Námið
Rannsóknir
HR

Reglur um námsframvindu í grunnnámi (BA/BSc)

Almennar námsframvindureglur BSc náms

Framvinda 1. ár

Nemandi þarf að ljúka a.m.k. 42 ECTS áður en hann flyst á annað ár.

Framvinda 2. ár

Nemandi þarf að ljúka a.m.k. 90 ECTS áður en hann flyst á þriðja ár og hafa lokið öllum skyldunámskeiðum fyrsta árs.

Hámark námstíma

Hámarks námstími er tvö ár ofan á eðlilega framvindu í námi skv. skipulagi námsbrautar.

Námshlé

Námshlé er eingöngu veitt af sérstökum ástæðum s.s. vegna veikinda, barneigna eða slysa. Hámarkslengd er eitt ár á öllum námsbrautum.

Mat á fyrra námi

Nemandi skal sækja um mat á námi á þar tilgerðu eyðublaði og senda inn staðfestingu á fyrra námi. Námsráð deildar sér um að meta nám nemanda í samráði við kennara deildar. Einungis eru metin námskeið á háskólastigi.

Fyrra nám sem nemandi hefur lokið meira en 9 árum áður en hann er innritaður í nám í HR er ekki metið til eininga.

Í þeim námskeiðum sem metin eru skal einkunn vera 6,0 eða hærri nema ef um er að ræða mat á einingum úr loknum gráðum frá HR, þá skal miðað við lágmarkseinkunnina 5,0.

Nemandi skal verja að lágmarki 50% námstíma við HR.

Við mat á fyrra námi sem ekki er hluti af lokinni námsgráðu gildir að heimilt er að meta fyrra nám á móti allt að 50% náms í HR ef um er að ræða samfellt nám sem telst sambærilegt að mati námsráðs deildar. Ef hins vegar nám var ekki samfellt má aðeins meta allt að 45 ECTS en allt að 60 ECTS ef um er að ræða aukagrein.

Við mat á námskeiðum úr lokinni námsgráðu gildir að nemandi skal ljúka að lágmarki 90 ECTS í nýrri gráðu við HR. Heimilt er þó að meta allt að 120 ECTS úr loknum gráðum frá HR, t.d. þegar um er að ræða skilgreindar aðal- og aukagreinar, auk þess sem þá er aðeins gerð krafa um 5,0 í lágmarkseinkunn. Krefjist nýja gráðan lokaverkefnis eða lokaritgerðar, skal nemandi skila nýju lokaverkefni eða ritgerð.

Undanþágur

Nemandi getur sótt um undanþágu þegar það á við til námsráðs/námsmatsnefndar deildar.

Samþykkt í framkvæmdastjórn HR 9. apríl 2015

BA nám við lagadeild

Nemandi skal ljúka 30 einingum á önn eða 60 einingum á ári, miðað við eðlilega námsframvindu. Nemanda er heimilt að innritast á annað námsár, hafi hann lokið a.m.k. 48 einingum af námsefni fyrsta árs í lögfræði, með meðaleinkunn 6 eða hærri.

Til að hefja nám á þriðja ári námslínu þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 90 einingum, öllum námskeiðum fyrsta árs og a.m.k. 30 einingum á öðru námsári, með meðaleinkunn 6 eða hærri. 

Nemandi skal hafa lokið a.m.k. 90 einingum í síðasta lagi tveimur árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár. Námskeið sem nemandi tekur úr aukagrein teljast ekki hluti af þessum 90 einingum nema nemandinn hafi uppfyllt skilyrði um 48 einingar að loknu fyrsta námsári. Nemandi skal hafa lokið bakkalárprófi í síðasta lagi fimm árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár.

Námsráð getur í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá almennum námsframvindureglum. Hún verður aðeins veitt ef gildar læknisfræðilegar ástæður og veigamikil rök eru fyrir hendi. Umsókn skal fylgja námsáætlun nemanda sem námsráð þarf að samþykkja og getur bundið sérstökum skilyrðum, m.a. um tilhögun náms og námsframvindu. Námsráð getur farið fram á að nemandi leggi fram sérfræðivottorð læknis eða önnur gögn sem þörf er á svo leggja megi mat á umsóknina. Umsókn þarf að berast lagadeild a.m.k. 8 vikum fyrir upphaf annar.

Námsmat og einkunnagjöf

Um námsmat og einkunnagjöf í BA-námi fer samkvæmt reglum HR um próf og einkunnir. Lágmarkseinkunn í kjarnagreinum, valgreinum og BA-ritgerð er 5,0. Lágmarkseinkunn í aðferðarfræði (námskeið L-101) er 6. Í greinum þar sem lokapróf, hvort sem það er munnlegt eða skriflegt, er hluti námsmats skulu aðrir námsþættir því aðeins metnir inn í lokaeinkunn, að nemandi hafi hlotið tilgreinda lágmarkseinkunn á lokaprófi enda vegi lokaprófið a.m.k. 20% af lokaeinkunn námskeiðsins. Nái nemandi ekki tilgreindri lágmarkseinkunn á lokaprófi getur hann ekki nýtt sér einkunnir sem hann hefur fengið fyrir aðra námsþætti, þótt hann endurtaki námskeiðið síðar.

Endurinnritun

Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu, fellur réttur til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í deildina. Heimild til endurinnritunar er háð þeim skilyrðum að nemandi hafi ekki fengið áminningu vegna brota á reglum lagadeildar eða skólans og að nemandi hafi lokið að minnsta kosti 30 einingum með að lágmarki 6,0 í meðaleinkunn. Sé slík heimild veitt, heldur nemandi sem þess óskar þeim námskeiðum sem lokið hefur verið með einkunn 6 eða hærri. Heimild til endurinnritunar verður aðeins veitt einu sinni á námstímanum

Endurtekning prófa

Nemendum er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar sinnum og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi hefur verið skráður í námskeið eftir að frestur um úrsögn er liðinn. Nemanda, sem uppfyllir ekki framangreindar kröfur og óskar eftir að halda áfram námi við deildina, ber  að sækja um endurinnritun. Um forsendur og afleiðingar endurinnritunar fer skv. 11. gr. eftir því sem við á. Ákvæði þetta tekur til próftöku nemenda í námskeiði sem þeir voru fyrst skráðir í haustið 2011 eða síðar.

Námshlé

Nemandi getur sótt um til námráðs að gera hlé á námi sínu. Leyfi til námshlés má veita með skilyrðum. Hámarkslengd námshlés er 1 ár. Hámarksnámstími skv. reglum þessum framlengist sem námsleyfi nemur.

Undanþágur

Hafi námsráð komist að þeirri niðurstöðu að undanþágur frá reglum um framvindu náms og námshlé samkvæmt 11. og 13. gr. reglna þessara eigi ekki við getur deildarfundur lagadeildar, ef ríkar ástæður eru til, veitt frekari undanþágur frá þeim reglum. Slík heimild verður aðeins veitt í algjörum undantekningartilvikum.

Sérreglur verkfræðideildar um nám, námsmat og námsframvindu BSc náms

Um nám í verkfræði gilda almennar reglur Háskólans í Reykjavík sem eftirfarandi reglur byggja á og eru viðbót við, þ.e. Almennar reglur um nám og námsmat og Reglur um námsframvindu í grunnnámi, sem og reglugerð fyrir Háskólann í Reykjavík. Að öðru leyti en hér kemur fram er vísað til þeirra reglna. Vakin er athygli á því að nemendur bera sjálfir ábyrgð á að haga námi sínu í samræmi við þessar reglur.

1. Inntaka nemenda

Til að hefja nám í verkfræði þurfa umsækjendur að hafa lokið stúdentsprófi, prófi frá háskólagrunni HR eða sambærilegu prófi, og hafa haldgóða þekkingu í stærðfræði, raungreinum, íslensku og ensku. Námsefni og kennsla á fyrsta ári í verkfræði er miðuð við að nemendur hafi eftirfarandi undirbúning: 
Stærðfræði, 30 einingar, þar af 15 einingar á 3. hæfniþrepi. Miðað er við námskeið af náttúrufræði- eða náttúruvísindabraut.
Eðlisfræði, 10 einingar á 2. eða 3. hæfniþrepi. Nemandi þarf að þekkja hreyfi- og aflfræði og rafmagnsfræði (rásir, rafsvið og segulfræði). Æskilegt er að hann þekki einnig varmafræði, vökva og þrýsting, bylgjur og ljós.
Efnafræði, 5 einingar á 2. hæfniþrepi.

2. Mat á fyrra námi

2.1. Nemandi sem óskar eftir því að fá fyrra háskólanám sitt metið sækir um það til verkefnastjóra á skrifstofu verkfræðideildar á þar til gerðu eyðublaði.
2.2. Námskeið sem tekið hefur verið í öðrum háskóla er metið til eininga við Háskólann í Reykjavík og skráð á námsferil sem metið (M) ef um er að ræða sambærilegt námskeið frá viðurkenndum háskóla, enda hafi nemandi staðist námskeiðið með einkunn 6 eða hærri m.v. einkunnaskala HR.
2.3. Mat námskeiða frá öðrum háskólum skal vera í höndum námsmatsnefndar verkfræðideildar.

3. Lágmarkseinkunn og fjöldi eininga á önn

3.1. Verkfræðideild leyfir nemendum að skrá sig í að hámarki 38 ECTS einingar á önn, en þó ekki fleiri en eitt námskeið á þriggja vikna lotu annarinnar. Ef nemandi vill taka fleiri en 38 einingar á önn þarf hann að sækja um það til verkefnastjóra verkfræðideildar.

4. Námsmat og endurtekning prófa

4.1. Nemanda er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar. Þegar nemandi situr námskeið í annað sinn þá ber honum að taka þátt í öllum verkefnum og prófum eins og hann væri að taka það í fyrsta sinn. Í einstökum tilfellum er kennara heimilt að meta einstaka þætti námskeiðsins sem nemandi lauk við í fyrra skiptið, svo sem tiltekna verklega þjálfun. Ef nemandi hefur ekki staðist námskeið eftir að hafa setið það tvisvar og vill halda áfram námi ber honum að sækja um endurinnritun til deildarinnar. Sé honum veitt heimild til þess heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Ný innritun tekur mið af gildandi námskrá hverju sinni.

5. Námsáætlun og valnámskeið

5.1. Nám í verkfræði BSc er 180 ECTS einingar og miðast skipulag þess við að námsframvinda sé 30 ECTS einingar á önn. Á vef verkfræðideildar er birt kennsluskrá og yfirlit yfir skipulag námsins. Á vef verkfræðideildar eru einnig birtar samþykktar námsáætlanir fyrir hverja námsbraut. 
5.2 Nemandi á námsbrautinni Verkfræði með eigin vali fylgir einstaklingsmiðaðri námsáætlun sem þarf að vera samþykkt af námsmatsnefnd.

6. Námsframvinda

6.1. Til að mega flytjast á annað námsár þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 42 ECTS einingum af námsefni fyrsta námsárs. Ef nemandi sem uppfyllir ekki þetta skilyrði hyggst halda áfram námi ber honum að sækja um endurinnritun til deildarinnar og tekur ný innritun mið af gildandi námskrá hverju sinni. Sé honum veitt heimild til þess heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri.
6.2. Nemandi skal hafa lokið öllum skyldunámskeiðum fyrsta námsárs eigi síðar en 2 árum eftir að hann innritaðist. Hafi hann ekki gert það getur hann sótt um endurinnritun ef hann vill halda áfram námi. Sé honum veitt heimild til þess heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Ný innritun tekur mið af gildandi námskrá hverju sinni.
6.3. Nemandi skal ljúka BSc námi sínu innan 5 ára. Ef námi er ekki lokið 5 árum eftir að nemandi innritaðist ber honum að sækja um endurinnritun ef hann vill halda áfram námi og tekur ný innritun mið af gildandi námskrá hverju sinni. Við endurinnritun heldur nemandi einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri.
6.4. Nemandi getur sótt um að gera hlé á námi sínu eða að stunda nám samkvæmt sérstakri áætlun sem víkur frá ofangreindu. Umsóknin, ásamt áætlun um námsframvindu til námsloka, skal send til verkefnastjóra, studd viðeigandi gögnum. Gildar ástæður fyrir námshléi eða hægferð í námi eru t.d. barneignir eða veikindi. Námsmatsnefnd metur umsóknir um námshlé, hægferð eða önnur frávik.

7. Forsetalisti

7.1. Þeir nemendur í grunnnámi sem bestum árangri ná á hverri önn eiga möguleika á að komast á forsetalista verkfræðideildar og fá skólagjöld næstu annar niðurfelld. Til þess að vera gjaldgengir á forsetalista þurfa nemendur að ljúka a.m.k. 30 einingum á viðkomandi önn og þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum viðkomandi annar samkvæmt samþykktri námsáætlun. Samþykkt námsáætlun getur annars vegar verið birt námsáætlun (sjá grein 5.1) og hins vegar eigin námsáætlun nemanda sem námsmatsnefnd hefur samþykkt (sjá greinar 5.2 og 6.4).
7.2. Við mat á árangri eru öll námskeið tekin með sem nemandi tók á önninni og að próf hvers námskeiðs hafi aðeins verið þreytt einu sinni. 
7.3 Nemandi sem hefur gerst brotlegur samkvæmt Almennum reglum um nám og námsmat á að jafnaði ekki rétt á að fara á forsetalista.

8. Annað

8.1. Nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli geta óskað eftir að skila verkefnum, svara prófi o.þ.h. á ensku í einstökum námskeiðum hjá viðkomandi kennara.
8.2. Nemandi sem lýkur einingum umfram lágmarkskröfu um einingafjölda fyrir prófgráðu skal velja valnámskeið sem birtast á aukaferli með útskriftargögnum. Miðað er við að heildareiningafjöldi í útskriftargögnum sé ekki meiri en 186 ECTS einingar (til viðbótar almennum reglum HR um skráningu aukaeininga (kafli 1.9)).
8.2. Undanþágur frá reglum þessum eru aðeins veittar með samþykki námsmatsnefndar deildarinnar. Umsóknir um undanþágur skulu sendar til verkefnastjóra á skrifstofu VFD, studdar viðeigandi gögnum.

Gildistaka:

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Reglur þessar gilda fyrir nemendur sem innrituðust í Háskólann í Reykjavík 1. júlí 2005 eða síðar.
Þannig samþykkt á fundi deildarráðs þann 25.október 2005.
Þannig samþykkt, með áorðnum breytingum, á deildarráðsfundi tækni- og verkfræðideildar HR 17. desember 2008.
Þannig samþykkt, með áorðnum breytingum, á deildarráðsfundi tækni- og verkfræðideildar HR 6. nóvember 2012.  
Þannig samþykkt, með áorðnum breytingum, á deildarfundi verkfræðideildar HR, 16. júní 2021.

Náms- og framvindureglur sálfræðideildar

Nemendur fylgja þeim reglum sem eru við lýði það ár sem þeir innritast. Ef nemandi er endurinnritaður þá gilda um hann þær reglur sem eru í gildi við endurinnritun.

Prófgráður og forkröfur

Sálfræðinám við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík veitir prófgráðuna BSc í sálfræði. Gráðan er veitt að loknu 180 ECTS námi við deildina með fullnægjandi árangri. Nemendur eru valdir í námið eftir frammistöðu í námi á framhalds- og háskólastigi. Þá verður tekið tillit til annarra þátta svo sem umsagna sem og greinargerðar frá nemanda sjálfum. Gert er ráð fyrir því að nemendur sem fá inngöngu í BSc-námið í sálfræði við Háskólann í Reykjavík hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Þá er gert ráð fyrir því að nemendur hafi gott vald á íslensku og ensku.

Uppbygging náms
Skipulag náms frá og með 2024

Til að ljúka BSc í sálfræði þarf að ljúka 180 ECTS einingum:

  • Skyldunámskeið 138 ECTS + BSc rannsóknarverkefni 18 ECTS
  • Valnámskeið 24 ECTS

Nemendur taka fimm námskeið, 30 ECTS einingar, á hverri önn. Undantekning er sjötta önnin, þar sem rannsóknarverkefni (lokaverkefni) er metið sem tvö námskeið (12 ECTS). Lokaverkefni er 18 ECTS og skiptist á tvær annir, 6 ECTS á haustönn og 12 ECTS á vorönn þriðja námsárs.

Skipulag náms - Nemendur sem hófu nám fyrir 2024

Til að ljúka BSc í sálfræði þarf að ljúka 180 ECTS einingum:

  • Skyldunámskeið 132 ECTS + BSc rannsóknarverkefni 18 ECTS
  • Valnámskeið 30 ECTS

Nemendur taka fimm námskeið, 30 ECTS einingar, á hverri önn. Undantekning er sjötta önnin, þar sem rannsóknarverkefni (lokaverkefni) er metið sem tvö námskeið (12 ECTS). Lokaverkefni er 18 ECTS og skiptist á tvær annir, 6 ECTS á haustönn og 12 ECTS á vorönn þriðja námsárs.

Kennsluhættir og vinnubrögð

Námstíminn er þrjú ár og fer námið fram í Háskólanum í Reykjavík. Námskeið byggjast á almennum fyrirlestrum, umræðutímum og verkefnum eftir ákvörðun umsjónarkennara hverju sinni. Þá hafa nemendur kost á að fara í vettvangsnám, t.d. á heilbrigðisstofnanir, í skóla og í fyrirtæki. Í undantekningartilvikum getur forstöðumaður BSc-náms í sálfræði ákveðið að tiltekið námskeið skuli ekki kennt eða fyrirkomulagi kennslu breytt. Þannig eru námskeiðslýsingar og stundaskrár birtar með fyrirvara um síðari breytingar. Námskeið eru í umsjón fastra kennara deildarinnar eftir ákvörðun forstöðumanns námsins. Forstöðumanni er þó heimilt að fela stundakennara umsjón námskeiðs vegna tímabundinna anna fastra kennara.

Námsframvinda

Einkunnir eru gefnar í tölum á kvarðanum 0 - 10. Lágmarkseinkunn í hverju námskeiði er 5. Að öllu jöfnu er nemanda heimilt að fara yfir á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 42 ECTS í sálfræði á fyrsta námsári. Til að hefja nám á þriðja námsári þarf nemandi að hafa lokið öllum námsgreinum á fyrsta námsári og a.m.k. 30 ECTS á öðru námsári. Nemandi skal hafa lokið BSc-prófi í síðasta lagi fimm árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár nema námsmatsnefnd hafi veitt honum leyfi frá námi. Lengist þá framangreindur tímafrestur sem leyfinu nemur.

Reglur um próftöku

Nemendum er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi er skráður í námskeið eftir að frestur um úrsögn er liðinn. Nemendur sem þurfa að sitja námskeið í annað sinn þurfa að skila öllum verkefnum námskeiðsins að nýju sem þýðir að nemendur geta ekki fengið verkefni metin á milli anna. Standist nemandi ekki námskeið eftir setu í annað sinn, telst hann fallinn úr námi. Ber honum þá að sækja um endurinnritun í námið vilji hann stunda námið áfram (sjá grein fyrir neðan). 

Um vinnubrögð, nám og próftöku nemenda í BSc-námi í sálfræði gilda eftirfarandi reglur og viðurlög skólans: 

Endurinnritun

Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu samkvæmt reglum deildarinnar, fellur réttur hans til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í námið. Umsókn um endurinnritun skal vera skrifleg og skal send til verkefnastjóra námsins. Sé nemanda veitt slík heimild heldur hann, sé þess óskað, einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Sama gildir um nemendur sem hafa hætt námi og kjósa að hefja nám að nýju. Sálfræðideild áskilur sér þann rétt að synja nemendum um endurinnritun.

Hlutanám í BSc í sálfræði

Búi nemandi við sérstakar aðstæður sem koma í veg fyrir að hann geti stundað fullt nám, er í undantekningartilvikum gefinn kostur á hlutanámi í BSc námi í sálfræði við HR. Sækja skal sérstaklega um slíkt námsfyrirkomulag til verkefnastjóra námsins. Beiðninni skulu fylgja fullnægjandi gögn sem sýna að gildar ástæður séu fyrir henni. Með beiðni um hlutanám ber jafnframt að skila námsáætlun svo unnt sé að meta hvernig námi umsækjanda verður háttað og hvort áætlunin sé raunhæf. Meðal þeirra ástæðna sem réttlætt geta slíkt hlutanám, eru t.d. erfiðar aðstæður vegna fjárhags eða veikinda. Leyfi til hlutanáms má veita með skilyrðum. Nemandi í hlutanámi skal hafa lokið BSc-prófi í síðasta lagi átta árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár nema námsmatsnefnd hafi veitt honum leyfi frá námi. Lengist þá framangreindur tímafrestur sem leyfinu nemur. Um námsframvindu milli námsára gilda sömu reglur fyrir nemendur í hlutanámi og nemendur í fullu námi.

Undanfarar námskeiða

Nemandi skal kynna sér kröfur um undanfara áður en hann skráir sig í námskeið. Upplýsingar um undanfara námskeiða koma fram í kennsluskrá sem má finna á heimasíðu skólans.

Hámarksfjöldi eininga sem nemandi getur tekið

Nemandi í BSc-námi í sálfræði getur skráð sig í 30 ECTS á önn að hámarki. Sálfræðideild getur heimilað nemanda að skrá sig í eitt námskeið á önn umfram fullt nám (30 ECTS). Óski nemandi eftir slíkri heimild skal rökstudd beiðni send til verkefnastjóra BSc-náms í sálfræði.

Námshlé

Nemandi getur sótt um að gera hlé á námi sínu. Beiðninni skulu fylgja fullnægjandi gögn sem sýna að gildar ástæður séu fyrir henni. Meðal þeirra ástæðna sem réttlætt geta námshlé eru t.d. barnsburður eða veikindi. Með umsókn þarf t.d. að berast læknisvottorð ef sótt er um námshlé vegna veikinda. Sækja þarf um námshlé fyrir upphafsdag viðkomandi annar og skal umsókn send til verkefnastjóra námsins. Námshlé er veitt fyrir eina önn í senn en hámarkstími námshlés er eitt ár.

Mat á fyrra námi

Mat á fyrra námi er ekki framkvæmt fyrr en formleg umsókn um nám í HR hefur verið samþykkt og skólagjöldin hafa verið greidd. Þó er hægt að óska eftir lauslegu mati á fyrra námi sem er hvorki nákvæmt né bindandi. Umsókn skal send til verkefnastjóra námsbrautar. Sjá frekari leiðbeiningar hér: Upplýsingar fyrir nemendur | (ru.is)

Náms- og framvindureglur viðskiptadeildar

Framvinda í BS námi

Nemandi flyst upp á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 48 ECTS á fyrsta ári. Nemandi skal hafa lokið a.m.k. 90 ECTS áður en hann tekur námskeið af þriðja námsári og hafa lokið öllum skyldunámskeiðum 1.árs. Ef nemandi sem uppfyllir ekki skilyrði um námsframvindu hyggst halda áfram námi ber honum að sækja endurinnritun. Sjá nánar í kafla um endurinnritun. Hámarks námstími er 2 ár ofan á eðlilega framvindu í námi samkvæmt skipulagi námsbrautar.

Nemandi í viðskiptafræði með lögfræði sem aukagrein skal hafa lokið öllum námskeiðum 1. og 2. árs, þ.e. 120 ECTS til þess að gefa hafið nám á 3.ári.

Nemandi í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein flyst upp á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 48 ECTS á fyrsta ári. Nemandi skal hafa lokið a.m.k. 90 ECTS áður en hann tekur námskeið af þriðja námsári og hafa lokið öllum skyldunámskeiðum 1.árs.

Framvinda í diplómanámi

Nemandi flyst upp á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 48 ECTS á fyrsta ári. Ef nemandi sem uppfyllir ekki skilyrði um námsframvindu hyggst halda áfram námi ber honum að sækja um endurinnritun. Sjá nánar í kafla um endurinnritun. Hámarks námstími er 2 ár ofan á eðlilega framvindu í námi samkvæmt skipulagi námsbrautar.

Reglur um próftöku

Nemendum er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi er skráður í námskeið eftir að frestur um úrsögn er liðinn. Nemendur sem þurfa að sitja námskeið í annað sinn þurfa að skila öllum verkefnum námskeiðsins að nýju sem þýðir að nemendur geta ekki fengið verkefni metin á milli anna.

Standist nemandi ekki námskeið eftir setu í annað sinn, telst hann fallinn úr námi. Ber honum þá að sækja um endurinnritun í námið vilji hann stunda námið áfram, sjá nánar í kafla um endurinnritun. Nánari reglur um próf og próftöku má sjá í náms- og prófareglum HR.

Endurinnritun

Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu samkvæmt reglum deildarinnar, fellur réttur hans til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í námið. Umsókn um endurinnritun skal vera skrifleg og skal send til verkefnastjóra námsins. Viðskiptadeild áskilur sér þann rétt að hafna nemendum um endurinnritun. Sé nemanda veitt heimild til endurinnritunar heldur hann einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Reglur um endurinnritun gilda einnig um nemendur sem hafa hætt námi og kjósa að hefja nám að nýju. Nemendur innritast á það námsskipulag sem er í gildi á hverjum tíma.

Undanfarar námskeiða

Nemendi skal kynna sér kröfur um undanfara áður en hann skrár sig í námskeið. Upplýsingar um undanfara námskeiða koma fram í kennsluskrá sem má finna á heimasíðu skólans.

Hámarksfjöldi eininga sem nemandi getur tekið

Nemandi í BSc-námi í viðskiptafræði getur skráð sig í 30 ECTS á önn að hámarki. Viðskiptadeild getur heimilað nemanda að skrá sig í eitt námskeið á önn umfram fullt nám (30 ECTS). Sú heimild er aðeins veitt nemendum sem hafa meðaleinkunn 7,5 eða hærri. Beiðni skal send til verkefnastjóra BSc-náms í viðskiptafræði. Aðeins er leyfilegt að skrá sig í eitt námskeið í hverri þriggja vikna lotu.

Sjálfstætt verkefni

Nemendur geta óskað eftir því að taka sjálfstætt verkefni (independent study) hjá einstökum kennurum. Getur það bæði átt við um aðlögun á almennu námskeiði sem kennari hefur umsjón með eða vinnu nemanda við sértækt rannsóknarverkefni undir handleiðslu fastráðins kennara við deildina. Í slíkum tilvikum er það alfarið undir viðkomandi kennara komið að samþykkja eða hafna slíkri beiðni. Kennurum ber að upplýsa forstöðumann námsbrautar og verkefnisstjóra um nemendur sem þeir hyggjast leiðbeina í sjálfstæðu verkefni.

Námshlé

Nemandi getur sótt um að gera hlé á námi sínu. Beiðninni skulu fylgja fullnægjandi gögn sem sýna að gildar ástæður séu fyrir henni. Meðal þeirra ástæðna sem réttlætt geta námshlé eru t.d. barnsburður eða veikindi. Með umsókn þarf t.d. að berast læknisvottorð ef sótt er um námshlé vegna veikinda. Sækja þarf um námshlé fyrir upphafsdag viðkomandi annar og skal umsókn send til verkefnastjóra námsins. Námshlé er veitt fyrir eina önn í senn en hámarkstími námshlés er eitt ár.

Almennt ákvæði um fyrningu námskeiða

Námskeið sem nemandi hefur staðist án þess að útskrifast fyrnast á 9 árum.

Sérreglur tæknifræðideildar um nám og námsmat í tæknifræði og byggingafræði 

Eftirfarandi sérreglur tæknifræðideildar (TFD) eru viðbót við almennar reglur Háskólans í Reykjavík um nám og námsmat, og reglur um námsframvindu í grunnnámi. Öll atriði sem ekki eru sérstaklega tilgreind hér falla undir þær reglur. Eftirfarandi er útdráttur úr reglum sem samþykktar voru á deildarfundi tæknifræðideildar í mars 2025. 

Nemendur bera sjálfir ábyrgð á að skipuleggja nám sitt í samræmi við gildandi reglur. 

Námsframvinda 

Nám í tæknifræði og byggingafræði er 210 ECTS. Eðlileg námsframvinda er því 30 ECTS á önn eða 60 ECTS á ári.  

Umsókn um undanþágu frá reglum um námsframvindu skal tekin fyrir af námsmatsnefnd TFD og skal fyrirhuguð námsáætlun nemandans fylgja umsókninni og önnur viðeigandi gögn, eins og t.d. vottorð læknis. Umsókn þarf að berast tæknifræðideild fyrir upphaf annar. 

Námsmatsnefnd TFD getur í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá reglum um námsframvindu. Undanþága er aðeins veitt ef gildar læknisfræðilegar ástæður, veigamikil rök eða rétthærri reglur skólans eru fyrir hendi (sjá td. reglur HR um afreksfólk í íþróttum). 

Hafi námsmatsnefnd tæknifræðideildar komist að þeirri niðurstöðu að undanþágur frá reglum þessum eigi ekki við getur deildarráð tæknifræðideildar veitt frekari undanþágur. Slík heimild verður aðeins veitt í algjörum undantekningartilvikum 

Hámarksfjöldi eininga sem nemandi getur tekið 

Nemendur geta skráð sig í 32 ECTS á önn að hámarki. Verkefnastjóri náms getur heimilað nemenda að skrá sig í eitt námskeið á önn umfram fullt nám. Námsmatsnefnd deildarinnar getur heimilað skráningu upp að 38 ECTS og óski nemandi eftir slíkri heimild skal rökstudd beiðni send til verkefnastjóra.  

Á þeirri önn sem nemendur stunda starfsnám eða skrifa lokaverkefni er ekki heimilt að taka fleiri en 30 ECTS. 

Framvinda milli ára 

Til að hefja nám á 2. ári í tæknifræði skulu nemendur hafa lokið að lágmarki 42 ECTS einingum af námsefni 1. árs. Til að hefja nám á 3. ári skulu nemendur hafa lokið öllum námskeiðum 1. árs og a.m.k. 30 ECTS einingum af 2. ári. Til að hefja nám á 4. ári eða lokaönn skulu nemendur hafa lokið 174 ECTS einingum. 

Í byggingafræði þurfa nemendur að hafa lokið öllum námskeiðum fyrri hluta námsins (önn 1. -3. önn) eða byggingariðnfræði áður en farið er á seinni hluta námsins (4. – 7. önn). 

Nemendur bera ábyrgð á því að kanna hvort skilyrði fyrir undanfara námskeiða sé uppfyllt. 

Námsmat 

Til að ljúka námskeiði þarf samanlögð einkunn allra matsþátta námskeiðsins að ná 5,0. Þegar námsmatið byggir eingöngu á mætingu, ástundun og metnu vinnuframlagi er heimilt að ljúka námskeiði með einkunn STAÐIÐ / FALLIÐ. Sérreglur gilda um lokaverkefni en þar er lágmarkseinkunn 6,0. Sjá nánar í reglum um lokaverkefni í Canvas. 

Áður er námskeið er kennt þarf að liggja fyrir hvernig námsmati er háttað og það tilkynnt nemendum við upphaf kennslu. Jafnframt þarf námsmatið að vera aðgengilegt í kennslukerfi HR (Canvas) fyrir námskeiðið. 

Athugið að lágmarkseinkunn fyrir lokaverkefni er 6,0. 

Til að ljúka námsleið  

Nemendur þurfa að ljúka að lágmarki 210 ECTS einingum skv. námsáætlun, þ.m.t. lokaverkefni, með meðaleinkunn 5,0 eða hærra.  

Athugið að lágmarkseinkunn fyrir lokaverkefni er 6,0. 

Hámarks námstími 

Hámarksnámstími fyrir BSc-nám er 5 ½ ár og innifelur sá tími námshlé sem sótt er um sérstaklega ef þörf er á. 

Námshlé 

Nemandi getur sótt um til námsmatsnefndar TFD að gera hlé á námi sínu. Leyfi til námshlés má veita með skilyrðum. Sótt er um námshlé í eina önn í senn og að hámarki í 2 annir á námstímanum. Hámarkslengd námshlés er því 1 ár. Námshlé hafa ekki áhrif á skilyrði um hámarkslengd náms. 

Endurtekning prófa 

Nemendum er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar sinnum og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi hefur verið skráður í námskeið eftir að frestur um úrsögn er liðinn. Nemanda, uppfyllir ekki framangreindar kröfur og óskar eftir að halda áfram námi við deildina, ber að sækja um endurinnritun vegna tvífalls.  

Endurinnritun 

Uppfylli nemandi ekki lágmarksskilyrði um námsframvindu, bæði varðandi lágmarksfjölda eininga sem þarf að ljúka milli ára sem og reglur HR um tvífall, er hann skráður úr námi við deildina. Nemandi getur sótt um endurinnritun og er heimild til endurinnritunar háð eftirfarandi skilyrðum: 

  • Nemandi hafi ekki fengið áminningu vegna brota á reglum tæknifræðideildar eða skólans. 
  • Nemandi hafi lokið 30 einingum eða meira með að lágmarki 6,0 í meðaleinkunn. 

Sé slík heimild veitt, heldur nemandinn þeim námskeiðum sem lokið hefur verið með einkunn 6,0 eða hærri. Heimild til endurinnritunar er aðeins veitt einu sinni á námstímanum. 

Fara efst