Alþjóðlegt samstarf
Háskólinn í Reykjavík er alþjóðlegt háskólasamfélag sem notar alþjóðleg viðmið í rannsóknum, kennslu og stjórnun. HR starfar markvisst með leiðandi erlendum háskólum og rannsóknarstofnunum og leggur áherslu á að þjálfa nemendur í alþjóðlegum samskiptum.
Hvert á að leita?
Upplýsingar um alþjóðasamskipti veita deildir innan HR sem sinna eftirfarandi málefnum:
Alþjóðlegt samstarf um rannsóknir
Fyrir upplýsingar um alþjóðlegt rannsóknasamstarf HR vinsamlegast hafið samband við rannsóknaþjónustu HR.
Alþjóðlegt samstarf um kennslu
Fyrir upplýsingar um samstarf HR á alþjóðavísu sem tengist kennslu vinsamlega hafið samband við alþjóðaskrifstofu.

Alþjóðleg samstarfsnet
HR tekur þátt í fjölda samstarfsneta sem hafa stefnumótandi áhrif á háskólamenntun á alþjóðavísu. Helstu samstarfsnet HR eru:
EUA - Samtök Evrópskra háskóla
Í samtökunum eru evrópskir háskólar frá 47 löndum. Samtökin eru þau stærstu sinnar tegundar, með 850 meðlimi sem sameiginlega eru með 17 milljónir háskólanema. Samtökin eru mikilvægur samráðsvettvangur um nýjungar í háskólamenntun í Evrópu. Meðlimir samtakanna hafa tækifæri til að hafa áhrif á og þróa stefnu og stefnumótandi verkefni um háskólamenntun og rannsóknir. Þetta er gert m.a. í gegnum Bologna-ferlið og tengiliði hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Evrópuþingi og öðrum valdhöfum.
Samstarfsnet háskóla á Norðurslóðum
Háskólinn í Reykjavík er meðlimur í University of the Arctic (UArctic) – samstarfsneti háskóla og annarra stofnana á norðlægum slóðum. Samstarfsverkefni eru á sviðum rannsókna, menntunar og kynningu á möguleikunum í byggðum á Norðurslóðum. Stofnanir í samtökunum eru yfir 130 talsins í átta löndum. UArctic-samtökin eru ein þau stærstu í heiminum á sviði menntunar og rannsókna.
NORDTEK
HR er meðlimur í NORDTEK, samstarfsneti rektora og deildarforseta við tækniháskóla í Norðurlöndunum. Til að vera meðlimur þarf viðkomandi háskóli að bjóða námsbrautir í verkfræði á meistarastigi og doktorsmenntun á sviði tæknirannsókna. Núverandi meðlimir koma frá 24 háskólum og við þá eru yfir 100.000 nemendur, kennarar og vísindamenn.
Nordplus laganetið
Nordplus laganetið samanstendur af 22 skólum á Norðurlöndunum sem sérhæfa sig í lagakennslu á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Markmið samstarfsnetsins er að styðja fræðasamvinnu með starfsskiptum og með því að deila fróðleik milli landa. Það eflir samkennd Norðurlandabúa og skilning á menningarheimum mismunandi landa.
NeurotechEU - University of Brain and Technology
Háskólinn í Reykjavík er fullgildur þátttakandi í NeurotechEU - University of Brain and Technology, sem er samstarfsverkefni (European University Initiative) nokkurra fremstu rannsóknaháskóla Evrópu á sviði taugatækni (neuro-technology). Háskólar innan NeurotechEU - njóta fjölbreytts ávinnings af því.
Markmið með samstarfinu
NeurotechEU hefur að markmiði að stuðla að betri kennsluháttum og auknu samstarfi í rannsóknum. Þannig verður staða Evrópu í heild sterkari í tækni- og taugarannsóknum sem auðveldar vel menntuðu fólki að takast á við ögrandi framtíðarverkefni samfélagsins.