Áhrif á heimsvísu
Svona gerum við heiminn betri

Að vita meira í dag en í gær - að skapa nýja þekkingu - er helsta hlutverk háskóla út um allan heim. Vísindafólk innan HR, ásamt nemendum og samstarfsaðilum, skapa nýja þekkingu á hverjum degi.
Á mörgum sviðum hafa rannsóknir HR haft áhrif á viðtekna þekkingu og stefnumótun á heimsvísu. Hér eru aðeins örfá dæmi.
Sjálfbærni
Rannsóknasetur um sjálfbæra þróun
Rannsóknasetur um sjálfbæra þróun heldur utan um rannsóknir og þróun á verkefnum hvað varðar sjálfbærni. Markmið þess er að halda utan um rannsóknir og kennslu um sjálfbæra þróun með áherslu á markmiðin 17 UN Sustainable Development Goals (SDGs).
Rannsóknir á endurnýtanlegri orku
Íslenski Orkuháskólinn, Iceland School of energy (ISE), á heima í HR. Háskólinn í Reykjavík hefur um árabil lagt áherslu á rannsóknir og menntun á sviði sjálfbærrar orkuþróunar innan Íslenska orkuháskólans við verkfræðideild.
Þar öðlast nemendur sérþekkingu í nýtingu jarðhita, vatnsafls og vindorku, sem eru kraftarnir sem knýja íslenskt samfélag og eru uppspretta rannsókna sem tryggja sjálfbæra orkugjafa framtíðar. Markmið Orkuháskólans er að skila einstaklingum með sérhæfingu á þessu sviði til alþjóðasamfélagsins þar sem færni í rannsóknum, hönnun og stjórnun kerfa fyrir sjálfbæra orkugjafa mun verða einn eftirsóknasti kostur í starfsafli framtíðar.
Dr. Juliet Newson, forstöðumaður Orkuháskólans, tók með sér yfirgripsmikla þekkingu frá fyrri störfum og verkefnum er tengjast jarðhitageiranum og hefur tekið þátt í kortlagningu jarðhitaflatar, jarðfræðilegri líkanagerð og auðlindamati, svo eitthvað sé nefnt. Þessari reynslu miðlar hún til nemenda í Orkuháskólanum sem öðlast með náminu sérhæfingu á sviðinu. Dr. Newson hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir aðkomu sína að umræðunni um umskiptin í sjálfbæra orku og hvernig háskólasamfélagið getur komið að þessari vinnu á skilvirkan hátt.
Nýjar aðferðir í endurvinnslu plasts
Háskólinn í Reykjavík og endurvinnslufyrirtækið Pure North Recycling í Hveragerði eru í samstarfi um endurvinnslu plasts og annarra endurvinnanlegra efna á Íslandi. Markmiðið er að efla íslenska hringrásarhagkerfið með plast og önnur endurvinnanleg efni í forgrunni, þróa nýjar leiðir til endurvinnslu og endurnýtingar plasts, auka sjálfvirkni í vinnslu og söfnun hráefna til endurvinnslu og efla fræðslu. Samstarfið er hluti af landsátakinu Þjóðþrifum og samstarfsverkefni verða unnin innan rannsóknaseturs HR um sjálfbæra þróun.
Sérfræðingar HR og nemendur háskólans munu á næstu árum meðal annars vinna rannsóknaverkefni um vistferilsgreiningu á plasti og greina inn- og útflæði plasts á Íslandi. Þá verða gerðar rannsóknir á eiginleikum endurunnins plasts og möguleikum til vöruþróunar og framtíðarnotkunar. Einnig er stefnt að því að fræða almenning og ungt fólk um þau verðmæti sem felast í endurunnu plasti og gera aðferðir við endurvinnslu og endurnýtingu plasts aðgengilegri fyrir einstaklinga, menntastofnanir og atvinnulífið.
Orkuskipti í samgöngum
Dr. Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir er meðal fremstu vísindamanna sem hafa beint sjónum að sjálfbærum orkugjöfum. Umhverfisráðherra skipaði hana formann nefndar sem ætlað er að undirbúa fyrstu skrefin að sjálfbærum orkugjöfum allt til ársins 2050.
Rannsóknir á sjálfbærni og nýsköpun
HR vinnur samkvæmt viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um menntun ábyrgra leiðtoga, með áherslu á samfélagslega ábyrgð (PRME). Innan viðskiptadeildar eru stundaðar rannsóknir á sjálfbærni og nýsköpunarumhverfi, til dæmis í þróunarlöndum.
Alþjóðlegt samstarf
Háskólinn í Reykjavík er í samstarfi við Orkuklasann, GRP ehf. og Cornell háskóla í New York á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála. Markmið samstarfsins er að það muni leiða af sér aukin tækifæri í nýsköpun, þekkingaryfirfærslu, sjálfbærni, grænum orkulausnum og verðmætaaukningu fyrir íslenskt samfélag.
Meðal þess sem sem unnið verður í samstarfinu er úttekt á orkukerfi, landbúnaðarkerfi og sjávarútvegskerfi Íslands, greining á tækifærum nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi, uppsetning á námskeiðum um græna orku og sjálfbærni tengt sérstöðu Íslands og ýmis önnur ærin verkefni. Samstarfsverkefnið er vistað hjá Orkuklasanum en sérstök verkefnisstjórn hefur umsjón með verkefninu undir forystu Háskólans í Reykjavík
Forvarnir og aukin lífsgæði
Rannsókn og greining
Jákvæð áhrif ljósameðferðar á þunglyndi krabbameinssjúklinga, vitundarvakning um áhrif heilahristings og heildstæð úttekt á geðheilsu og áhrifum áfalla er meðal þess sem fjölmargir vísindamenn HR eru að rannsaka. Markmiðið er að að bæta líf fólks.
Drögum úr áhættu á kulnun
Skoðum samspil geðheilsu, félagslegt stuðnings, streitu og áfalla
Vísindamenn við sálfræðideild HR, með Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, sviðsforseta samfélagssviðs HR, við stjórnvölinn, hafa nú hrundið af stað viðamikilli langtímarannsókn á geðheilsu karla og kvenna á Íslandi. Sjónum verður sérstaklega beint að samspili geðheilsu, lífsánægju, félagslegs stuðnings, streitu og áfalla.
Sérþjálfað rannsóknarfólk hringir í slembiúrtak úr þjóðskrá og tekur viðtöl þar sem ítarlega er spurt um hagi þess út frá mörgum breytum. Markmið rannsóknarinnar er að fá heildstæða mynd af geðheilsu Íslendinga og skoða hvernig félagslegur stuðningur getur gagnast sem best við streituvaldandi aðstæður og áföll. Forseti Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson, er verndari rannsóknarinnar.
Auðveldum fórnarlömbum kynferðisofbeldis komu í dómsal
Sálfræðideild HR hefur nú hafið rannsókn á notkun dómsals í sýndarveruleika fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort sýndarveruleiki gagnist við að upplýsa þolendur kynferðisofbeldis um réttarsal og vanlíðan tengda honum.
Þátttakendum verður boðið að prófa sýndarveruleikaumhverfið og viðbrögð verða metin með spurningalistum, viðtali og líffræðilegum mælingum. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Rannveig S. Sigurvinsdóttir, lektor við sálfræðideild HR.
Minnkum þunglyndi og þreytu hjá krabbameinssjúklingum
Dr. Heiðdís B. Valdimarsdóttir, prófessor við sálfræðideild HR, hefur rannsakað áhrif ljósameðferðar á krabbameinssjúklinga. Komið hefur í ljós að slík meðferð minnkar þunglyndi og þreytu hjá þessum hóp þar sem þessi einkenni eru viðvarandi.
Þekkt er að ljósameðferð getur haft jákvæð áhrif á þau sem þjást af skammdegisþunglyndi þar sem lífsklukkan dettur úr takti og slíkt veldur þunglyndi. Rannsókn Heiðdísar sýndi fram á að sömu áhrif var hægt að framkalla hjá krabbameinssjúklingum. Heiðdís hefur stundað rannsóknir í heilsusálfræði í meira en 30 ár og hefur meðal annars kannað áhrif krabbameins og lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra.
Greinum áhrif höfuðhögga og heilahristings
Vísindamenn við sálfræðideild og íþróttafræðideild, með dr. Hafrúnu Kristjánsdóttur, deildarforseta íþróttafræðideildar, og Maríu Kristínu Jónsdóttur, prófessor við sálfræðideild, í fararbroddi, rannsaka nú afleiðingar höfuðhöggs sem leiðir til heilahristings. Þetta viðfangsefni hefur verið afar lítið rannsakað fyrr en nýlega og bendir ýmislegt til þess að kvillar sem fólk berst við, konur í þessari tilteknu rannsókn, síðar á ævinni, sé hægt að rekja til heilahristings. Sem dæmi um afleiðingarnar má nefna þunglyndi, skjaldkirtilsójafnvægi og annað hormónaójafnvægi.
Fyrstu niðurstöður sýna að langtímaafleiðingar heilahristings séu alvarlegar og þekkingu á afleiðingum höfuðhöggs mjög ábótavant innan íþróttahreyfingarinnar og jafnvel einnig heilbrigðisgeirans.
Drögum úr neyslu vímuefna meðal ungmenna
Rannsóknir og greining er rannsóknarmiðstöð sem einblínt hefur á rannsóknir sem bæta líðan ungs fólks. Ein áhrifamesta rannsókn sem vert er að minnast á í því samhengi er rannsóknin Ungt fólk þar sem líðan, hegðun og neyslumynstur ungs fólk er kannað á ári hverju.
Út frá þessum rannsóknum hefur hið svokallaða Íslenska módel litið dagsins ljós en það miðar að því að allt samfélagið taki þátt í því að búa til aðstæður fyrir börn sem halda þeim frá vímugjöfum og annarri óæskilegri hegðun. Íslenska módelið hefur vakið gríðarmikla eftirtekt víða um heim, enda sýnir tölfræðin að það virkar; unglingadrykkja sem var landlægt vandamál um land allt þegar rannsóknin fór af stað árið 1999 er nú í algeru lágmarki auk þess sem mikilvægi samveru með foreldrum og þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi hefur verið sannað.
Íslenska módelið er meðal annars notað í sveitarfélögum í Hollandi, Írlandi, Spáni, Chile, Litháen, Ástralíu og Vermont-fylki í Bandaríkjunum.
Máltækni
Framtíð íslenskunnar í hinum stafræna frumskógi er að hluta í höndum vísindamanna og nemenda HR.
Nokkur ár eru síðan að markvisst var farið að kenna hinum stafræna heimi íslensku enda ljóst að með tilkomu snjalltækja sem stjórnað er nánast alfarið með töluðu og rituðu máli að hið litla málsvæði Ísland var í töluverðri hættu á að þurfa að víkja fyrir ríkjandi málum. En tekin var upplýst ákvörðun um að gera íslensku að fullgildu tungumáli á internetinu og er sú vegferð vel á veg komin.
Þetta yfirgripsmikla og flókna verkefni, að koma íslenskunni á stafrænt form, hófst með markvissum hætti árið 2017 þegar stjórnvöld sömdu um fimm ára máltækniáætlun sem miðaði að því að tölvur skildu og gætu unnið með íslensku. Verkefnið rataði að hluta í vísindamanna og nemenda HR í samstarfi við HÍ er til dæmis starfrækt meistaranám í máltækni við verkfræðideild HR. Mál- og raddtæknistofa HR, sem er undir Gervigreindarsetri HR, heldur utan um verkefnið fyrir hönd skólans.
Verkefnið gengur raunar þvert á svið tölvutækni, gervigreindar, verkfræði og verkefnastjórnunar - allt fyrrgreint hefur skapað sér sterkan sess innan HR og er því verkefnið á afar hentugum stað þar sem þekking, reynsla og metnaður mætist.
Hlutverk HR í þessari metnaðarfullu máltækniáætlun er fjórþætt; talgreining; að breyta tali í texta, talgerving; að breyta texta í tal, vélþýðingar; að þýða úr og í íslensku og yfir á önnur tungumál og útdrættir; að breyta löngum texta í styttri texta með aðstoð gervigreindar.
Ef vel tekst til í þessu verkefni gæti vinna hópsins hjálpað til við að tryggja framtíð íslenskunnar og jafnframt orðið leiðarljós annarra lítilla málsvæða við varðveislu sinna tungumála.
Dr. Hrafn Loftsson, dósent við tölvunarfræðideild HR, og Dr. Jón Guðnason, dósent við verkfræðideild HR eru framarlega meðal vísindamanna þegar kemur að því að gera tölvum og tækjum kleift að skilja íslensku. Þeir leiddu stofnun samstarfshópsins SÍM, Samstarf um Íslenska Máltækni, sem er samstarf háskóla, stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka um þróun máltækni fyrir íslensku.
Dr. Hrafn hefur beint sjónum sínum að smíði hugbúnaðar til að greina íslensku. Doktorsverkefni hans, IceNLP, sem hann vann að á árunum 2004-2007, er hugbúnaður sem notaður er til að greina íslenskan texta og hafa einstakir hlutar hans verið þróaðir áfram, til dæmis af nemendum í máltækni í HR og HÍ.
Dr. Jón Guðnason stundar rannsóknir í talmerkjafræði og hannar og þróar aðferðir til þess að greina heilbrigði og hugrænt álag í rödd. Hann lauk doktorsnámi í talmerkjafræði frá Imperial College London árið 2007 þar sem hann hannaði ný reiknirit við að tímasetja sveiflur raddbanda og beitti þeim í að auðkenna raddir.
Í doktorsverkefni sínu við verkfræðideild HR rannsakaði dr. Eydís Huld Magnúsdóttir hugrænt vinnuálag með því að greina lífeðlisfræðilegar upplýsingar frá röddinni og hjarta- og æðakerfinu. Flokkaði hún upplýsingarnar í þrjá flokka með gervigreind, meðal annars til að greina hvort einstaklingur væri undir óeðlilega miklu álagi. Aðferðin var notuð til þess að greina of mikið eða of lítið álag á flugumferðarstjóra, sem eðli málsins samkvæmt verða að vera í toppástandi við vinnu sína allan tímann.
Spurningarnar sem dr. Eydís varpaði fram voru meðal annars: Er hægt að setja mælistiku á það hvenær einstaklingar eru komnir að þeim þröskuldi álags að þeir geti ekki sinnt starfi sínu með fullnægjandi og ábyrgum hætti? Og er þá um leið hægt að koma í veg fyrir hugsanleg mistök vegna álags? Með líkaninu er hægt að greina álag áður en það fer yfir þolmörk og þannig grípa inn í áður en einstaklingurinn verður líklegri til þess að gera dýrkeypt mistök í starfi sínu.
Fylgjast með framþróun verkefnisins:
Svefn

Byltum rannsóknum á svefni
Dr. Erna Sif Arnardóttir. dósent vð verkfræðideild og tölvunarfræðideild HR, lætur sig svefn samborgara sinna varða og fer fyrir rannsóknar- og þróunarverkefninu Svefnbyltingin. Rannsóknir innan verkefnisins spanna víðan völl; allt frá rannsóknum á kæfisvefni og hrotum fullorðinna og barna, til mælinga á svefnheilsu afreksíþróttafólks, áhrifum 36 klukkutíma svefnsviptingar á vitræna getu og líkamlega heilsu, hlutverki ljósameðferðar til að bæta líðan krabbameinssjúklinga og fræðsluverkefni í grunnskólum um mikilvægi góðs svefns.
Verkefnið hlaut 2.5 milljarða styrk úr Horizon 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun sem er einn stærsti styrkur sem íslenskur vísindamaður hefur hlotið.
Gervigreind
Innan gervigreindarsetursins Cadia eru stundaðar rannsóknir á gervigreind og koma fjórar eftirfarandi deildir háskólans, auk tölvunarfræðideildar, að þróun og rannsóknum á sviðinu:
- Verkfræðideild
- Sálfræðideild
- Viðskiptadeild
- Iðn- og tæknifræðideild
Vitvélastofnun Íslands hefur aðsetur í HR.
Fylgjast með vinnuálagi flugumferðarstjóra
Ýmis verkefni þar sem gervigreind er í forgrunni hafa litið dagsins ljós innan veggja HR og margs konar verkefni hafa fleytt vísindamönnum langt utan þeirra. Engum vafa er það undirorpið að þeir hafa sýnt fram á nytsemi gervigreindar á mörgum sviðum. Þar má til að mynda nefna rannsókn dr. Kamillu Rúnar Jóhannsdóttir, deildarforseta sálfræðideildar HR og dr. Jóns Guðnasonar, dósent við verkfræðideild HR, þar sem gervigreind var nýtt til þess að greina vinnuálag flugumferðarstjóra með upplýsingum frá röddinni.
Með líkani sem dr. Eydís Huld Magnúsdóttir þróaði, er kleift að greina lífeðlisleg merki til að fylgjast með vinnuálagi í rauntíma og er ætlað þeim sem vinna ábyrgðarmikil störf þar sem mistök kosta mikið, til dæmis hjá flugumferðarstjórum og flugmönnum.
Sálræn áhrif umhverfis
Dr. Hannes Högni Vilhjálmsson, prófessor við tölvunarfræðideild HR, stendur einna fremstur meðal þeirra sem stunda rannsóknir með gervigreind. Hann stundar rannsóknir við Gervigreindarsetrið og vinnur oftast þvert á fagsvið háskólans.
Tilgangur með rannsóknum dr. Hannesar Högna er að bæta samfélagið með einum eða öðrum hætti líkt og með verkefninu „Sjálfbærar borgir framtíðarinnar“ þar sem sýndarveruleikinn er notaður til að mæla sálræn áhrif borgarumhverfis áður en farið er í framkvæmdir. Þannig er heilsa og líðan fólks mæld þegar það upplifir nýtt umhverfi með sýndarveruleikagleraugum og ákvarðanir teknar um framtíð umhverfisins með tilliti til niðurstaða.
Nemendur læra að nota gervigreind
Gegnum tíðina hafa tilraunir verið gerðar með ýmis konar verkefni í HR, ekki síst hjá nemendum. Í Hnakkaþoni, sem er útflutningskeppni sjávarútvegsins og er haldin árlega í samstarfi HR og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, var vinningstillaga árið 2019 byggð á gervigreind. Með gervigreind átti að hámarka árangur af markaðssetningu fisksins sem flytja átti út þannig að skilaboð til neytenda voru persónuleg.
Einnig hafa tölvunarfræðinemar við HR unnið með gervigreind í atvinnulífinu. Þeir unnu gervigreindartækni á vefnum Travelade, sem svipar til vefja eins og Tripadvisor. Með gervigreind var útbúið nýtt meðmælakerfi sem byggist á gögnum um hegðun notenda þannig að niðurstöður eru lagaðar að einstaklingum. Fólk fær þannig, með tilstilli gervigreindar, meðmæli einungis frá ferðalöngum sem hafa svipuð áhugamál og ferðastíl og það sjálft.
Skyggnumst inn í framtíðina
Ólafur Andri Ragnarsson er einn af þeim fræðimönnum sem einna mest hefur fjallað um fjórðu iðnbyltinguna þar sem segja má að gervigreind sé í aðalhlutverki. Ólafur starfar sem aðjúnkt við tölvunarfræðideild HR og hefur kennt námskeiðið Ný tækni um árabil. Hann skrifaði einnig bókina Fjórða iðnbyltingin þar sem m.a. er fjallað um sjálfkeyrandi bíla, dróna, framgang Apple, nýjungar hjá Google og fleira þar sem gervigreind er vissulega í forgrunni.
- Vitvélastofnun Íslands
Prentun líffæra
Nýir möguleikar hafa opnast við notkun þrívíddarprentaðra líffæra við undirbúning skurðaðgerða og við fjölbreyttar rannsóknir og prófanir. Heilbrigðissetur HR í samstarfi við Landspítala Háskólasjúkrahús (LSH) hefur sett upp slíkan prentara í HR. Að kaupum á prentaranum stóðu HR, LSH, Össur og HÍ.

Paolo Gargiulo, forstöðumaður Heilbrigðistækniseturs HR og LSH, sýnir áhugasömum gestum setursins tölvuteikningar sem prentað er eftir.
Nýi þrívíddarprentarinn getur unnið úr teikningum með gríðarlegri nákvæmni, og skekkja í prentun er innan við 0,1 millimetri. Hann getur prentað mjög flókna hluti úr fjölbreyttum efnum, t.d. bæði gegnsæju efni og lituðu, sveigjanlegu eða hörðu. Hægt er að prenta flókin líffæri úr mörgum lögum og nýta mismunandi prentefni og liti til að auka notagildi líffæranna við aðgerðir, rannsóknir og kennslu innan HR, hjá LSH og við HÍ. Auk þess mun Össur nýta prentarann til að útbúa frumgerðir.
15 aðgerðir á ári hingað til
Heilbrigðistæknisetur HR og LSH hefur um árabil verið í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að notkun þvívíddarprentaðra líffæra við undirbúning flókinna skurðaðgerða. Með því að þrívíddarprenta líffæri sjúklinga sem þurfa á aðgerð að halda geta læknar undirbúið sig betur fyrir aðgerðir og stytt þann tíma sem aðgerðir taka. Það eykur öryggi sjúklinga. Að meðaltali hafa verið framkvæmdar 15 aðgerðir með aðstoð þrívíddarprentunar á hverju ári undanfarin ár. Með nýja þrívíddarprentaranum er hægt að sækja enn frekar fram á þessu sviði.