Svið og deildir
Akademískar deildir Háskólans í Reykjavík heyra undir tvö svið: samfélagssvið og tæknisvið. Deildirnar eru sjö talsins og fer þar fram kennsla í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi. Við deildirnar er lögð áhersla á samvinnu við atvinnulífið, nýsköpun og alþjóðlega viðurkenndar rannsóknir.
Við HR er einnig hægt að stunda eins árs undirbúningsnám fyrir háskóla í Háskólagrunni HR. Við Opni háskólinn í HR eru í boði lengri og styttri námskeið sérsniðin fyrir fólk til að stunda meðfram vinnu. Skema er ætlað yngstu kynslóðinni en þar geta krakkar sótt skapandi tækninámskeið.
Sviðsforsetar


Samfélagssvið
Íþróttafræðideild
Við deildina er í boði nám í íþróttafræði á BSc- og MSc-stigi. Grunnnám undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf sem tengjast íþróttum og lýðheilsu. Meistaranám er á þremur brautum sem veita nemendum kennsluréttindi eða umtalsverða sérhæfingu í þjálfunarfræði eða stjórnun í atvinnugreininni.
Lagadeild
Frá stofnun hefur lagadeild Háskólans í Reykjavík verið framsækin, jafnt í kennslu, námsþróun og rannsóknum. Þó svo að lögin breytist ekki ört breytist þjóðfélagið og umhverfi okkar og starfsfólk deildarinnar fylgist vel með þróuninni. Nemendur og kennarar takast á við sígild úrlausnarefni eins og bótaskyldu, alþjóðleg lög og refsirétt en fá jafnframt tækifæri til að kynna sér ný viðfangsefni, eins og lög um hugverkarétt, tæknirétt, gervigreind og lög í geimnum.
Viðskiptadeild
Í námi við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík efla nemendur frumkvæði sitt og öðlast jafnframt sterka, fræðilega undirstöðu. Námið við deildina er á sviði viðskiptafræði og hagfræði og er þróað í samvinnu við atvinnulífið. Rík, alþjóðlega áhersla er í náminu enda hefur deildin á að skipa fjölda stundakennara sem eru einnig starfandi í íslenskum og erlendum fyrirtækjum og/eða háskólum. Við deildina er í boði alþjóðlegt Executive MBA nám. Stór hópur stjórnenda hefur útskrifast með MBA-gráðu frá HR og hefur látið til sín taka á öllum sviðum íslensks atvinnulífs svo og á erlendum vettvangi. Aðrar meistaranámsbrautir veita sérhæfingu á vinnumarkaði og þeim er hægt að ljúka á aðeins 14 mánuðum í stað tveggja ára.
Sálfræðideild
Í kennslu við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík er lögð áhersla á vísindaleg vinnubrögð, alþjóðlegar rannsóknir, öflugt vettvangsnám og tengsl við atvinnulífið.
Sálfræði er umfangsmikið svið enda er þar fengist við mannlega hegðun og hugsun. Nemendur við deildina hafa umtalsverða möguleika á að velja þau viðfangsefni sálfræðinnar sem vekja mestan áhuga þeirra. Fjölbreytt störf bíða að lokinni útskrift enda er sálfræðiþekking sífellt meira nýtt í atvinnugreinum eins og í hugbúnaðargerð og hönnun svo dæmi séu nefnd.
Tæknisvið
Iðn- og tæknifræðideild
Nám við iðn- og tæknifræðideild HR veitir sterka fræðilega undirstöðu í bland við sérhæfða og hagnýta fagþekkingu. Nemendur eru hvattir til að beita frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum í raunhæfum verkefnum. Kennsluaðferðir iðn- og tæknifræðideildar eru í sífelldri þróun og námið sjálft tekur breytingum í takt við þarfir atvinnulífsins.
Tölvunarfræðideild
Í námi við tölvunarfræðideild öðlast nemendur undirbúning fyrir meira nám og/eða störf með góðri fræðilegri undirstöðu og hagnýtri þekkingu á nýjustu tækni og aðferðum. Að námi loknu halda þeir út í atvinnulífið reiðubúnir til að leysa þau vandamál sem blasa við okkur í dag eða við munum glíma við í framtíðinni. Diplómanám og BSc-nám í tölvunarfræði er kennt við HR og á Akureyri í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Tölvunarfræðideild á einnig í samstarfi við samsvarandi deildir á Ítalíu og í Svíþjóð sem gefur nemendum tækifæri til að útskrifast með tvöfalda gráðu í meistaranámi.
Verkfræðideild
Verkfræðideild leggur áherslu á að veita nemendum hagnýta menntun sem gagnast þeim strax að loknu námi og allan starfsferilinn á enda. Í þessu felst að veita nemendum trausta fræðilega undirstöðu í stærðfræði og vísindum og byggja þar ofan á færni í að beita verkfræðilegri aðferðafræði á margvísleg verkefni. Nemendur hafa úr fjölda námsleiða og námsbrauta að velja og geta þannig skapað sér sérstöðu. Lögð er áhersla á að nemendur séu færir um að greina flókin vandamál, geti tileinkað sér nýja tækni, og komið með tillögur að lausnum. Í HR er lögð áhersla á að nemendur fái menntun sem mun nýtast þeim til framtíðar og á alþjóðlegum vettvangi.