Siðareglur Háskólans í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík er þekkingarsamfélag þar sem nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn starfa saman að öflun, nýsköpun og miðlun þekkingar. Í slíku samfélagi er mikilvægt að allir taki siðferðislega ábyrgð á störfum sínum. Til þess að þetta megi takast vill skólinn skapa starfsumhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af virðingu, heilindum, sanngirni og jafnrétti.
Markmiðið með þessum siðareglum er að stuðla að því að hegðun þeirra sem starfa innan skólans uppfylli ýtrustu siðferðiskröfur sem gerðar verða innan háskóla. Reglurnar eru settar fram í 10 töluliðum. Þær eiga það sammerkt að minna á skyldur aðila skólans í samskiptum sín á milli og vinnubrögðum. Þær má hins vegar ekki skoða sem tæmandi lýsingu á æskilegri hegðun.
Siðareglur HR:
- Við virðum þá sem læra og starfa innan skólans sem einstaklinga, komum fram við þá af tillitsemi og gætum trúnaðar gagnvart þeim.
- Við komum í veg fyrir að í HR viðgangist hvers konar óréttlæti, svo sem einelti, kynferðisleg áreitni eða mismunun byggð á óviðkomandi þáttum svo sem kynferði, aldri, trú, þjóðerni, kynþætti, fötlun eða kynhneigð.
- Við stöndum vörð um heiður skólans og aðhöfumst ekki neitt það sem kynni að vera til þess fallið að rýra álit samfélagsins á skólanum.
- Við vinnum öll okkar verk innan HR af heiðarleika og heilum hug og stuðlum að því með virkum hætti að aðrir geri slíkt hið sama.
- Við leitum þekkingar af heilindum og hlutlægni, og leggjum áherslu á fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og málefnalegan rökstuðning.
- Við gætum persónuverndar og stöndum vörð um hagsmuni þeirra sem taka þátt í rannsóknum okkar.
- Við virðum fræðilegt sjálfstæði, vinnum ávallt samkvæmt eigin sannfæringu og látum hagsmunatengsl ekki hafa áhrif á niðurstöður okkar.
- Við virðum hugverkaréttindi, eignum okkur ekki heiðurinn af hugmyndum annarra, og getum ávallt þeirra heimilda sem við notum, í samræmi við venjur vísindasamfélagsins.
- Við gætum þess að vera málefnaleg og sanngjörn í umsögnum, endurgjöf og ummælum um aðra innan skólans.
- Við erum virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og lítum á það sem skyldu okkar að miðla upplýsingum sem geta orðið til þess að bæta starf skólans.