Námið
Rannsóknir
HR

Rektor Háskólans í Reykjavík

Dr. Ragnhildur Helgadóttir

Velkomin/n/ð á vef Háskólans í Reykjavík og á þessa undirsíðu mína sem rektors HR. Hér á vef HR finnurðu allar helstu upplýsingar um skólann, hvort sem þær snúa að því námi sem við bjóðum, þeim rannsóknum sem vísindamenn okkar stunda, aðstöðunni eða alþjóðlegu samstarfi.  

Nota þessa mynd af Ragnhildi
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík

HR var stofnaður árið 1998. Hann er því ungur háskóli miðað við marga aðra en hefur á stuttum tíma náð að skapa sér mikla sérstöðu. HR er tækniháskóli, HR er háskóli atvinnulífsins, HR styður við nýsköpun og HR er alþjóðlegur háskóli þar sem stundaðar eru rannsóknir á heimsmælikvarða og HR er nemendamiðaður háskóli.  

Sérstaða HR birtist meðal annars í þeirri skýru framtíðarsýn að við ætlum að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina með því að bjóða frábært nám, praktískt og akademískt, og skapa þekkingu sem breytir heiminum, standandi öðrum fætinum í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hinum í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Sú blanda skiptir máli, sérstaðan skiptir máli og það skiptir máli að standa vörð um valfrelsi nemenda og að íslenskt háskóla- og vísindastarf sé margradda. 

Útskrift frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Eldborg í Hörpu

Ég er skólakona af ástríðu og ég er lögfræðingur af ástríðu. Mér þykja það algjör forréttindi að vinna í skóla sem leggur mikið upp úr því að mæta hverjum og einum nemanda þar sem hann er og veita persónulega og góða þjónustu – en gefa á sama tíma engan afslátt af þeim kröfum sem háskólanám leggur á herðar þeirra sem það stunda og þar sem sköpunarkraftur og vísindaleg vinnubrögð eru í forgrunni.  

„Menntun á ekki að vera þannig að þú farir inn á einum enda og spýtist svo fullmótuð eða mótaður út á öðrum enda. Það hentar sumum, en kannski fæstum! Ef vel á að vera fer fólk í og úr mismunandi námi, þjálfun og námskeiðum eftir því sem þarfir og langanir þess - og samfélagsins í kringum það - breytast. Í samfélagi sem er svo lítið að við verðum að nýta hæfileika okkar allra, skiptir máli að námsmat þegar þú ert 12, 15 eða 18 ára og dómgreind þín á sama aldri - ráði ekki ferðinni allt lífið, heldur sé hægt að velja, endurskoða, bæta við, skipta og endurskoða aftur hvaða menntun maður þarf“

Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR

Ég vona að þú finnir það sem þú leitar að hér á vefnum en ef ekki skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur í síma 599-6200, í gegnum netfangið ru@ru.is eða í gegnum samfélagsmiðla skólans.

Við erum á:

Stjórn Háskólans í Reykjavík ræður rektor Háskólans í Reykjavík til fjögurra ára í senn. Rektor HR kemur fram fyrir hönd háskólans, annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor ber ábyrgð á gæðum starfsemi HR og framkvæmd innra mats.  

Rektor ræður sviðsforseta, framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn háskólans sem heyra beint undir rektor, en hann hefur samráð við stjórn um val þeirra og meginverkefni. Rektor skal halda starfsmannafundi að minnsta kosti einu sinni á önn þar sem starfsfólk er upplýst um stöðu skólans, stefnu og áherslur rektors og stjórnar skólans.

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir

er rektor Háskólans í Reykjavík. Hún lauk cand. jur.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1997 og LL.M-prófi frá Virginíu-háskóla í Bandaríkjunum árið 1999. Þá lauk hún doktorsprófi, einnig frá Virginíu-háskóla, árið 2004 en doktorsritgerð Ragnhildar heitir ‘Not so in North America’ - the Influence of American Theories on Judicial Review in Nordic Constitutional Law.  

Ragnhildur hóf að kenna við Háskólann í Reykjavík árið 2002. Hún varð prófessor við lagadeild árið 2006, var deildarforseti lagadeildar 2014-2019 og forseti samfélagssviðs HR 2019-2021. Fræðileg sérsvið Ragnhildar eru stjórnskipunarréttur, almannatryggingaréttur, stjórnsýsluréttur, réttarsaga og mannréttindi. Ragnhildur var í sex ár formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hún hefur kennt við háskóla í Montreal, Ottawa, París og Toulouse.

Fréttabréf rektors

Hér mun ég, a.m.k. mánaðarlega, deila með starfsfólki og öðrum sem hafa áhuga helstu fréttum og áherslum í starfi Háskólans í Reykjavík. Markmiðið er að efla gagnsæi og samtal um það sem skiptir okkur máli. Endilega hafið samband við rektor @ ru.is ef þið hafið spurningar eða athugasemdir um eitthvað sem hér er.

Hlýjar kveðjur,
Ragnhildur

Þó að desember sé kannski helst til annasamur hér í HR þá er hann sem betur fer líka hátíðlegur. Kennsla, próf, fundir og fjölbreyttir viðburðir og málþing eru ofarlega á blaði nú í desember en hér er það helsta frá mér:  

  • Vinnufundur starfsfólks um stefnu HR var haldinn nú í byrjun desember. Fundurinn var mjög góður og gagnlegur og umræður hnitmiðaðar og skiluðu góðum ábendingum og efnivið sem við tökum nú áfram og vinnum úr.  
  • Ég hitti framkvæmdaráð og stjórn Viðskiptaráðs á fundi þar sem ég fór vítt og breitt yfir sviðið varðandi starfsemi HR. Ég ræddi sérstöðu skólans, sérstaklega það sem snýr að námi og rannsóknum, stöðu skólans í alþjóðlegu samhengi, stefnuna og framtíðarhorfur. Síðan tóku við skemmtilegar og uppbyggilegar umræður.  
  • 1. desember var 15 manna hópi, þmt stjórn SFHR, boðið á Bessastaði þar sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands tók á móti okkur og ræddi m.a. um gervigreind og mennskuna. Það var gaman og nemendurnir tiltóku þetta á síðasta samráðsfundi ársins sem einn af hápunktum þess. 
  • Ég ákvað að fresta mánaðarlega starfsmannafundi okkar sem átti að fara fram 16. desember þar sem aðalefni fundarins lágu ekki fyrir og daginn eftir, eða 17. desember, þá var jólahádegi og HR verðlaunin á dagskrá í Olympus.  
  • Og talandi um HR verðlaunin! Hjartans hamingjuóskir til verðlaunahafanna í ár en þau eru: Anna Lára Gísladóttir, Yngvi Björnsson og Jón Friðrik Sigurðsson.  
  • Fjárhagsáætlunarvinna kláraðist svo og plan fyrir næsta ár liggur fyrir. 
  • Á framkvæmdaráðsfundi voru eftirfarandi samþykktir: Frostbyte, nýtt rannsóknasetur við tölvunarfræðideild, nafnabreyting Háskólagrunnur og mat nemenda  á námskeiðum.   
  • Stjórnarfundi, sem átti að fara fram um miðjan mánuðinn, var frestað en fyrir liggur að samþykkja starfs- og rekstraráætlun 2026.  
  • Afmælismálþing verkfræðideildar var afar vel heppnað en nokkrir af helstu rannsakendum og kennurum deildarinnar kynntu þar rannsóknir sínar í tilefni af 20 ára afmælinu. 
  • Ég átti fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Silju Báru R. Ómarsdóttur, rektor Háskóla Íslands um samstarf við uppbyggingu sérþekkingar á málefnasviðum þróunarsamvinnu. Á fundinum skrifuðum við undir samning um samstarf um styrkveitingar frá utanríkisráðuneytinu til rannsóknarverkefna við að byggja upp tengsl við háskóla í Afríku sunnan Sahara og styrkja þannig þekkingu á málefnasviðum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hérlendis.  
  • Nú í vikunni barst mér svo bréf Persónuverndar þar sem frumkvæðisathugun hennar í tilefni af tölvuárásinni var lokið með áminningu og lista af úrbótum sem hún telur nauðsynlegar.  

Ég vona að þið hafið það öll gott yfir hátíðirnar og að þið náið góðri samverustund með fjölskyldu og vinum, borðið góðan mat og náið að hvíla ykkur eftir önnina. Þið megið öll vera stolt af ykkar verkefnum og vinnuframlagi á árinu sem nú er að líða.  

Gleðileg jól og hjartans þakkir fyrir árið,  samstarfið og skemmtunina! Við gerðum vel. Ég hlakka til næsta árs.  

Ragnhildur 

Dagskrá rektors

2025

Vikan 1.-5. desember 2025

  • Vinnustofa starfsmanna um stefnu
  • Fundur með fulltrúum tækniskólans
  • Fundur með SFHR
  • Móttaka á Bessastöðum 1. desember
  • Fundur með stjórn og framkvæmdaráði Viðskiptaráðs

Vikan 8.-12. desember 2025

  • Framkvæmdaráðsfundur
  • Undirritun samnings vegna þróunarsamvinnusjóðs í utanríkisráðuneytinu
  • Fjárhagsáætlun lokið
  • Fundur með SFHR
  • Vinnufundir vegna fjárhagsáætlunar og aðrir innanhússfundir
Fara efst