má samhliða bestun eignasafna með skuldbindingaviðmiði eru lagðar fram, til að mynda líkindamælikvarði á eignir umfram skuldbindingar og beiting skammfallsskorða (e. shortfall constraints) á hlutfall eigna og skuldbindinga.

Framfall eignasafna án tillits til skuldbindinga (-, lágmarksáhættusafnið með •) og framföll eignasafna umframeigna með tilliti til skuldbindinga (-, lágmarksáhættusafnið með x) þar sem hlutfall eigna og skuldbindinga eru F = [1.5, 1.25, 1.0, 0.75, 0.5]. Rauða brotna framfallið er fyrir F = 1, framföllin vinstra megin við það rauða eru fyrir F > 1 og hægra megin eru fyrir F < 1. Eignasöfn með ávöxtunarkröfuna 10, 11 og 12 % eru táknuð með +/+, markaðssafnið án tillits til skuldbindinga með o og markaðssöfn með tilliti til skuldbindinga með bláum stjörnum. 


Fjárfestingastefnur með og án skuldbindingaviðmiðs eru bornar saman á grundvelli vaxtar eigna umfram skuldbindinga og frammistöðu. Samanburður eignasafna með og án skuldbindingaviðmiðs með gögnum frá júlí 2008 til janúar 2012 leiðir í ljós að eignasöfn með skuldbindingaviðmiði stóðu sig betur í að ávaxta eignir umfram skuldbindingar, ásamt því að ná sér hraðar upp úr niðursveiflunni frá árinu 2008.


UmsóknarvefurGott að vita:Var efnið hjálplegt? Nei