Námið
Rannsóknir
HR

Gæðakerfi náms og kennslu

Hlutverk Háskólans í Reykjavík (hér eftir HR) er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi.  Stefna HR er að vera öflugur kennslu- og rannsóknaháskóli með áherslu á tækni, viðskipti og lög. HR vinnur stöðugt að því að auka gæði náms, kennslu og rannsókna svo og stjórnunar, þjónustu og tengsla við atvinnulíf og samfélag. HR leggur mikla áherslu á að öll starfsemi skólans sé í samræmi við viðurkennd innlend og alþjóðleg viðmið.

HR setur sér stefnu og skipulags- og starfsreglur sem eru aðgengilegar á vef háskólans. Þar er meðal annars gerð grein fyrir gæðastýringu og hvernig hún tengist framtíðar stefnumörkun háskólans. Framkvæmd hennar er í höndum innri hagsmunaaðila(1) er njóta ráðgjafar ytri sérfræðinga. 

Um þróun gæðakerfisins

Gæðakerfi HR sem hefur verið í þróun undanfarin ár, tengist meðal annars úttektum Gæðaráðs íslenskra háskóla og erlendum vottunum sem einstakar deildir HR hafa gengist undir, svo sem AMBA, EPAS og EQAINE (2). Gæðakerfinu er ætlað að tryggja gæði allrar starfsemi HR auk þess sem slíkt kerfi nýtist vel við greiningu á starfsemi skólans og er mikilvægt tæki til að mynda í stefnumótun og stjórn skólans. 

Gæðakerfi náms og kennslu við HR byggir á stöðlum Evrópska háskólasvæðisins (e. European Higher Education Area) eins og þeir voru í maí 2015 settir fram í ritinu „Standards and Guidelines for Quality Assurance in the European Higher Education Area“(3). Stöðlunum er ekki aðeins ætlað að vera til leiðbeiningar fyrir innra og ytra gæðaeftirlit með háskólastarfsemi innan evrópska háskólasvæðisins, heldur hefur nú þegar verið kveðið á um að gæðaeftirlitsstofnanir á Evrópska háskólasvæðinu skulu kerfisbundið nýta viðkomandi staðla við að leggja mat á gæði háskóla (4). 

Tilgangur og markmið

Með því að nota gæðakerfi sem fylgir stöðlum Evrópska háskólasvæðisins vill HR tryggja að nám og kennsla sé sambærileg við alþjóðlegt umhverfi, að starfað sé samkvæmt lögum um háskóla og reglum um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna, sem og viðmiðum um æðri menntun og prófgráður hér á landi. Þannig vill HR tryggja nemendum sínum nám og kennslu sem stenst alþjóðlega staðla samhliða því að stefna í sömu átt og aðrir háskólar á Evrópska háskólasvæðinu.

Markmiðið með gæðakerfi náms og kennslu er meðal annars að auka gagnsæi starfseminnar. Það verður gert með því að skilgreina formlega ferla og leiðir sem tryggja að skólinn starfi í samræmi við innri og ytri viðmið, lög og reglur. Með þessu er ætlunin að tengja saman verkefni og hlutverk starfsmanna, eininga og deilda skólans. HR ætlar sér alltaf að bjóða upp á nám og kennslu sem stenst ströngustu alþjóðlegar kröfur. Gæðakerfinu er þó ekki aðeins ætlað að móta faglega verkferla skólastarfsins heldur vekja starfsfólk, nemendur og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um mikilvægi gæða fyrir starfsemi HR. Því er þannig ætlað að mynda umgjörð um gæðamenningu og -vitund meðal starfsmanna og nemenda. 

Ábyrgðaraðilar

Mikilvægt er að skilgreina ábyrgð lykilaðila á öllum ferlum í gæðakerfi skólans. Í starfsreglum skólans segir að rektor beri ábyrgð á gæðum starfsemi HR og framkvæmd innra mats. Þar segir einnig að háskólaráð skuli hafa eftirlit með að innra gæðastarfi skólans sé vel sinnt og skal rektor kynna fyrir stjórn og háskólaráði niðurstöður innra gæðamats og jafnframt niðurstöður ytra mats þegar það á við. Þetta á líka við um framkvæmdaráð sem skal fjalla um niðurstöður innra gæðamats. Það sama má segja um námsráð og rannsóknaráð HR sem skulu einnig leggja sitt af mörkum við að tryggja gæði starfseminnar og taka til umfjöllunar allar niðurstöður innra og ytra gæðastarfs við skólann. Árleg skýrsla rektors um gæðastarf HR skal tengja saman niðurstöður eininga og sýna niðurstöður mælinga á máta sem nýst getur stjórn skólans við stefnumótun og ákvarðanatöku (5).

(1) Með hagsmunaaðilum er átt við akademíska starfsmenn skólans, nemendur, starfsmenn stoðsviða og yfirstjórn skólans, háskólaráð og stjórn skólans. Þessir aðilar njóta eftir atvikum ráðgjafar ytri sérfræðinga, útskrifaðra nemenda og fulltrúa atvinnulífs.
(2) EPAS og AMBA eru dæmi um alþjóðlegar vottanir sem veittar eru einingum háskóla, ss. á sviði viðskiptafræði.  – sjá EFMD.org
(3) http://www.enqa.eu/wp-content/uploads/2015/11/ESG_2015.pdf
(4) Gæðakerfi HR kallast einnig á við gæðahandbók Gæðaráðs íslenskra háskóla sbr. https://en.rannis.is/media/gaedarad/Final-for-publication-14-3-2017.pdf
(5) http://www.ru.is/skipulag/starfsreglur/ - gr.2.3 „Rektor kynnir fyrir stjórn og háskólaráði niðurstöður innra gæðamats og jafnframt niðurstöður ytra mats þegar það á við. Rektor ber ábyrgð á gæðum starfsemi HR og framkvæmd innra mats.“ Einnig 2.4. varðandi starfsemi framkvæmdaráðs. 

Nám og kennsla
Mannauður kennslu

HR setur sér mannauðsstefnu þar sem markmiðið er að tryggja hæfi kennara og annarra starfsmanna skólans. Mannauðsstefnan felur í sér skýra ferla varðandi ráðningar, framgang og möguleika starfsmanna á að þróast í starfi.

Hvort nemendur upplifa að gæði náms og kennslu séu fullnægjandi ræðst að verulegu leyti af starfi kennara. Meiri áhersla á einstaklingsmiðað nám og hæfnimiðað námsframboð hefur leitt til mikilla breytinga og aukinna krafna til kennarastarfsins. Hæfnimiðað námsframboð felur í sér að skipulag námsgráðu og einstakra námskeiða taki mið af þeirri hæfni sem nemandi á að búa yfir að námi loknu.

Til að tryggja fjölbreytta og nútímalega kennsluhætti og til að stuðla að þróun og endurmenntun kennara vinnur HR að þróun mats á gæðum náms og kennslu meðal annars á grundvelli eftirfarandi atriða: 

  • Framsetningu námskeiðs í kennslukerfi, miðlun upplýsinga til nemenda, samskipti nemenda og kennara utan kennslustofu, kennsluaðferðir, námsmat og skipulagningu námskeiða
  • Sjálfsmati kennara
  • Mati nemenda á gæðum námskeiða
  • Sérfræðimati
  • Jafningjamati á fræðilegu inntaki námskeiðs

HR tryggir að kennsluráðgjafi sé ætíð til reiðu til að aðstoða kennara og tryggt er að allir nýir kennarar séu upplýstir um kennslustefnu skólans og fái leiðsögn og leiðbeiningar sem nýtast þeim í starfi. 

HR sér kennurum fyrir handbók um gæði kennslu og tryggir endurskoðun hennar með reglubundnum hætti. 

HR tryggir aðkomu nemenda og annarra hagsmunaaðila að mati á kennslu, úrvinnslu mats og endurbótum og að niðurstöður séu kynntar nemendum.

Gagnasöfnun og greining

HR skal tryggja gæði gagna um rekstur háskólans og nýta þau til að bæta starfsemi hans. HR safnar og greinir upplýsingar úr nemendaumsýslukerfi og kennslukerfi sem nýtast við framkvæmd gæðastefnu skólans og til að styðja við stefnumótun hans. Meðal þeirra upplýsinga sem HR safnar og greinir eru:

  • Opinberar lykiltölur sbr. reglur nr. 321/2009 um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna
  • Nemendatölur til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar s.s. OECD (1)
  • Greining á samsetningu nemendahóps
  • Upplýsingar um námsframvindu, brottfall, endurkomur nemenda
  • Ánægja nemenda og útskrifaðra með gæði náms
  • Upplýsingar um nýtingu húsnæðis, mannauðs og stoðþjónustu
  • Atvinnuhorfur og afkomu nemenda að námi loknu

(1) „Háskólinn veitir Hagstofu Íslands sundurliðaðar upplýsingar úr nemendabókhaldi og öðrum skrám vegna hagtalna og skal veita Hagstofu Íslands og ráðuneytinu upplýsingar sem UNESCO, OECD, EUROSTAT og aðrir sambærilegir aðilar fara fram á. Sama gildir um upplýsingagjöf til Rannsóknamiðstöðvar Íslands um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun og Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána.“ - http://www.ru.is/media/almennt/Thjonustusamningur-vid-Haskolann-i-Reykjavik-2012-2016.pdf

Upplýsingamiðlun

HR miðlar upplýsingum um starfsemi skólans til þjóðfélagsins, atvinnulífs, nemenda og annarra hagsmunaaðila skólans. Væntanlegir nemendur, atvinnulíf, fjölmiðlar og samfélagið í heild á að hafa aðgang að öllum upplýsingum er varða kennslu og nám við HR. Hér er átt við upplýsingar um akademíska starfsmenn og aðra starfsmenn, framgang nemenda, brottfall, endurkomur (1), útskriftir og afdrif nemenda að námi loknu. HR birtir einnig ítarlegar upplýsingar um námsbrautir, s.s. lærdómsviðmið, prófgráður, kennsluhætti og námsmat. Upplýsingar eru settar fram á aðgengilegan máta fyrir hlutaðeigandi.

(1) Hér er orðið endurkoma notað yfir enska orðið retention – í þessu samhengi yfir það hlutfall fyrsta árs nemenda sem snúa aftur í nám á öðru ári að sumarleyfi loknu. 

Gæðaeftirlit

Deildarforsetar bera ábyrgð á virkni gæðakerfisins í þeirra deild og að öllum verkferlum sé sinnt (1). Þetta felur bæði í sér ábyrgð á skipulögðum innri úttektum á gæðum náms og kennslu og ábyrgð á því að viðkomandi deild og starfsmenn hennar sinni verkferlum af heilindum í daglegum stöfum sínum. 

Úrvinnsla niðurstaðna, úr fjölbreyttu mati á gæðum náms og kennslu sem framkvæmdar eru miðlægt af kennslusviði, er sett fram í skýrslu til viðkomandi deildarforseta og rektors. Deildarforseti skal tryggja að eftir því sem við á séu úrbætur gerðar innan deildar. 

Í starfsreglum HR kemur fram að námsráð hverrar deildar skuli koma að framkvæmd gæðakerfisins og eftirfylgni úttekta og er sérstaklega getið um þátttöku nemenda í þessu ferli. Þá skal námsráð hverrar deildar tryggja aðkomu nemenda að skipulagi náms og kennslu og funda reglulega með þeim um þau málefni (2).

Framkvæmdastjórar og forstöðumenn skulu jafnframt tryggja að sú starfsemi sem þeir bera ábyrgð á sé í samræmi við það gæðakerfi sem hér er lýst og að stoðþjónusta skólans leggi sitt af mörkum við að bæta gæði kennslu og náms í HR. Stoðsvið skulu styðja einstakar deildir í viðleitni sinni við að auka gæði náms og kennslu.  

Námsráði HR er ætlað að vera stefnumótandi í innra gæðaeftirliti og koma að gæðaúttektum sem gerðar eru við skólann.

(2) http://www.ru.is/skipulag/starfsreglur/ - gr. 2.5. – „Einnig koma ráðin að framkvæmd innra mats og eftirfylgni á grundvelli niðurstaðna innra og ytra mats, einnig með þátttöku nemenda.“

Fara efst