Námið
Rannsóknir
HR

HR vinnur með mörgum fyrirtækjum og stofnunum hér á landi og úti í heimi. Starfsfólk HR og nemendur læra af fyrirtækjum og þau af starfsfólki og nemendum HR sömuleiðis. Háskólinn býr yfir nýrri þekkingu úr rannsóknum hérlendis og erlendis, atvinnulífið býr sömuleiðis yfir nýjum aðferðum og hugmyndum. Þekkingarsköpun og beiting nýrrar þekkingar með nýjustu aðferðunum hverju sinni er góð blanda fyrir framtíðarsamfélagið. 

Tækin og tækifærin

Fyrst og fremst gefum við nemendum okkar góðan grunn fyrir þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Þau fá bæði verkfærin og tækifærin sem þarf. Góðan fræðilegan grunn og hæfni til að vinna í hópum, leysa verkefni undir álagi og leysa úr ágreiningi. Þá þurfa þau flest að stofna fyrirtæki í námi sínu. Þannig uppgötva þau eigin hæfni, störf sem þau þekktu ekki áður og jafnvel möguleikann á að búa til ný störf og þekkingu. 

Hvert á að leita?
Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir
Verkefnastjóri atvinnulífstengsla og sjálfbærni

Leiðir til samstarfs

Nemendur HR komast snemma í snertingu við atvinnulífið með raunhæfum verkefnum sem unnin eru í samstarfi við fyrirtæki, í starfsnámi og með kennslu frá sérfræðingum sem starfa utan háskólans.

Starfsnám

Deildir Háskólans í Reykjavík gera samninga við fyrirtæki og stofnanir vegna starfsnáms nemenda við þeirra deild. Flestar deildir skólans bjóða nemendum upp á starfsnám.

Nemendaverkefni

Nemendur vinna verkefni í samstarfi við fyrirtæki og njóta báðir aðilar góðs af því. Verkefnin geta til dæmis verið lokaverkefni í grunnnámi eða í þriggja vikna námskeiðum.

Samstarfssamningar

HR hefur átt í góðu samstarfi við stofnanir og fyrirtæki hér á landi. Þau sjá samstarf við háskólann sem fjárfestingu til framtíðar, sem hagnast fyrirtækinu og samfélaginu í heild. Samstarfssamningarnir eru afar fjölbreyttir, allt frá samningum um starfsnám nemenda, lokaverkefni, meistaraverkefni sem og samstarfi um rannsóknir yfir lengra tímabil. Viðfangsefnin spanna allt frá rannsóknum á sjálfbærri nýtingu orku til þróunar tæknilausna í sjávarútvegi og matvælaframleiðslu.

Dæmi um samstarfsaðila eru Marel, SFS, Landsvirkjun, Landsnet og Landsbankinn.

Samstarfsverkefni

Samstarfsaðilar HR eiga það sameiginlegt að meta samstarfið sem fjárfestingu til framtíðar, jafnt fyrir fyrirtækið og samfélagið í heild.

Hér má sjá lista yfir nokkur af stærri samstarfsverkefnum HR og atvinnulífsins:

Samstarfssamningur til fimm ára um rannsóknir og menntun á flutningi raforku. Landsnet er einn af stofnendum Rannsóknarseturs HR um sjálfbæra þróun (SIF). Meðal viðfangsefna rannsóknarsetursins eru rannsóknir á flutningi raforku, nýtingu orkunnar, raforkumarkaði, orkuskiptum, snjallneti, stafrænni þróun og sjálfbærni.

Samstarfssamningur til fimm ára um rannsóknir og menntun á sviðum sem tengjast sjálfbærri nýtingu á raforku. Samstarfið við Landsvirkjun gerir HR kleift að starfrækja Rannsóknarsetur um sjálfbærni (Sustainability Institute and Forum) ásamt Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnun sem starfsrækt er við lagadeild HR.

Samstarfssamningur til þriggja ára um verkefnið „Stelpur, stálp og tækni“ Um er að ræða átaksverkefni sem haldið er að fyrirmynd „Girls in ICT Day“. Um er að ræða sérstakan viðburð sem haldinn er víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna. Markmið verkefnisins er að efla fjölbreytileika í tæknigreinum.

Samstarfssamningur til þriggja ára um verkefnið „Konur og kvár í tæknigreinum“. Samfélagssjóður Símans styrkir konur og kvár með framúrskarandi námsárangur úr framhaldsskóla sem koma í grunnnám í rafmagnstæknifræði, hátæknifræði, tölvunarstærðfræði eða tölvunarfræði við HR.

Samstarfssamningur SFS og HR snýst um að efla rannsóknir og nýsköpun í sjávarútvegi með það að markmiði að auka sjálfbærni, nýtingu afurða og atvinnusköpun í greininni. Með samningnum hefur meistaranemum verið gert kleift að tengja verkefni sín fyrirtækjum í greininni. Auk þess hafa aðilar í sameiningu skipulagt viðburðinn Vitinn, hugmyndasamkeppni þar sem nemendur þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Keppnin hefur verið haldin árlega í skólanum frá árinu 2015.

Þróun nýsköpunar og klasa

Grunnhugmyndin að baki klösum er sú að öflugar tengingar aðila innan klasans auki samkeppnishæfni hópsins í heild. Landfræðileg nálægð og/eða sameiginlegir málaflokkar eru yfirleitt forsendur þess að klasinn myndist. Háskólar gegna mikilvægu hlutverki innan klasa enda hafa menntun og rannsóknir áhrif á öll svið atvinnulífsins.

Hengill

Háskólinn í Reykjavík tekur virkan þátt í fjölda íslenskra klasa og annarra samstarfsverkefna um eflingu ákveðinna atvinnugreina. Þátttakan skiptir bæði háskólann og atvinnulífið miklu máli því hún styrkir nýsköpun og samstarf um sameiginleg úrlausnarefni.

Iceland Geothermal
Háskólinn í Reykjavík er stofnaðili að Iceland Geothermal klasanum sem hefur það hlutverk að nýta sérstöðu Íslands sem jarðvarmalands til aukinnar hagsældar og verðmætasköpunar.

Ríflega 40 stofnfélagar Iceland Geothermal endurspegla breiða þátttöku frjálsra félagasamtaka, fyrirtækja og samtaka í jarðvarmaiðnaðinum. Markmið samstarfsins er að skapa ný tækifæri til öflugrar nýsköpunar og þróunar og stóraukins útflutnings á sviði orkuframleiðslu og fjölnýtingar.

Klasasamstarf íslensku ferðaþjónustunnar
Klasasamstarf íslensku ferðaþjónustunnar leiðir saman fyrirtæki og opinberar stofnanir sem starfa á sviði ferðaþjónustu, auk fjölda annarra aðila með beina og óbeina hagsmuni af iðnaðinum. Meginmarkmið klasasamstarfsins er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónustu með því að byggja á þekkingu og reynslu allra þátttakenda í klasanum.

Samtök íslenskra leikjaframleiðenda
Samtök íslenskra leikjaframleiðenda (Icelandic Gaming Industry, IGI) voru stofnuð árið 2009 sem starfsgreinahópur innan Samtaka Iðnaðarins.

Hlutverk samtakanna er að vera samstarfsvettvangur um hagsmuni og stefnumótun í leikjaiðnaðinum á Íslandi, að auka miðlun þekkingar milli leikjaframleiðenda, auka þekkingu almennings á iðnaðinum, veita leikjaframleiðendum stuðning og þjónustu og auðvelda þeim að tala einni röddu gagnvart stjórnvöldum og atvinnulífi.

Gervigreindarsetur HR (CADIA) var meðal stofnenda IGI. Háskólinn í Reykjavík og IGI hafa átt í formlegu samstarfi frá árinu 2010 um nýsköpun í kennslu og rannsóknum í leikjaframleiðslu.

Fjártækniklasinn 
Tilgangur Fjártækniklasans er að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri. Hann er samfélag þeirra sem starfa við fjártækni og vilja stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum.

Opni háskólinn: Sí- og endurmenntun fyrir fyrirtæki

Opni háskólinn í HR starfar náið með akademískum deildum HR að því að sérsníða fræðslu fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Stjórnendaþjálfun og sérsniðnar lausnir á sviði sí- og endurmenntunar 

Sett er upp fræðsluáætlun fyrir stjórnendur og vinnustaðinn í heild. Sérsniðnar lausnir eru ólíkar eftir áherslum fyrirtækja en efnistök eru einkum sótt til sérfræðinga akademískra deilda HR, sérfræðinga í íslensku atvinnulífi sem og til erlendra samstarfsaðila og gestakennara.

Samstarfsverkefni og sérsniðnar námslínur

Opni háskólinn í HR hefur sett á fót fjölda stórra námskeiða í samstarfi við fyrirtæki og fagsamtök sem miða að því að bæta árangur og færni starfsmanna á ákveðnu sviði innan sama fyrirtækis eða sömu atvinnugreinar. Verkefni geta einnig verið afmörkuð með sérstakar þarfir eða markmið í huga.

Dæmi um samstarfsverkefni:
  • Vottun fjármálaráðgjafa í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja, viðskiptabanka á Íslandi, viðskiptadeild HR, HÍ og Háskólann á Bifröst
  • Tryggingaskólinn - vottun vátryggingafræðinga í samstarfi við vátryggingafélögin og lagadeild HR
  • Stjórnendur í ferðaþjónustu í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar
  • Stjórnendur í sjávarútvegi í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Stjórnendur bílgreina í samstarfi við Bílgreinasambandið
  • Stjórnendur í verslun og þjónustu í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu.

Störf og starfsnám

Háskólinn í Reykjavík starfar í nánum tengslum við atvinnulífið. Hér eru birtar auglýsingar frá fyrirtækjum sem óska eftir nemendum HR til starfa í tímabundin verkefni, hlutastörf auk sumar- og framtíðarstarfa.

Rannsóknir við Háskólann í Reykjavík

Fyrirtækjum er velkomið að óska eftir nemendum HR til starfa í tímabundin verkefni, hlutastörf auk sumar- og framtíðarstarfa á starfavef Háskólans í Reykjavík. 

HR er í samstarfi við alþjóðlegu starfs-, starfsnáms- og starfsþjálfunargáttina HigherEd, sem er viðbót við þau úrræði sem þegar standa nemendum HR til boða. Í HigherEd má finna starfsnám, starfsþjálfun, lærlingsstöður og námsstöður út um allan heim.

Fara efst