Námið
Rannsóknir
HR

Rektor Háskólans í Reykjavík

Dr. Ragnhildur Helgadóttir

Velkomin/n/ð á vef Háskólans í Reykjavík og á þessa undirsíðu mína sem rektors HR. Hér á vef HR finnurðu allar helstu upplýsingar um skólann, hvort sem þær snúa að því námi sem við bjóðum, þeim rannsóknum sem vísindamenn okkar stunda, aðstöðunni eða alþjóðlegu samstarfi.  

HR var stofnaður árið 1998. Hann er því ungur háskóli miðað við marga aðra en hefur á stuttum tíma náð að skapa sér mikla sérstöðu. HR er tækniháskóli, HR er háskóli atvinnulífsins, HR styður við nýsköpun og HR er alþjóðlegur háskóli þar sem stundaðar eru rannsóknir á heimsmælikvarða og HR er nemendamiðaður háskóli.  

Sérstaða HR birtist meðal annars í þeirri skýru framtíðarsýn að við ætlum að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina með því að bjóða frábært nám, praktískt og akademískt, og skapa þekkingu sem breytir heiminum, standandi öðrum fætinum í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hinum í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Sú blanda skiptir máli, sérstaðan skiptir máli og það skiptir máli að standa vörð um valfrelsi nemenda og að íslenskt háskóla- og vísindastarf sé margradda. 

Útskrift frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Eldborg í Hörpu

Ég er skólakona af ástríðu og ég er lögfræðingur af ástríðu. Mér þykja það algjör forréttindi að vinna í skóla sem leggur mikið upp úr því að mæta hverjum og einum nemanda þar sem hann er og veita persónulega og góða þjónustu – en gefa á sama tíma engan afslátt af þeim kröfum sem háskólanám leggur á herðar þeirra sem það stunda og þar sem sköpunarkraftur og vísindaleg vinnubrögð eru í forgrunni.  

„Menntun á ekki að vera þannig að þú farir inn á einum enda og spýtist svo fullmótuð eða mótaður út á öðrum enda. Það hentar sumum, en kannski fæstum! Ef vel á að vera fer fólk í og úr mismunandi námi, þjálfun og námskeiðum eftir því sem þarfir og langanir þess - og samfélagsins í kringum það - breytast. Í samfélagi sem er svo lítið að við verðum að nýta hæfileika okkar allra, skiptir máli að námsmat þegar þú ert 12, 15 eða 18 ára og dómgreind þín á sama aldri - ráði ekki ferðinni allt lífið, heldur sé hægt að velja, endurskoða, bæta við, skipta og endurskoða aftur hvaða menntun maður þarf“

Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR

Ég vona að þú finnir það sem þú leitar að hér á vefnum en ef ekki skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur í síma 599-6200, í gegnum netfangið ru@ru.is eða í gegnum samfélagsmiðla skólans.

Við erum á:

Stjórn Háskólans í Reykjavík ræður rektor Háskólans í Reykjavík til fjögurra ára í senn. Rektor HR kemur fram fyrir hönd háskólans, annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor ber ábyrgð á gæðum starfsemi HR og framkvæmd innra mats.  

Rektor ræður sviðsforseta, framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn háskólans sem heyra beint undir rektor, en hann hefur samráð við stjórn um val þeirra og meginverkefni. Rektor skal halda starfsmannafundi að minnsta kosti einu sinni á önn þar sem starfsfólk er upplýst um stöðu skólans, stefnu og áherslur rektors og stjórnar skólans.

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir

er rektor Háskólans í Reykjavík. Hún lauk cand. jur.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1997 og LL.M-prófi frá Virginíu-háskóla í Bandaríkjunum árið 1999. Þá lauk hún doktorsprófi, einnig frá Virginíu-háskóla, árið 2004 en doktorsritgerð Ragnhildar heitir ‘Not so in North America’ - the Influence of American Theories on Judicial Review in Nordic Constitutional Law.  

Ragnhildur hóf að kenna við Háskólann í Reykjavík árið 2002. Hún varð prófessor við lagadeild árið 2006, var deildarforseti lagadeildar 2014-2019 og forseti samfélagssviðs HR 2019-2021. Fræðileg sérsvið Ragnhildar eru stjórnskipunarréttur, almannatryggingaréttur, stjórnsýsluréttur, réttarsaga og mannréttindi. Ragnhildur var í sex ár formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hún hefur kennt við háskóla í Montreal, Ottawa, París og Toulouse.

Fréttabréf rektors

Hér mun ég, a.m.k. mánaðarlega, deila með starfsfólki og öðrum sem hafa áhuga helstu fréttum og áherslum í starfi Háskólans í Reykjavík. Markmiðið er að efla gagnsæi og samtal um það sem skiptir okkur máli. Endilega hafið samband við rektor@ru.is ef þið hafið spurningar eða athugasemdir um eitthvað sem hér er.

Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur

Komið þið sæl,

ágúst er alltaf líflegur og það er heldur betur búið að vera fjör hérna í húsi nú þegar allt er komið á fullt í kennslunni. Ný önn, fundir og undirbúningur fyrir komandi vetur einkenna síðustu vikur og ég er full tilhlökkunar og vonandi þið líka. Hér má sjá sitthvað sem hefur verið í gangi í ágúst:

  • Nýnemar í háskólagrunni mættu strax eftir verslunarmannahelgi og aðrir týndust inn smátt og smátt. Kennsla hófst 18. ágúst og nú iðar allt af lífi. Nýnemar eru um 1500 og skiptinemar 127 talsins.
  • Tveir framkvæmdaráðsfundir voru haldnir nú í ágúst þar sem við ræddum meðal annars um hvernig skuli haldið utan um sameiginlegar námslínur en reglur um það hafa verið í mótun frá sl. vori; um gervigreind og notkun þess í skólastarfinu; breytingar á varðveislutíma upplýsinga sem safnast með notkun aðgangskorta voru samþykktar á persónuverndarstefnunni og gerð var grein fyrir fjárhagsstöðu skólans sem er í góðum farvegi.
  • Forstöðumenn stoðsviða funduðu líka, og þar var á sama hátt farið yfir fjárhagsstöðuna og rætt um mannauðsmál og fyrirhugaðar framkvæmdir í og í kringum skólann. Gott væri að setja á dagskrá Borgarlínuframkvæmdir og umferðarmál á starfsmannafundi nú í haust, en mikil orka hefur farið í þau mál. 
  • Ný skorpa fer að fara í gang í innleiðingu stefnunnar og fyrsta törn að klárast. Vinnufundur um stefnuna er fyrirhugaður 8. október nk.  
  • Fyrsti stjórnarfundur eftir sumarfrí verður í næstu viku, þar eru á dagskrá m.a. yfirlit yfir nemendafjölda; UTmál; áhættumat fyrir skólann, fjármögnun og rekstur skólans fyrstu sex mánuði ársins auk undirbúnings og skipulags vetrarins.
  • Brunaboði fór í gang í Sólinni á miðvikudaginn 27. ágúst sl. Engin hætta var á ferðinni en eins og fram kom í tölvupósti til ykkar frá mannauðsdeild þá fór brunaboðinn í gang vegna þess að hindrun varð á merki línureykskynjara. Öryggisnefndin mun fara yfir atvikið og gera ráðstafanir í kjölfarið. Atvikið sjálft er síðan ágæt áminning um að taka svona boðum alltaf alvarlega og hér má rifja upp rýmingaráætlun skólans.
  • Ég er annars að kenna þessa önn - sem lofar afar góðu og er góð tilbreyting. 

Annars vona ég að sumarið hafi farið vel með ykkur og þið hafið notið útiveru, samverustunda með ykkar nánasta fólki og náð að hvíla ykkur fyrir veturinn sem nú fer í hönd. Hlakka til að sjá ykkur á göngunum hress og kát.

Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur

Dagskrá rektors

2025

Vikan 5.-9. maí

  • 5.-8. maí: Heimsókn frá Gæðamati háskóla í tengslum við stofnanaúttekt.

Vikan 12.-16. maí

  • 13. maí: Kennsluþróunardagur Háskólagrunns
  • 13. maí: Fundur með stýrihópi NeurotechEU (NTEU)
  • 13. maí: Fundur með HVIN
  • 14. maí: Board of Rectors fundur hjá NTEU
  • 16. maí: Fundur í háskólaráði þar sem m.a. verður farið yfir lykilatriði starfs- og rekstararáætlunar 2025; skipulag og starfstilhögun skólans, framþróun hefðbundinna námsbrauta og þróun styttri námsbrauta. Deildarforsetar (eða staðgenglar þeirra) mæta á þennan fund ráðsins.

Vikan 19.-23. maí

  • 19. maí: Hagstofa Íslands í heimsókn
  • 20. maí: Heils dags vinnufundur um húsnæðismál og eftirfylgni úttektar Gæðamats háskóla
  • 21. maí: Stjórnarfundur N83 og N85
  • 21. maí: Eftirfylgnifundur v/Board of Rectors fundar NTEU
  • 21. maí: Opið hús v/grunnnáms
  • 22. maí: Sameiginlegir sviðsfundir
  • 22. maí: Vísindaferð Opna háskólans
  • 23. maí: Stelpur, stálp og tækni

Vikan 26.-30. maí

  • Fundir v/skipulagsmál (Háskólagarðar; svæðið á milli þeirra og HR; Borgarlína)
  • Eftirfylgni v/Neurotech-fundar í Bonn
  • Fundur með deildarforsetum og skrifstofustjórum um nýja námslínu tengda Neurotech
  • Fundur með doktorsnema og meðleiðbeinanda
  • Skoðun á umsóknartölum fyrir næsta skólaár
Fara efst