7. ágúst 2025
Aukinn stuðningur við nýnema auðveldar aðlögun og dregur úr brotthvarfi
7. ágúst 2025
Aukinn stuðningur við nýnema auðveldar aðlögun og dregur úr brotthvarfi
Nú í haust verður hrundið af stað nýrri þjónustu innan Háskólans í Reykjavík sem felur í sér að allir nýnemar fá úthlutað sérstökum mentor fyrstu átta vikurnar við skólann. Tilgangurinn er m.a. að auðvelda aðlögun nýrra nemenda að háskólalífinu og minnka hættu á brotthvarfi.
Svipað fyrirkomulag var prófað innan tölvunarfræðideildar HR haustið 2022 og gaf góða raun. Nú hefur því verið ákveðið að útvíkka það innan háskólans.
Jóhanna María Vignir, náms- og starfsráðgjafi, segir þjónustuna hafa gefið góða raun í háskólum erlendis. Hún er byggð á þeirri hugmyndafræði að með auknum stuðningi við nýnema aðlagist þeir betur háskólalífinu og ljúki sínu námi.

Við viljum gera okkar allra besta til að taka vel á móti nýnemum, tryggja að þeim líði vel hjá okkur og að þeir hafi greiðan aðgang að allri þeirri þjónustu sem í boði er við HR.
Þjónustan er á vegum nemendafélaganna í samvinnu við nemendaþjónustu og deildir háskólans. Nýnemum verður bætt inn í hóp nýnema hverrar deildar og finna nemendur sinn hóp inni á Canvas kerfi skólans.
Það eru nemendafélögin sem tilnefna mentorana en þeir fá fræðslu hjá Jóhönnu Maríu um mikilvægi jákvæðra leiðtoga, gróskuhugarfar og styrkleika þjálfun.
Þetta er gott tækifæri fyrir nýnema til að kynnast samnemendum og háskólaumhverfinu, sem og fyrir eldri nemendur, til sjálfseflingar og aukinnar reynslu. Rannsóknir hafa sýnt að skortur á stuðningi, bæði félagslegum og námslegum, er stór þáttur í brotthvarfi háskólanema, og þetta er skref í rétta átt til að mæta þörfum nemenda.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir