Námið
Rannsóknir
HR

Ráðgjöf og sálfræðiþjónusta

Náms- og starfsráðgjafar aðstoða nemendur við að ná árangri í námi og átta sig á áhuga sínum og styrkleikum. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl, hópráðgjöf og fjölbreytt, þverfagleg námskeið.

Sálfræðiþjónusta Háskólans í Reykjavík er gjaldfrjáls fyrir alla nemendur skólans. Þjónustan heyrir undir Nemendaráðgjöf HR. Þar starfa tveir sálfræðingar auk framhaldsnema í klínískri sálfræði, sem eru undir faglegri handleiðslu.

Þjónustan er í formi viðtala og námskeiða en breytilegt er hvers konar þjónusta hentar hverjum og einum. Nemendur geta valið að skrá sig beint á auglýst námskeið eða bókað viðtal til að ræða hvaða möguleikar á þjónustu eru í boði. Sálfræðingar þjónustunnar bjóða upp á ráðgjöf og stuðning en hafa því miður ekki tök á að bjóða langtímameðferð, né tíð viðtöl. Í sumum tilfellum er nemendum vísað áfram á aðra viðeigandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins.

Starfsfólk

Hildur Katrín Rafnsdóttir
Forstöðukona Nemendaráðgjafar, Náms- og starfsráðgjafi
Jóhanna María Vignir
Náms- og starfsráðgjafi
Stella Ólafsdóttir
Náms- og starfsráðgjafi

Sérúrræði

Sérúrræði í námi – fyrir hverja?

Hlusta )

Nemandi getur sótt um sérúrræði í námi, skili hann inn vottorði/greiningu frá viðurkenndum fagaðilum sem vinna með hamlanir eða aðrar hindranir eins og dæmi eru um hér fyrir neðan. Athugið að ekki er veittur lengri próftími fyrir prófkvíða einan og sér heldur þarf viðkomandi að sýna fram á greiningu kvíðaröskunar skv. DSM kerfinu og/eða meðferð hjá fagaðila. Slík staðfesting getur veitt tímabundinn samning, í eitt misseri eða tvö eða að hámarki ár. 

  • Sjónskerðingu, blindu/lögblindu
  • Heyrnarskerðingu, heyrnarleysi
  • Sértæka námsörðugleika s.s. lesblindu
  • Taugasálfræðileg vandamál s.s., AD(H)D, tourette, einhverfuróf
  • Hreyfihömlun s.s. fatlanir eða tímabundna hreyfihömlun vegna slyss
  • Langvarandi veikindi s.s. krabbamein, gigt, MS, MND eða geðfatlanir.
Persónuleg ráðgjöf

Náms- og starfsráðgjöf býður upp á persónulega ráðgjöf og/eða eftirfylgni fyrir nemendur með fötlun eða sértæka námsörðugleika. Einnig getur náms- og starfsráðgjafi haft milligöngu um myndun minni stuðningshópa.

Sérúrræðanefnd HR

Hlutverk Sérúrræðanefndar er að leggja mat á beiðnir nemenda sem sækja um lengri tíma í lokaprófum og/eða aðra þjónustu á námstímanum á grunni sértækra námsörðugleika, fatlana, hamlana eða veikinda. Nefndina skipa prófstjóri, fulltrúi akademískra deilda, trúnaðarlæknir HR, sérfræðingur í læsi og náms- og starfsráðgjafi sem situr í nefndinni sem fulltrúi nemenda.


Nefndin getur samþykkt eða hafnað óskum um sérúrræði í prófum á grundvelli þeirra vottorða eða gagna sem nemandi hefur lagt fram er varða hömlun hans í námi. Nefndinni er heimilt að synja nemendum um sérúrræði liggi það fyrir með óyggjandi hætti að námið sé þess eðlis að nemandi nái ekki að uppfylla lærdómsviðmið skólans.

Sækja um sérúrræði

Nemandi sækir um með því að hengja skjölin (vottorð eða greiningu) við umsókn og sendir í gegnum beiðnakerfið með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.

Sérúrræðanefnd HR leggur mat á beiðnir nemenda sem sækja um lengri tíma í lokaprófum og/eða aðra þjónustu á námstímanum á grunni sértækra námsörðugleika, fatlana, hamlana eða veikinda.

ÞAU sem glíma við hamlanir sem líta má á sem tímabundnar og hægt er að vinna með, lækna eða gera viðráðanlegri, sækja um sérúrræði fyrir hverja önn eða fyrir skólaárið. Ef hömlun nemanda er varanleg, þá sækir nemandinn um sérúrræði í upphafi náms og er skráður með sérúrræði út námstímann við HR.

Val á námi

Mikilvægt er að taka mið af eigin áhugasviðum þegar ákvarðanir um nám og störf eru teknar.

Kannanir sem geta hjálpað við val á námi

Gott að hafa í huga
Er þörf á setja upp styrkleikagleraugun?
Það getur verið mjög hjálplegt fyrir einstakling sem er á þeim tímamótum að velja sér nám við hæfi að þekkja styrkleika sína. Styrkleikar eru, samkvæmt vísindamönnum sem hafa rannsakað efnið, náttúrulegir hæfileikar sem koma fram í hegðun, tilfinningum og hugsunum sem gerir viðkomandi kleift að takast á við verkefni á sem áhrifaríkastan hátt með farsælustu útkomuna. 

Rannsóknir sýna að einungis 1/3 fólks veit hvaða styrkleika það hefur. Styrkleikar eru náttúrulegir hæfileikar sem koma fram í hegðun, tilfinningum og hugsunum sem gerir viðkomandi kleift að takast á við verkefni á sem áhrifaríkastan hátt með farsælustu útkomuna.

Til að gera sér betur grein fyrir styrkleikum sínum er gott að byrja á að velta fyrir sér eftirfarandi spurningum;

  • Hverjir eru styrkleikar mínir?
  • Hvað er mér eðlislægt?
  • Hvað veitir mér jákvæða orku?

Til að svara þessum spurningum getur reynst vel að rifja upp stundir þar sem þú hefur náð að njóta þín algjörlega í núinu og fyllst af orku. Þegar þú vilt ná að hámarka þína styrkleika er gott að vera í slíku flæði þar sem þú færð þá tilfinningu að vera með fulla athygli á verkefninu.

Einnig er gott að hafa í huga að manneskjan hefur tilhneigingu til að einblína á það neikvæða eða veikleika í stað hið jákvæða eða styrkleika okkar. Þetta virðist manneskjunni eðlilslægt og er talað um tilhneigingu til hins neikvæða (e. Negativity Bias). Því er mikilvægt að staldra við og skoða hvað er að skila árangri og hvað ekki.

Fræðsluefni

Hér má sjá ýmiskonar efni sem miðar að því að hjálpa nemendum að ná sem bestum árangri í sínu háskólanámi.

Háskólanám getur verið ansi krefjandi og rekast nemendur oft á ýmsar hindranir á námstíma sínum.

Háskólanám kallar oft á breyttar námsaðferðir og er því mikilvægt fyrir hvern og einn að átta sig á námsvenjum sínum. Flestir hafa tamið sér ákveðin vinnubrögð, meðvitað eða ómeðvitað. Sjálfsagt er að nota áfram þær námsaðferðir sem reynst hafa vel en í sumum tilfellum þarf að gera ákveðnar breytingar. Í upphafi háskólanáms er tækifæri til að endurskoða námsvenjur og bæta það sem betur má fara. Mikilvægt er að taka lítil skref og ætla sér ekki of miklar breytingar í einu.

Námstækni er ákveðið hjálpartæki sem auðveldar nemendum að tileinka sér nýja þekkingu. Góð námstækni veitir nemendum aðhald og er tæki til tímasparnaðar. Gott skipulag, markmiðasetning og jákvætt hugarfar er grunnurinn að góðri námstækni.

Í undirflokkunum hér að neðan má finna ýmiskonar fræðsluefni sem miðar að því að hjálpa nemendum að ná sem bestum árangri í sínu háskólanámi, hvort sem það snýr að því að skipuleggja tíma sinn betur, beita gagnlegri lestrartæki eða vinna að bættri líðan.

Umsóknarfrestur fyrir sérúrræði í námi
  • Umsóknarfrestur fyrir haustönn: 1. október
  • Umsóknarfrestur fyrir vorönn: 1. mars.
Fara efst