Rektor Háskólans í Reykjavík
Dr. Ragnhildur Helgadóttir
Velkomin/n/ð á vef Háskólans í Reykjavík og á þessa undirsíðu mína sem rektors HR. Hér á vef HR finnurðu allar helstu upplýsingar um skólann, hvort sem þær snúa að því námi sem við bjóðum, þeim rannsóknum sem vísindamenn okkar stunda, aðstöðunni eða alþjóðlegu samstarfi.

HR var stofnaður árið 1998. Hann er því ungur háskóli miðað við marga aðra en hefur á stuttum tíma náð að skapa sér mikla sérstöðu. HR er tækniháskóli, HR er háskóli atvinnulífsins, HR styður við nýsköpun og HR er alþjóðlegur háskóli þar sem stundaðar eru rannsóknir á heimsmælikvarða og HR er nemendamiðaður háskóli.
Sérstaða HR birtist meðal annars í þeirri skýru framtíðarsýn að við ætlum að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina með því að bjóða frábært nám, praktískt og akademískt, og skapa þekkingu sem breytir heiminum, standandi öðrum fætinum í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hinum í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Sú blanda skiptir máli, sérstaðan skiptir máli og það skiptir máli að standa vörð um valfrelsi nemenda og að íslenskt háskóla- og vísindastarf sé margradda.

Ég er skólakona af ástríðu og ég er lögfræðingur af ástríðu. Mér þykja það algjör forréttindi að vinna í skóla sem leggur mikið upp úr því að mæta hverjum og einum nemanda þar sem hann er og veita persónulega og góða þjónustu – en gefa á sama tíma engan afslátt af þeim kröfum sem háskólanám leggur á herðar þeirra sem það stunda og þar sem sköpunarkraftur og vísindaleg vinnubrögð eru í forgrunni.
„Menntun á ekki að vera þannig að þú farir inn á einum enda og spýtist svo fullmótuð eða mótaður út á öðrum enda. Það hentar sumum, en kannski fæstum! Ef vel á að vera fer fólk í og úr mismunandi námi, þjálfun og námskeiðum eftir því sem þarfir og langanir þess - og samfélagsins í kringum það - breytast. Í samfélagi sem er svo lítið að við verðum að nýta hæfileika okkar allra, skiptir máli að námsmat þegar þú ert 12, 15 eða 18 ára og dómgreind þín á sama aldri - ráði ekki ferðinni allt lífið, heldur sé hægt að velja, endurskoða, bæta við, skipta og endurskoða aftur hvaða menntun maður þarf“
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR
Ég vona að þú finnir það sem þú leitar að hér á vefnum en ef ekki skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur í síma 599-6200, í gegnum netfangið ru@ru.is eða í gegnum samfélagsmiðla skólans.
Við erum á:
Stjórn Háskólans í Reykjavík ræður rektor Háskólans í Reykjavík til fjögurra ára í senn. Rektor HR kemur fram fyrir hönd háskólans, annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor ber ábyrgð á gæðum starfsemi HR og framkvæmd innra mats.
Rektor ræður sviðsforseta, framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn háskólans sem heyra beint undir rektor, en hann hefur samráð við stjórn um val þeirra og meginverkefni. Rektor skal halda starfsmannafundi að minnsta kosti einu sinni á önn þar sem starfsfólk er upplýst um stöðu skólans, stefnu og áherslur rektors og stjórnar skólans.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir
er rektor Háskólans í Reykjavík. Hún lauk cand. jur.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1997 og LL.M-prófi frá Virginíu-háskóla í Bandaríkjunum árið 1999. Þá lauk hún doktorsprófi, einnig frá Virginíu-háskóla, árið 2004 en doktorsritgerð Ragnhildar heitir ‘Not so in North America’ - the Influence of American Theories on Judicial Review in Nordic Constitutional Law.
Ragnhildur hóf að kenna við Háskólann í Reykjavík árið 2002. Hún varð prófessor við lagadeild árið 2006, var deildarforseti lagadeildar 2014-2019 og forseti samfélagssviðs HR 2019-2021. Fræðileg sérsvið Ragnhildar eru stjórnskipunarréttur, almannatryggingaréttur, stjórnsýsluréttur, réttarsaga og mannréttindi. Ragnhildur var í sex ár formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hún hefur kennt við háskóla í Montreal, Ottawa, París og Toulouse.
- Ræða rektors við útskrift Háskólans í Reykjavík 25. október 2025
- Ræða rektors á Lagadeginum 10. október 2025
- Ræða rektors á forsetalistaathöfn Háskólans í Reykjavík 10. september 2025
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 21. júní 2025
- Ræða rektors á forsetalistaathöfn Háskólans í Reykjavík, 19. febrúar 2025
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 1. febrúar 2025
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 26. október 2024
- Ræða rektors í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn þann 9. október 2024
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 22. júní 2024
- Forseti – til hvers? Erindi Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við lagadeild og rektors Háskólans í Reykjavík, hjá Sagnfræðingafélaginu 21. maí 2024
Fréttabréf rektors
Hér mun ég, a.m.k. mánaðarlega, deila með starfsfólki og öðrum sem hafa áhuga helstu fréttum og áherslum í starfi Háskólans í Reykjavík. Markmiðið er að efla gagnsæi og samtal um það sem skiptir okkur máli. Endilega hafið samband við rektor @ ru.is ef þið hafið spurningar eða athugasemdir um eitthvað sem hér er.
Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur
Október var uppfullur af fjölbreyttum viðburðum og fundum. Við höldum áfram að taka á móti gestum úr öllum áttum og það er alltaf jafn gaman að sýna fólki sem heimsækir okkur hvað nemendur og kennarar eruð að fást við þegar kemur að vísindarannsóknum og öðrum verkefnum. Margir hefðbundnir fundir voru haldnir og svo var útskrift sem var sérlega skemmtileg; hamingjuóskir til útskriftarnema og ykkar allra með þau!
Konur og kvár fjölmenntu á Arnarhól í tilefni af Kvennafrídeginum og ég var ein af mörgum úr HR sem ekki var í vinnu. Tvær vísindakonur frá HR hlutu Norræn verðlaun og síðan er það ekki á hverjum degi sem starfsmaður skólans fær orðuna: Knight of the Order of the Star of Italy. Loks fór draugur á stjá á hrekkjavökunni hér í húsi.
Hér kemur það helsta frá október:
- Kennslan gengur vel og nemendurnir skemmtilegir og fróðleiksfúsir.
- Á framkvæmdaráðsfundi var samþykkt að halda áfram vinnu við NeurotechEU námslínuna og á sama tíma verði unnar verklagsreglur er taka til námslína í alþjóðlegu samstarfi. Einnig var samþykkt framgangsnefnd.
- Við fengum heimsókn frá Aleksander Kropiwnicki sendiherra Póllands og Sława Duszyńska og Anastazja Glogowska, fulltrúum sendiráðsins. Við litum inn til Slawomir Marcien Koziel, prófessors í verkfræðideild, og fórum síðan yfir starfsemi HR og spjölluðum meðal annars um tengingu HR við pólska samfélagið á Íslandi og samstarfssamninga HR við háskóla í Póllandi.
- Í tengslum við Arctic Circle fengum við líka heimsókn frá fulltrúum bandaríska háskólans University of Southern Maine. Tilgangur heimsóknarinnar var að styrkja enn frekar tengslin á milli skólanna en samstarfssamningur er á milli skólanna um skiptinám nemenda og sigurvegarar Vitans fara þangað í heimsókn.
- Lagadagurinn var haldinn í mánuðinum þar sem ég hélt erindi sem fjallaði um hvaða öryggisventla stjórnarskrá Íslands hefur þegar kemur að andstöðu við grundvallarþætti lýðræðisins. Ég fór yfir hvaða afmörkun eða temprun valds er til staðar í íslenskri stjórnskipun sem takmarkar getu ólýðræðislegra afla til að sanka að sér völdum og einnig hvaða veikleikar auka hættu á misnotkun og færslu í ólýðræðislegar áttir þegar kemur að íslenskri stjórnskipun. Ef þið hafið áhuga þá er textinn hér: Erindi rekotors - Lagadagurinn 10. oktober 2025 (PDF)
- Haldinn var vinnufundur þar sem rædd var framtíðarsýn fyrir Neurotech í HR. Það er nauðsynlegt að hugsa hvernig þetta stóra og skemmtilega verkefni – sem við samþykktum einróma að fara inn í - fellur inn í skólann allan og skipulag hans og meta hvort og hvernig það nýtist okkur öllum.
- Forstöðumenn hittust á vinnufundi sem var gagnlegur og góður. Við fengum áhugaverðan fyrirlestur um gervigreind og ræddum einnig í smærri umræðuhópum hvernig við erum að nota stefnu HR í starfinu, hvernig við getum nýtt hana betur og hvað við getum lært hvort af öðru.
- Áhugavert málþing um ávinning og áskoranir íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum fyrir nemendur, starfsfólk, stöðu háskólanna og samfélagið var haldið í Norræna húsinu. Ég sat í pallborði þar sem við ræddum þennan ávinning og áskoranir. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir tók einnig þátt í málþinginu og sat í öðru pallborði þar sem tekið var fyrir nýsköpun evrópskra háskólaneta fyrir þróun náms, vísinda og atvinnutækifæra. Þetta var fínt samtal og gaman að sjá hvað bæði netin og ávinningurinn sem skólarnir telja sig hafa af þeim eru mismunandi!
- Þann 24. október voru fimmtíu ár frá upphaflega Kvennafrídeginum og mörg í verkfalli þann dag, þar á meðal ég. Þó margt hafi breyst til batnaðar þá er mikilvægt að sofa ekki á verðinum og berjast af alefli gegn því bakslagi sem við sjáum í jafnréttismálum um allan heim. Það skiptir máli að öll fái að njóta hæfileika sinna og þroska þá og það er nú heldur betur stefna okkar í HR að tryggja að svo sé - m.a. þess vegna bjóðum við stelpum og strákum í heimsókn og ræðum við þau námsval, veitum styrki og reynum eins og við getum að beina fólki í nám sem þroskar það og eflir, sama hvort það er hér eða á sviðum sem við bjóðum ekki upp á.
- Útskrift fór fram í Hörpu síðasta laugardaginn í október. Við útskrifuðum 104 nemendur úr ýmsum deildum. Athöfnin var hátíðleg eins og ávallt þegar við útskrifum nemendur úr HR. Eins og ávallt í október voru flestir að útskrifast úr Viðskipta- og hagfræðideild og flestir (óháð deildum) að útskrifast úr framhaldsnámi.
- Starfsmannafundur fór fram (loksins!) í lok mánaðarins. Farið var yfir þar sem farið var yfir helstu fréttir og reglur um vistun gagna og tölvunotkun voru kynntar. Það er gott að ná að hittast svona í stórum hópi og ekki síst til að ná smá spjalli við fólk sem nær kannski ekki alltaf að hittast daglega hér í okkar stóra húsi! Morgunkaffið, sem mannauður boðar öðru hverju, nýtist reyndar sérstaklega vel í það og sama gilti um Hrekkjavökumorgunkaffið sem starfsfólk lagði saman í föstudagsmorguninn 31.10.
- Stjórnin hittist tvisvar í mánuðinum en annar fundanna var auka fundur sem snerist um fjármál skólans þar sem sérstaklega var farið yfir nýtingu aukafjárveitinga frá ríkinu. Hinn fundurinn var vinnufundur um sýn og stefnu og þar var m.a. tekin staðan á innleiðingu stefnunnar sem samþykkt var í janúar 2024. Sérstaklega var rætt um þá áherslu að vera hreyfiafl í þróun atvinnulífs en líka um þróun námsframboðs.
- Þá er ánægjulegt að segja frá því að þær Anna Sigríður Islind, prófessor við tölvunarfræðideild, og Bridget E. Burger, sérfræðingur hjá rannsóknarþjónstu HR hlutu nýverið Nordic Women in Tech Awards en verðlaunin eru veitt árlega. Anna Sigríður hlaut verðlaunin Liva Echwald Awards, veitt til að heiðra og minnast danska frumkvöðulsins og stofnanda Female Founders of the Future (FFOF), Liva Echwald. Bridget hlaut verðlaun í flokknum Women in Tech Ally, veitt einstaklingum sem hvetja aðra og hafa haft raunveruleg áhrif í sínu samfélagi með því að fjölga konum innan tæknigeirans síðastliðin tvö ár.
- Dr. Paolo Gargiulo, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður heilbrigðistækniseturs HR hlaut riddaratign ítalska ríkisins (Knight of the Order of the Star of Italy) fyrir framlag sitt til akademísks og vísindalegs samstarfs milli Ítalíu og Íslands við hátíðlega athöfn hér í HR.
- Sjálfbærnidagur HR var haldinn í tilefni alþjóðalega sjálfbærnidagsins sem ber upp síðasta miðvikudag í október ár hvert. Þar var ýmislegt á boðstólum, meðal annars málstofa þar sem sérfræðingar úr háskólanum og atvinnulífinu ræddu helstu skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði loftslagsmála með sérstakri áherslu á framlag og ábyrgð fyrirtækja í baráttunni gegn loftslagsvánni.
- Og gleymum ekki snjódeginum mikla núna í lok mánaðar eða 28. október! Mig langar til að þakka öllu starfsfólki og nemendum fyrir að bregðast við af þolinmæði og yfirvegun þegar röskun varð á starfinu vegna ófærðar. Þá fær Gunnar okkar og fasteignaumsjón eins og hún leggur sig sérstakar þakkir fyrir bæði að salta og standa fyrir utan skólann daginn eftir snjóstorminn mikla og hjálpa ungum OG öldnum yfir klakann sem myndast hafði í óveðrinu. Takk!
Gangi okkur öllum vel að klára önnina - munum að hafa gaman inn á milli anna og nota rólegar stundir til að hlaða batteríin.
Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur
Dagskrá rektors
2025
Vikan 3.- 7. nóvember 2025
- General Assembly hjá NeurotechEU og fundir rektora í netinu. Rætt um framhaldið, mögulega stækkun netsins og glaðst yfir þróun sameiginlegrar námslínu.
- Stöðufundir og fundir með nemendum