Grunnskólarnir
Á ári hverju tekur HR þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum til þess að fræða nemendur á grunnskólastigi um háskólasamfélagið og efla áhuga þeirra á háskólanámi.
HR hefur sérstaklega lagt áherslu á verkefni þar sem frumkvöðlaandi og sköpunarkraftur nemenda ræður ríkjum og verkefni sem efla áhuga og þekkingu á tækni- og raungreinum.
Má sem dæmi nefna Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda og Stelpur, stálp og tækni. Þá stendur HR árlega að Hringekjunni þar sem nemendur á efsta stigi grunnskóla fá að taka þátt í stuttum námskeiðum undir handleiðslu kennara.
Kynntu þér málið
Ef þú hefur áhuga á að kynna þér samstarfsmöguleikana fyrir grunnskólann þinn eða bekk hafið þá endilega samband við:
Katrín Rut Bessadóttir, katrinrb@ru.is
Stelpur, stálp og tækni
Kynnast tækni á lifandi og skemmtilegan hátt
Háskólinn í Reykjavík hvetur konur til náms í tæknigreinum og liður í því er verkefnið Stelpur og tækni, þar sem stelpum og stálp úr 9. bekkjum grunnskóla er boðið í háskólann og tæknifyrirtæki. Viðburðinn er haldinn á vormánuðum ár hvert og er ákaflega vel sóttur.

Markmið verkefnisins er að vekja áhuga stelpna á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.
Konur eru í minnihluta í nær öllum tæknigreinum í háskólunum og við nákvæmlega þá stöðu er verið að fást við með Stelpum, stálp og tækni.
dr. Ragnhildur helgadóttir rektor háskólans í reykjavík
Alþjóðlegt verkefni
Viðburðurinn er haldinn að erlendri fyrirmynd en Girls in ICT Day er haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári. Er dagurinnn styrktur af ITU (International Telecommunication Union) og Evrópusambandinu í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. HR hefur haldið utan um daginn hér á landi frá upphafi.
Vinnusmiðjur í HR
Vinnusmiðjur eru haldnar í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Viðfangsefnin eru af ólíkum toga, til dæmis kynnast þær forritun og gerð vefsíðu með tungumálum vefhönnunar, HTML og CSS, uppbyggingu tölvuleikja, þrívíddarprentun líffæra og brotaþoli beina.

Heimsókn í tæknifyrirtæki
Eftir að vinnustofunum lýkur eru tæknifyrirtæki heimsótt þar sem gefin er innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Konur sem starfa hjá fyrirtækjunum deila reynslu sinni.

Þátttaka fyrirtækja
Gott samstarf hefur myndast við fyrirtæki í tæknigeiranum með þessum viðburði og hafa all nokkur þeirra tekið þátt ár eftir ár. Forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa einnig lýst yfir ánægju sinni með heimsóknirnar og mikilvægi þess að valdefla stelpur og stálp á þessu svið.
Ef fyrirtæki þitt hefur áhuga á að taka þátt í Stelpur og tækni deginum, vinsamlega hafðu samband við tengilið atvinnulífstengsla HR: atvinnulif@ru.is
Stelpur, stálp og tækni er orðinn hluti af upphafi sumars hjá Símanum. Hóparnir sem við tókum á móti voru virkilega skemmtilegir og stelpurnar og stálpin tilbúin að prófa nýja hluti m.a. að forrita viðmót sjónvarps Símans og prufa að vera viðmælendur í sjónvarpi. Við hvetjum fyrirtæki til að taka þátt í þessum skemmtilega degi.
Erla Ósk Ásgeirsdóttir
Þetta voru flottir hópar sem komu með fjölmargar frábærar spurningar og sýndu mikinn áhuga. Það var dásamlegt að fylgjast með forvitnum andlitum þeirra í stjórnstöð Veitna og sjá hvernig þau lýstust upp þegar þau fengu að prófa að splæsa saman ljósleiðarastreng hjá Ljósleiðaranum, rafsjóða kertastjaka á verkstæði Veitna, mæla PH gildi og fleiri tilraunir undir leiðsögn Rannsóknar og nýsköpunar. Ein gestanna átti sína stund þegar hún kallaði til vinkvenna sinna; ,,bíddu, sjáiði mig! Ég lúkka alveg eins og vísindakona!“ Hún hélt þá á sprautu með síu og var í óða önn að sía steinefni úr vatninu undir leiðsögn okkar vísindakvenna. Það hallar á hlut kvenna og kvára innan orkugeirans og því þarf að breyta. Þar ætlum við ekki að láta okkar eftir liggja og fögnum tækifærum sem þessum til að gera þennan fjölbreytta starfsvettvangi hátt undir höfð
Ég vildi óska að þetta hefði verið í boði þegar ég var unglingur að reyna að átta mig á hvað mig langaði að læra og gera í framtíðinni. Það hefði verið gaman að sjá fyrirmyndir á þeim aldri og fræðast um þennan skemmtilega heim
Hringekjan
Stutt námskeið í tæknigreinum
Á hverju ári skipuleggur Háskólinn í Reykjavík námskeið þar sem 9. og 10. bekkjum eins grunnskóla í senn er boðið í HR og fá nemendur stutt námskeið á vegum tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar, undir handleiðslu kennara deildanna.
Eldflaugasmíð og forritun
Markmiðið með samstarfinu er að gefa krökkunum nýja sýn á heim tækninnar og vekja forvitni þeirra og áhuga á tækni- og raungreinum. Lögð er áhersla á að sýna þeim leiðir til að nýta tæknina til að skapa, leysa verkefni og öðlast frekari skilning á ólíkum viðfangsefnum. Meðal þess sem fjallað hefur verið um í Hringekjunni er eðlisfræði, gervigreind, forritun og eldflaugasmíð.