Rektor Háskólans í Reykjavík
Dr. Ragnhildur Helgadóttir
Velkomin/n/ð á vef Háskólans í Reykjavík og á þessa undirsíðu mína sem rektors HR. Hér á vef HR finnurðu allar helstu upplýsingar um skólann, hvort sem þær snúa að því námi sem við bjóðum, þeim rannsóknum sem vísindamenn okkar stunda, aðstöðunni eða alþjóðlegu samstarfi.

HR var stofnaður árið 1998. Hann er því ungur háskóli miðað við marga aðra en hefur á stuttum tíma náð að skapa sér mikla sérstöðu. HR er tækniháskóli, HR er háskóli atvinnulífsins, HR styður við nýsköpun og HR er alþjóðlegur háskóli þar sem stundaðar eru rannsóknir á heimsmælikvarða og HR er nemendamiðaður háskóli.
Sérstaða HR birtist meðal annars í þeirri skýru framtíðarsýn að við ætlum að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina með því að bjóða frábært nám, praktískt og akademískt, og skapa þekkingu sem breytir heiminum, standandi öðrum fætinum í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hinum í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Sú blanda skiptir máli, sérstaðan skiptir máli og það skiptir máli að standa vörð um valfrelsi nemenda og að íslenskt háskóla- og vísindastarf sé margradda.

Ég er skólakona af ástríðu og ég er lögfræðingur af ástríðu. Mér þykja það algjör forréttindi að vinna í skóla sem leggur mikið upp úr því að mæta hverjum og einum nemanda þar sem hann er og veita persónulega og góða þjónustu – en gefa á sama tíma engan afslátt af þeim kröfum sem háskólanám leggur á herðar þeirra sem það stunda og þar sem sköpunarkraftur og vísindaleg vinnubrögð eru í forgrunni.
„Menntun á ekki að vera þannig að þú farir inn á einum enda og spýtist svo fullmótuð eða mótaður út á öðrum enda. Það hentar sumum, en kannski fæstum! Ef vel á að vera fer fólk í og úr mismunandi námi, þjálfun og námskeiðum eftir því sem þarfir og langanir þess - og samfélagsins í kringum það - breytast. Í samfélagi sem er svo lítið að við verðum að nýta hæfileika okkar allra, skiptir máli að námsmat þegar þú ert 12, 15 eða 18 ára og dómgreind þín á sama aldri - ráði ekki ferðinni allt lífið, heldur sé hægt að velja, endurskoða, bæta við, skipta og endurskoða aftur hvaða menntun maður þarf“
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR
Ég vona að þú finnir það sem þú leitar að hér á vefnum en ef ekki skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur í síma 599-6200, í gegnum netfangið ru@ru.is eða í gegnum samfélagsmiðla skólans.
Við erum á:
Stjórn Háskólans í Reykjavík ræður rektor Háskólans í Reykjavík til fjögurra ára í senn. Rektor HR kemur fram fyrir hönd háskólans, annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor ber ábyrgð á gæðum starfsemi HR og framkvæmd innra mats.
Rektor ræður sviðsforseta, framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn háskólans sem heyra beint undir rektor, en hann hefur samráð við stjórn um val þeirra og meginverkefni. Rektor skal halda starfsmannafundi að minnsta kosti einu sinni á önn þar sem starfsfólk er upplýst um stöðu skólans, stefnu og áherslur rektors og stjórnar skólans.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir
er rektor Háskólans í Reykjavík. Hún lauk cand. jur.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1997 og LL.M-prófi frá Virginíu-háskóla í Bandaríkjunum árið 1999. Þá lauk hún doktorsprófi, einnig frá Virginíu-háskóla, árið 2004 en doktorsritgerð Ragnhildar heitir ‘Not so in North America’ - the Influence of American Theories on Judicial Review in Nordic Constitutional Law.
Ragnhildur hóf að kenna við Háskólann í Reykjavík árið 2002. Hún varð prófessor við lagadeild árið 2006, var deildarforseti lagadeildar 2014-2019 og forseti samfélagssviðs HR 2019-2021. Fræðileg sérsvið Ragnhildar eru stjórnskipunarréttur, almannatryggingaréttur, stjórnsýsluréttur, réttarsaga og mannréttindi. Ragnhildur var í sex ár formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hún hefur kennt við háskóla í Montreal, Ottawa, París og Toulouse.
- Ræða rektors á Lagadeginum 10. október 2025
- Ræða rektors á forsetalistaathöfn Háskólans í Reykjavík 10. september 2025
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 21. júní 2025
- Ræða rektors á forsetalistaathöfn Háskólans í Reykjavík, 19. febrúar 2025
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 1. febrúar 2025
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 26. október 2024
- Ræða rektors í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn þann 9. október 2024
- Ræða rektors við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík, 22. júní 2024
- Forseti – til hvers? Erindi Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við lagadeild og rektors Háskólans í Reykjavík, hjá Sagnfræðingafélaginu 21. maí 2024
Fréttabréf rektors
Hér mun ég, a.m.k. mánaðarlega, deila með starfsfólki og öðrum sem hafa áhuga helstu fréttum og áherslum í starfi Háskólans í Reykjavík. Markmiðið er að efla gagnsæi og samtal um það sem skiptir okkur máli. Endilega hafið samband við rektor@ru.is ef þið hafið spurningar eða athugasemdir um eitthvað sem hér er.
Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur
September fór hressilega af stað og það er búið að vera nóg um að vera; fundir, stórir og smáir, bæði hér í húsi, á Akureyri og út fyrir landsteinana. Ekki má heldur gleyma skemmtilegum viðburðum. Hér kemur það helsta þennan septembermánuð sem leið allt of hratt!
- Fyrsti stjórnarfundur vetrarins var haldinn í byrjun mánaðarins þar sem við fórum yfir UTmál; áhættumat fyrir skólann; fjármögnun og rekstur skólans fyrstu sex mánuði ársins auk undirbúnings og skipulags vetrarins.
- Ég átti fund með Loga Einarssyni, mennta-, nýsköpunar-, og háskólaráðherra og fulltrúum hans úr ráðuneytinu í tengslum við fjárlögin og svo fundaði hann með öllum rektorum um fjármál og stefnu ráðuneytisins vikuna á eftir. Háskólaskrifstofa ráðuneytisins kom svo í heimsókn og kynnti sér starfsemina, eins og nánar verður lýst hér að neðan.
- Við héldum tvær alveg sérlega skemmtilegar athafnir í fyrra hluta mánaðarins sem voru Forsetalistaathöfn og Nýnemastyrkir og atvinnulífstengdir styrkir. Þar fengu nemendur viðurkenningu fyrir góðan námsárangur en forsetastyrkur felur í sér niðurfellingu hluta skólagjalda og á athöfninni með nýnemum og atvinnulífinu voru veittar viðurkenningar til styrkþega úr atvinnulífstengdum sjóðum og árlegir nýnemastyrkir afhentir. Það var virkilega gaman að fá að taka þátt í þessum athöfnum og fá að fylgjast með nemendum uppskera eftir mikla og góða vinnu.
- Það var gaman að halda norður í land á Súpufund atvinnulífsins sem fór fram í DriftEA á Akureyri 16. september sl. þar sem rætt var um framtíð tæknináms á Norðausturlandi. Um 60 manns mættu á fundinn þar sem rætt var um leiðir til að efla námið og hvernig styðja megi við framtíðaruppbyggingu greinarinnar.
- Það voru Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík sem, í samstarfi við Akureyrarbæ og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), stóðu að fundinum. Ég verð alltaf mjög glöð yfir örlætinu sem fólk sýnir háskólunum og nemendum þeirra með því að gefa af tíma sínum og þekkingu til að tryggja að við vitum hvernig hlutir snúa við þeim.
- Árlegur fundur samstarfsnefndar háskólastigsins með stjórn Gæðamats háskóla fór fram nú í september. Hin árlega ráðstefna Gæðaráðsins fór að þessu sinni fram í LHÍ og þar var umfjöllunarefnið velferð og stuðningur við nemendur. Gréta Matthíasdóttir og Kristján Kristjánsson voru með innlegg ásamt fleirum.
- Kennslan gengur vel og gaman að breyta til í amstri dagsins og tengja við nemendur aftur í gegnum kennsluna.
- Í september voru einnig haldnir fjölmargir vinnufundir, stundum vinnudagar þar sem fundað er og unnið að markmiðum og stefnu skólans. Þá voru líka fjölmargir innanhússfundir sem eru gjarnan skipulagðir með litlum fyrirvara en eru engu að síður gagnlegir og nauðsynlegir.
- Við fengum senda yfirlýsingu og áskorun frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, Q- félag hinsegin stúdenta og ERGI – Félag hinsegin stúdenta á Norðurlandi sem lýsa yfir órofa samstöðu með hinsegin stúdentum. Þau fordæma orðræðu og aðgerðir sem grafa undan tilvist, sjálfsvirðingu og öryggi þessa mikilvæga hóps og staðfesta um leið að stúdentahreyfingin stendur með mannréttindum, fjölbreytileika og mannlegri reisn. – Þetta er mikilvæg brýning sem við í HR tökum að sjálfsögðu alvarlega.
- Stúdentafélagið í HR stóð fyrir árlegum Ólympíuleikum SFHR í vikunni. Það var heldur betur gaman að fylgjast með nemendum úr öllum deildum skólans keppa í allskonar óhefðbundnum en mjög skemmtilegum greinum. "The older I get, the better I was” - svo mig langaði oft að taka þátt! En tölvunarfræðin var sigurvegari - þriðja árið í röð.
- Þá var alþjóðadagur HR haldinn hátíðlegur í byrjun september þar sem um 500–700 nemendur og starfsmenn nýttu tækifærið til að kynna sér fjölbreytt alþjóðleg tækifæri.
- Við fengum heimsókn frá skrifstofu háskóla og vísinda úr mennta-, nýsköpunar-, og háskólaráðuneytinu. Það var skemmtilegt að veita þeim innsýn inn í starf og rannsóknir hér í HR og sýna þeim aðstöðuna. Við litum inn til Hannesar Högna Vilhjálmssonar, prófessors við tölvunarfræðideild, og fengum m.a. kynningu á rannsókn á notkun dómsals í sýndarveruleika fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Þá kynnti Erna Sif Arnardóttir, dósent við verkfræði- og tölvunarfræðideildir Svefnbyltinguna og framhaldsrannsóknir á svefni.
- Framkvæmdaráð samþykkti að vinnu yrði haldið áfram við þróun tveggja nýrra námsleiða - einnar sameiginlegar NeurotechEU línu og svo einnar í tæknifræði. Sömuleiðis voru samþykktar reglur um tölvunotkun og vistun gagna, sem verða kynntar á næsta starfsmannafundi og í framhaldinu.
- Sprotafyrirtækið Aldin Dynamics var valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Thor Ice Chilling Solutions hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan vöxt. Athöfnin fór fram í Grasagarðinum í Laugardal. Við vorum sem betur fer inni í Flórunni á meðan á athöfn stóð enda hellidemba úti. En athöfnin var hátíðleg og í ávarpi mínu talaði ég um að aukinn stuðningur og skýr rammi við nýsköpun innan HR kæmi meðal annars fram í fjölda einkaleyfaferla sem hefur aukist síðustu ár og aukinn fjölda fyrirtækja sem verða til vegna stuðnings skólans. Þá lagði ég líka áherslu á mikilvægi þess að hlúa að því fólki sem kýs að mennta sig á tímum þar sem tækninni fleygir fram og það er sannarlega eitt af okkar helstu markmiðum hér í HR.
- Nú í lok september var haldinn norrænn fundur rektora og voru samankomnir rektorar frá öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Þessi fundir eru gagnlegir; það er rætt saman í litlum hópum og mikilli einlægni. Meðal þess sem kom fram var m.a. að víða væri fólk í vanda með samstarf við háskóla og háskólafólk í ríkjum sem ekki eru efst á vinsældalistanum pólitískt - eða jafnvel beinlínis talin hættuleg eins og Rússland er í Eystrasaltslöndunum. Annað var áhrif COVID á háskólana og fjöldi erlendra nema, en þeir skólar sem lengst hafa gengið í inntöku þeirra hafa verið að fá á sig pólitíska brotsjói í heimalöndunum. Loks fór heilmikill tími í að ræða heimsmálin og stöðu háskóla vestanhafs og annars staðar.
Ég biðst afsökunar á því að það hefur ekki verið starfsmannafundur nú í september. Það voru svo miklar sveiflur með fjárlagafrumvarp, möguleg lok á gæðaúttekt o.fl. að ég byrjaði að bíða eftir slíku og þá dróst fundurinn úr hömlu. Við hittumst kát nú í október!
Annars vona ég bara að skólaárið leggist vel í ykkur öll og september hafi eins gengið vel hjá ykkur líka. Munum að flýta okkur hægt nú þegar fer að dimma á morgnana og kólna!
Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur
Komið þið sæl,
ágúst er alltaf líflegur og það er heldur betur búið að vera fjör hérna í húsi nú þegar allt er komið á fullt í kennslunni. Ný önn, fundir og undirbúningur fyrir komandi vetur einkenna síðustu vikur og ég er full tilhlökkunar og vonandi þið líka. Hér má sjá sitthvað sem hefur verið í gangi í ágúst:
- Nýnemar í háskólagrunni mættu strax eftir verslunarmannahelgi og aðrir týndust inn smátt og smátt. Kennsla hófst 18. ágúst og nú iðar allt af lífi. Nýnemar eru um 1500 og skiptinemar 127 talsins.
- Tveir framkvæmdaráðsfundir voru haldnir nú í ágúst þar sem við ræddum meðal annars um hvernig skuli haldið utan um sameiginlegar námslínur en reglur um það hafa verið í mótun frá sl. vori; um gervigreind og notkun þess í skólastarfinu; breytingar á varðveislutíma upplýsinga sem safnast með notkun aðgangskorta voru samþykktar á persónuverndarstefnunni og gerð var grein fyrir fjárhagsstöðu skólans sem er í góðum farvegi.
- Forstöðumenn stoðsviða funduðu líka, og þar var á sama hátt farið yfir fjárhagsstöðuna og rætt um mannauðsmál og fyrirhugaðar framkvæmdir í og í kringum skólann. Gott væri að setja á dagskrá Borgarlínuframkvæmdir og umferðarmál á starfsmannafundi nú í haust, en mikil orka hefur farið í þau mál.
- Ný skorpa fer að fara í gang í innleiðingu stefnunnar og fyrsta törn að klárast. Vinnufundur um stefnuna er fyrirhugaður 8. október nk.
- Fyrsti stjórnarfundur eftir sumarfrí verður í næstu viku, þar eru á dagskrá m.a. yfirlit yfir nemendafjölda; UTmál; áhættumat fyrir skólann, fjármögnun og rekstur skólans fyrstu sex mánuði ársins auk undirbúnings og skipulags vetrarins.
- Brunaboði fór í gang í Sólinni á miðvikudaginn 27. ágúst sl. Engin hætta var á ferðinni en eins og fram kom í tölvupósti til ykkar frá mannauðsdeild þá fór brunaboðinn í gang vegna þess að hindrun varð á merki línureykskynjara. Öryggisnefndin mun fara yfir atvikið og gera ráðstafanir í kjölfarið. Atvikið sjálft er síðan ágæt áminning um að taka svona boðum alltaf alvarlega og hér má rifja upp rýmingaráætlun skólans.
- Ég er annars að kenna þessa önn - sem lofar afar góðu og er góð tilbreyting.
Annars vona ég að sumarið hafi farið vel með ykkur og þið hafið notið útiveru, samverustunda með ykkar nánasta fólki og náð að hvíla ykkur fyrir veturinn sem nú fer í hönd. Hlakka til að sjá ykkur á göngunum hress og kát.
Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur
Dagskrá rektors
2025
Vikan 29. september – 3. október
- Fundur rektora frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum haldinn í Tallinn fyrri hluta vikunnar, yfirskrift fundar: Alþjóðasamstarf háskóla.
- Kennsla
- Fundir vegna fjármögnunar nýsköpunarhúss
- Fundur með stjórn SFHR
Vikan 6.-10. október
- Framkvæmdaráðsfundur
- Kennsla
- Heimsókn Aleksander Kropiwnicki, sendiherra Póllands á Íslandi og annarra fulltrúa úr sendiráðinu
- Flutti erindi og tók þátt í pallborði í aðalmálstofu á Lagadeginum
Vikan 13.-17. október
- Vinnufundur með forstöðumönnum
- Málþing í Norræna húsinu um ávinning og áskoranir íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum fyrir nemendur, starfsfólk, stöðu háskólanna og samfélagið.
- Framkvæmdaráðsfundur
- Heimsókn frá bandaríska háskólanum University of Southern Maine
- Athöfn: Orðuveiting handa Prófessor Paulo Gargiulo, sendiherra Ítalíu gagnvart Íslandi veitti Paulo orðuna fyrir hönd ítalskra stjórnvalda.
- Móttaka erlendra starfsmanna og nemenda
- Aukastjórnarfundur um nýtingu aukafjármagns