Námið
Rannsóknir
HR

NeurotechEU

European University of Brain and Technology   

NeurotechEU er hluti af verkefni Evrópusambandsins og Erasmus+ sem snýr
að evrópskum háskólum og kallast European University Initiative. 

Forsíðumynd

Samstarfsaðilar

NeurotechEU er net átta háskóla frá jafn mörgum löndum. Alls eru 223.000 nemendur í háskólunum átta og 400.000 nemendur hafa útskrifast frá þeim (e. alumni). Þá eru starfsmenn allra þessara háskóla kringum 23.000.

Um samstarfsnetið

NeurotechEU er háskólanet átta leiðandi háskóla og rúmlega 250 samstarfsaðila sem koma úr akademíu, iðnaði og samfélaginu almennt. Markmið NeurotechEU er að bjóða alhliða nám fyrir BA, -meistara- og doktorsnema, og stuðla að símenntun á sviði taugavísinda og tækni vítt og breitt í samfélaginu.

Einnig mun NeurotechEU ýta undir bæði tæknilega og samfélagslega nýsköpun. Áhersla er lögð á þverfagleika og hreyfanleika (e. mobility) í öllu vísindastarfi og námi innan NeurotechEU. Auk þess munu akademískir starfsmenn og nemendur fá beinan aðgang að hágæða aðstöðu fyrir grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir svo Evrópa verði leiðandi á heimsvísu þegar kemur að heilarannsóknum og taugatækni.

Verkefninu er ætlað að auka hreyfanleika (e. mobility) nemenda og starfsfólks og styðja við gæði, inngildingu og samkeppnishæfni evrópskra háskóla. Verkefnið á þannig að styrkja evrópskt vísindastarf og auka fjölbreytni í kennsluháttum.

Hvað þýðir NeurotechEU fyrir HR?

Tilgangur NeurotechEU

The European Universities Initiative er öndvegisverkefni ESB þegar kemur að menntun og rannsóknum.

Tækifæri innan NeurotechEU fyrir vísindamenn og starfsfólk HR

Fjölmörg tækifæri eru fyrir vísindamenn og rannsakendur innan NeurotechEU, þvert á samstarfsháskólana.

Tækifæri innan NeurotechEU fyrir nemendur HR

Doktorsnemum bjóðast fjölmörg tækifæri innan NeurotechEU, bæði tengd kennslu og rannsóknum.

Af hverju leggjum við áherslu á taugavísindi og tækni?

NeurotechEU mun gegna lykilhlutverki í því að leysa eina af brýnustu áskorununum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag, afleiðingar heilaáverka og heilasjúkdóma.

Markmið samstarfsins er að þróa lausnir  fyrir allt samfélagið, hvort sem áskoranirnar felast í rannsóknum til að stuðla að framförum í forvörnum, greiningum og meðferðum við heilasjúkdómum og heilatengdum áskorunum eða í því að útskýra hið flókna samspil heila, hegðunar og umhverfis til að vinna nýjar tæknilausnir fyrir menntastofnanir, fyrirtæki, spítala og jafnvel heilu borgarsamfélögin.

Þá gefur hagnýting taugavísinda góð fyrirheit, til dæmis þegar kemur að því að setja fram það sem kalla má „heila-miðaðar“ lausnir sem geta gagnast samfélaginu  og kynt undir nýjungar í evrópsku hagkerfi. NeurotechEU er hugsað sem burðarás í þessari sýn.

Fimm lykilverkefni

NeurotechEU Campus+

NeurotechEU Campus+ er stafrænn vettvangur þar sem nemendur hafa aðgang að kennsluáætlunum, kennsluefni og gagnagrunnum til rannsókna, auk þess að geta haft samskipti sín á milli sem og við kennara og rannsakendur. Kennarar geta sett upp námskeið og annað efni inn á Campus+ og rannsakendur geta tengst öðrum vísindamönnum á sínu sviði og skipst á gögnum. Hugmyndin er að Campus+ verði andlit háskólanetsins þar sem nemendur skipuleggja nám sitt, sækja að hluta menntun sína, og fái þjónustu án landfræðilegra, samfélagslegra og menningarlegra hindrana.

Háskólinn í Reykjavík

NeurotechEU Graduate School

NeurotechEU Graduate School er ætlað að veita þverfaglega menntun  á meistara- og doktorsstigi til að þjálfa framúrskarandi vísindafólk í þverfaglegu og fjölbreyttu umhverfi með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlahugsun. Hver nemandi tekur þátt í Neurochallenge, raunhæfu verkefni sem á að leysa með taugavísinda- og taugatækniþekkingu og hagnýtum lausnum þar að lútandi.

NeurotechEU LifeLong Learning Centre - símenntunarmiðstöð

NeurotechEU-símenntunarmiðstöðin styður við áframhaldandi þjálfun útskrifaðra sérfræðinga og samfélagsins í heild. Í miðstöðinni á fólk að geta sótt sér færni og hæfni til að laga sig að breyttum persónulegum-, samfélagslegum- og atvinnutengdum breytingum og mæta nýjum tækifærum í heila- og taugarannsóknum og tækni.

NeurotechEU Spaces

NeurotechEU Spaces er sýndar-samvinnuvettvangur. Vettvangurinn byggir á vefsvæði, þar sem opinn hugbúnaður innan Spaces veitir notandanum nauðsynleg tæki til að miðla, búa til, deila og geyma upplýsingar á öruggan hátt. Spaces er ætlað að mæta þörfum allra notenda óháð bakgrunni, og nýtist öllum, jafnt rannsakendum á sviði heimspeki eða hópi nemenda í verkfræði við forritun þjarka.

NeurotechEU Ecosystem 

Nútíma háskólar þurfa að vera í nánum tengslum við samfélag og atvinnulíf. Það mun hjálpa háskólum að leggja enn meiri áherslu á menntun , faglegar áherslur og nýsköpun út frá núverandi- og framtíðarþörfum atvinnulífsins á heimsvísu. Markmiðið er að tryggja að útskriftarnemar verði þátttakendur í  nokkurs konar fræðilegu vistkerfi, sem eykur þverfaglega færni og ýtir undir frumkvöðlastarf. NeurotechEU myndar slíkt vistkerfi í samstarfi við hagsmunaaðila á sviði samfélagsinnviða, menntamála, rannsókna og frumkvöðlasenu um allan heim.

Fara efst