Starfsnám
Starfsnám í HR
Háskólinn í Reykjavík er hreyfiafl í þróun atvinnulífs og samfélags, með virku samstarfi og menntun sem mætir þörfum þeirra. HR leggur áherslu á að námsframboð endurspegli raunverulegar þarfi atvinnulífs og taki mið af tækifærum nútímasamfélags. Starfsnám er mikilvægur liður í því að mæta þörfum atvinnulífs og búa nemendur undir störf að námi loknu og er það markmið HR að fjölga enn frekar tækifærum fyrir nemendur til starfsnáms og verkefnavinnu og starfa í samvinnu við atvinnulíf og samfélag. Allar deildir háskólans bjóða upp á starfsnám en fyrirkomulag er ólíkt milli deilda.
VILTU TAKA ÞÁTT?
Fyrirtæki/stofnanir/samtök geta skráð starfsnámstækifæri í gagnagrunn HR hér eða komið óskum um starfsnema á framfæri við einstakar deildir skólans.
Hér að neðan er umfjöllun um starfsnám og hvað það felur í sér.
Af hverju starfsnám?
Nemendur HR kynnast atvinnuumhverfinu snemma á námsferlinum og vinna raunhæf verkefni, bæði stór og smá, í samstarfi við fyrirtæki, fara í starfsnám á vinnustaði og fá kennslu frá fólki sem starfar í atvinnulífinu.
Atli Örn Friðmarsson segir frábært að slíkt starfsnám sé í boði þar sem það hjálpi nemendum að koma öðrum fætinum inn í slík framúrskarandi fyrirtæki. Starfsnámið er mikilvægur liður í að undirbúa nemendur sem best fyrir þátttöku í atvinnulífinu og gera þá eftirsóknarverðari starfskrafta þegar þeir útskrifast.
Markmið starfsnáms
Markmið starfsnáms er að efla tengsl nemenda við atvinnulíf (fyrirtæki, stofnanir og samtök), auka innsýn, skilning og færni nemenda á viðfangsefnum síns fagsviðs og undirbúa þau undir störf að loknu námi með úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi.

Ávinningur atvinnulífs
- Tækifæri til að kynnast mögulegu framtíðarstarfsfólki.
- Mögulega ný nálgun á viðfangsefni sem stuðlar að skapandi lausnum og nýsköpun.
- Getur tryggt samfellu og varðveislu þekkingar.
- Starfsmenn geta einbeitt sér að öðrum verkefnum.
- Eykur sýnileika og orðspor meðal nemenda.
- Styður við samfélagsþátttöku og menntun.
Væntingar starfsnema
- Starfstækifæri.
- Góður undirbúningur fyrir þátttöku í atvinnulífinu.
- Eftirsóttari starfskraftur eftir útskrif.
- Skapa virði fyrir atvinnulífið.
- Hafa umsjónarmann/leiðbeinanda sem veitir leiðsögn og endurgjöf og er faglegur.
- Stækka tengslanet sitt.

Fyrirkomulag deilda - Samfélagssvið
Íþróttafræðideild
Í grunnnámi er boðið upp á verknám I sem er 6 ECTS skyldunámskeið á öðru ári á vorönn og verknám II sem er 6 ECTS valnámskeið á haustönn á þriðja ári (kennsluskrá: Verknám I og Verknám II). Gert er ráð fyrir að verknámið sé 90 klst. að undanskilinni annarri vinnu, t.d. gerð tímaseðla, varnar o.fl.
Í námskeiðunum vinna nemendur náið með sérfræðingum á vettvangi og nýta þá þekkingu og færni sem þeir hafa þegar öðlast í náminu til þess að tileinka sér forsendur þess að stunda kennslu eða þjálfun í íþróttum eða heilsurækt, með því að skipuleggja, aðlaga, framkvæma og meta það starf sem unnið er á þessum stöðum. Nemendur geta sótt um til deildar að taka 12 ECTS lokaverkefni tengt verknáminu.
Umsjónarkennari heldur utan um samskipti við samstarfsaðila, skipuleggur hvaða nemandi fer hvert og hefur eftirlit með verknáminu. Reynt er að taka tillit til vilja nemenda við ákvörðun verknáms.
HR greiðir verknámskennara fyrir leiðsögn nemenda.
Verknámið er ólaunað. Nemendur skila tímaseðlum og í verknámi II skýrslu, og þurfa að verja verkefnið.
Lagadeild
Deildin skipuleggur starfsnám í samvinnu við stofnanir eða fyrirtæki. Námsráð lagadeildar skal hafa frumkvæði að því að gerðir verði samstarfssamningar við þau fyrirtæki eða stofnanir sem til greina koma um starfsnám.
Sálfræðideild
Í grunnnámi er boðið upp á vettvangsnám sem er 6 ECTS valnámskeið (kennsluskrá: Vettvangsnám) á haustönn á þriðja ári. Miðað er við að starfsþjálfunin taki 160+ stundir, og að nemendur séu a.m.k. tvo heila vinnudaga á viku í a.m.k. 10 vikur. Verkefni sem nemendur taka að sér eru alla jafna fjölbreytt og gera ekki kröfu um heilbrigðismenntun, enda ekki um að ræða klínískt vettvangsnám.
Umsjónarkennari heldur utan um samskipti við samstarfsaðila (aðallega stofnanir) og skipuleggur hvaða nemandi fer hvert.
Námið er ólaunað. Nemendur skila tímaskýrslu, vinnuskýrslu og halda kynningu fyrir aðra í námskeiðinu um starfsnáminu um hvað þau gerðu og lærðu á tímabilinu.
Gerður er samningur á milli starfsstaðar, umsjónarkennara og nemanda þar sem verkefninu er lýst.
Viðskiptafræðideild
Í grunnnámi er boðið upp á starfsnám sem er 6 ECTS valnámskeið (kennsluskrá: Starfsnám) á haust- og vorönn á þriðja ári eða að loknum 120 ECTS. Hægt er að dreifa starfsnáminu á 4 – 12 vikur. Vinnutíma skal haga þannig að hann skarist ekki á við kennslustundir. Miðað skal við 120 klst. vinnu auk 30 klst. við undirbúning og skýrslugerð vegna vinnunnar. Þessu til viðbótar geta nemendur unnið 12 ECTS BSc-ritgerð í samstarfi við fyrirtæki.
Fyrirkomulag deilda - Tæknisvið
Tæknifræðideild
Í byggingafræði er skylda að taka 15 ECTS starfsnám á vorönn þriðja árs (kennsluskrá: Starfsnám í byggingafræði). Miðað skal við 400 klst. vinnu á átta vikna tímabili. Nemendahópnum er tvískipt; fyrri hópurinn er í starfsnámi fyrstu 8 vikur annarinnar en hinn hópurinn hefur sitt starfsnám eftir 8 vikur.
Umsjónarkennari hefur eftirlit með framgangi starfsnáms og tekur stöðuna um mitt tímabilið.
Nemendur eru sjálfir ábyrgir fyrir því að finna sér hentugan starfsnámsstað eftir áhugasviði en umsjónarkennari námskeiðsins er nemendum innan handar við leit að starfsnámi. Nemendur skila dagbók og starfsnámsskýrslu.
Nemendur eiga að skila til HR starfsnámssamningi og lokaskýrslu.
Starfsnámið er ólaunað.
Tölvunarfræðideild
Í grunnnámi í tölvunarfræðideild er val að taka 6 ECTS starfsnám á vorönn þriðja árs eða hafa lokið 90 ECTS (kennsluskrá: Starfsnám BSc í tölvunarfræðideild).
Starfsnámið felur í sér 120-150 vinnustundir í fyrirtæki/stofnun sem hægt er að dreifa á 10-12 vikur, því til viðbótar kemur undirbúningsvinna, gerð lokaskýrslu og kynning á verkefninu. Vinnutíma ber að haga þannig að hann skarist ekki við kennslustundir í öðrum námskeiðum.
Umsjónarkennari/skrifstofa heldur utan um samskipti við samstarfsaðila (aðallega fyrirtæki). Nemandi skilar inn umsókn til HR og velur 1-3 fyrirtæki. Umsjónarkennari velur nemendur úr hópi umsækjenda, m.a. út frá námsframvindu og einkunnum. Umsjónarkennari sendir starfsumsókn og ferilskrá á fyrirtæki sem ákveður síðan hvaða nemandi fær starfið.
Starfsnám er ólaunað.
Nemandi vinnur undir eftirliti kennara frá HR og umsjónarmanns hjá fyrirtæki/stofnun. Umsjónarkennari og umsjónarmaður meta frammistöðu nemanda á námsmatsfundi í lok annar. Saman votta þeir að nemandi hafi lokið áætluðum námseiningum með fullnægjandi hætti. Nemandi skilar lokaskýrslu og situr námsmatsfund með umsjónarkennara og umsjónarmanni frá fyrirtæki.
Umsjónarkennari gerir samning við fyrirtæki og nemanda.
Verkfræðideild
Í verkfræðideild er val að taka 6 ECTS eða 12 ECTS starfsnám á lokaári BSc náms eða fyrra ári MSc náms (kennsluskrá: Starfsnám í verkfræði I og starfsnám í verkfræði II)
Nemandi vinnur að afmörkuðu verkefni undir leiðsögn umsjónarmanns hjá fyrirtæki/stofnun og eftirliti umsjónarkennara hjá HR. Miða skal við að vinnuframlag nemanda sé að lágmarki 120 vinnustundir. Þessu til viðbótar kemur undirbúningur, vinna við gerð lokaskýrslu og kynningu hennar. Starfsnámið ber að skipuleggja þannig að vinnutíminn skarist ekki við kennslustundir í öðrum námskeiðum.
Umsjónarkennari/skrifstofa heldur utan um samskipti við samstarfsaðila (aðallega fyrirtæki). Nemandi skilar inn umsókn til HR og velur 1-3 fyrirtæki. Umsjónarkennari velur nemendur úr hópi umsækjenda, m.a. út frá námsframvindu og einkunnum. Umsjónarkennari sendir starfsumsókn og ferilskrá á fyrirtæki sem ákveður síðan hvaða nemandi fær starfið.
Nemandi skal í upphafi skilgreina verkefnið í samráði við umsjónarkennara og umsjónarmann fyrirtækis. Meðan á verkefninu stendur skal nemandinn halda dagbók þannig að hægt sé að fylgjast með framvindu verkefnisins. Í lok námstíma skal nemandinn skrifa skýrslu um verkefnið og vera með kynningu.
Starfsnámið er ólaunað.
Umsjónarkennari/skrifstofa sér til þess að gerður er samningur við fyrirtæki.
Í verkfræðideild er skylda að taka 12 ECTS námskeið, verkfræði X, á lokaári BSc náms (kennsluskrá: Verkfræði X). Námskeiðið leggur áherslu á vöruhönnun, þ.e. hönnun og innleiðingu á prótótýpu.
Margir nemendur vinna verkefni í námskeiðinu í samstarfi við fyrirtæki. Námskeiðið er kennt líkt og önnur námskeið að því undanskildu að í viku 13-15 eru nemendur eingöngu í þessu námskeiði.