Námið
Rannsóknir
HR

9. september 2025

Breskur sérfræðingur á sviði íþróttanæringarfræði gengur til liðs við íþróttafræðideild HR

Christopher Curtis hefur gengið til liðs við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík. Chris hefur áður starfað í deildinni sem gestakennari en fluttist nú í haust yfir hafið, frá heimabæ sínum London, og er sestur að á Íslandi.

Chris stundaði íþróttir frá unga aldri en segir léttur í bragði að þegar hann hafi áttað sig á því að hann yrði aldrei atvinnumaður hafi áhugi hans kviknað á því að starfa á öðru sviði íþróttanna.

Það heillaði mig að hafa þekkingu á því hvernig einhver nær að hlaupa hraðar, styrkja sig eða ná tilteknum tíma í maraþoni og hvaða þjálfun liggur þar að baki.

Í framhaldinu ákvað hann að leggja fyrir sig nám á þessu sviði;

Þetta snýst í raun allt um að læra að meta hvers einstaklingurinn þarfnast í samræmi við æfingarútínu og keppnisáætlun. Það sem fótboltamaður þarfnast helst er allt annað en hjólreiðamaður eða golfari og svo mætti áfram telja. Það er mjög mikilvægt að hafa sem besta innsýn í kröfur hvers einstaklings til að geta leiðbeint honum varðandi mataræði sem hjálpar honum að ná mkarkmiðum sínum.

Chris hefur starfað bæði í fræðasamfélaginu í um áratug og innan íþróttaheimsins síðustu 15 ár og sérhæft sig þar í næringarfræði íþróttafólks. Hann hefur m.a. unnið með liðum í ensku úrvalsdeildinni, atvinnuboxurum og kraftlyfingafólki svo fátt eitt sé nefnt. Hann telur sig heppinn að hafa getað starfað á báðum sviðum.

Chris segir að bæði meðal íþróttafólks og almennings hafi þekking og skilningur á mikilvægi næringarfræði innan íþróttavísinda aukist gríðarlega á síðustu 20 árum.

Fólk er orðið mun meðvitaðra um hlutverk næringar. Ég útskýri þetta gjarnan á einfaldan hátt með þeim hætti að þú þarft næringu allt frá því að þú fæðist og þar til þú deyrð. Næringarþörfin tekur hins vega breytingum á hverju aldursskeiði fyrir sig og mikilvægt að skilja hvernig hún þróast. Fólk er sannarlega orðið meðvitaðra um ávinninginn fyrir heilsu og frammistöðu, hvort sem um er að ræða atvinnuíþróttamann eða einhvern sem vill verða líkamlega virkari.

Að lokum segir Chris að hann hlakki til að hefja kennslu og að honum finnist mjög ánægjulegt að sjá yngri kynslóðir fagfólks þróa þekkingu sína og hæfni.

Að fá að vera hluti af því og eiga sinn þátt í að móta skilning þeirra er afar áhugavert. Fyrir mig persónulega er það stór og spennandi hluti af mínum ferli. Mér finnst mjög gaman að kenna og hjálpa fólki að ná tökum á ákveðnum hugtökum sem tengjast íþróttavísindum og næringu.

Nám:

  • PhD í íþrótta- og hreyfivísindum, Leeds Trinity University, Bretlandi
  • MSc í íþrótta- og hreyfivísindum, Sheffield Hallam University
  • Diplóma á meistarastigi í íþróttanæringafræði
  • BSc (heiðursgráða) í matvæla- og manneldisfræði, Newcastle University

Rannsóknarsvið:

  • Lífeðlisfræðileg svörun afreksíþróttafólks og almennings við æfingum
  • Næringarfræðilegir þættir sem hámarka árangur hjá fólki sem stundar líkamsrækt og afreksíþróttafólki
  • Aðferðir við mælingar á líkamsamsetningu og líkamsbyggingu afreksíþróttafólks
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir