Námið
Rannsóknir
HR

27. ágúst 2025

Hlýtur starfsþjálfun við Mannréttindadómstólinn sem viðurkenningu

Svala Davíðsdóttir frá Lagadeild HR hlýtur verðlaun fyrir meistararitgerð sína er kallast; Mannréttindi og loftslagsbreytingar: greining á dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Verein KlimaSeniorinnen gegn Sviss. Sem viðurkenningu hlýtur hún starfsþjálfun við Mannréttindadómstólinn MDE.


Dr. Gunnar Þór Pétursson, forseti lagadeildar HR, Svala Davíðsdóttir, Oddný Mjöll Arnardóttir dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, Birta Steinunn Ragnarsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir, forseti lagadeildar HÍ.

Í ritgerðinni er fjallað um dóm yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 9. apríl 2024, í máli Verein KlimaSeniorinnen Scweiz o.fl. gegn Sviss. Í málinu héldu kærendur því fram að svissenska ríkið hefði brotið gegn réttindum þeirra samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu vegna ætlaðrar vanrækslu ríkisins á að grípa til viðeigandi ráðstafana til verndar einstaklingum fyrir skaðlegum afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum. 

Svala segir ritgerðarefnið hafa komið fyrirhafnarlaust til sín þegar hún las fyrst fréttir af málshöfðuninni;

Ritgerðarefnið kom í raun fyrirhafnarlaust til mín þegar ég las fyrst fréttir af málshöfðun svissnesku kvennanna og félagasamtaka eldri kvenna fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem töldu svissnesk yfirvöld hafa brotið á sér vegna aðgerðaleysis í loftslagsmálum. Eins og annað ungt fólk hef ég áhyggjur af framtíð jarðarinnar og skaðlegri umgengni um hana og dómurinn í máli KlimaSeniorinnen Schweiz gegn Sviss, sem kveðinn var upp 9. apríl 2024, snýr að hamfarahlýnu, einu allra brýnasta málefni líðandi stundar. Auk þess er dómurinn mjög áhugaverður frá lögfræðilegu sjónarmiði og í málinu skorið úr lagalegum álitaefnum sem hafa ríka þýðingu til framtíðar.

©Kristinn Ingvarsson

Dr. Gunnar Þór Pétursson, forseti lagadeildar HR, Oddný Mjöll Arnardóttir dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, og Trausti Fann­ar Vals­son, dósent við laga­deild­ HÍ, við undirritun samningsins.

Það var að frumkvæði dr. Oddnýjar Mjallar, fyrrum prófessors við Lagadeildir Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands, sem lagadeildir  HR og HÍ undirrituðu í fyrra samning við Mannréttindadómstólinn um starfsþjálfun sem býðst einum brautskráðum kandídat árlega frá hvorri deild sem viðurkenning fyrir framúrskarandi meistararitgerð um Mannréttindasáttmála Evrópu.

Starfsnámið getur varað í allt að fimm mánuði og felst í að aðstoða íslenska dómarann við Mannréttindadómstólinn, dr. Oddnýju Mjöll Arnardóttur og fylgjast með störfum hennar. Svala segir þetta dýrmætt og ómetanlegt tækifæri fyrir ungan lögfræðing eins og sig sem hafi hug á að starfa á þessu sviði í framtíðinni.

Mannréttindi og mannréttindavernd, réttur fólks til lífs og mannsæmandi lífsskilyrða, skipa stóran sess í mínu hjarta. Ég hóf störf hjá Rétti lögmannsstofu strax eftir útskrift í febrúar en hún var stofnuð á sínum tíma af Ragnari Aðalsteinssyni. Hann hefur barist fyrir mannréttindum allan lögmannsferil sinn og stofan sérhæft sig í málum sem varða mannréttindi.

Frá lagadeild HÍ hlaut viðkenningu Birta Steinunn Ragnarsdóttir frá lagadeild HÍ fyrir ritgerðina Má ég segja frá? Tjáningarfrelsi í tengslum við kynferðisofbeldi með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og íslenskra dómstóla.

Þær Svala og Birta Steinunn tóku við viðurkenningum sínum og fjölluðu um efni ritgerða sinna á sérstakri málstofu sem fram fór í HÍ nýverið. Þar kynnti Oddný Mjöll einnig starfsþjálfunina.

Aðspurð um góð ráð fyrir núverandi nemdur sem vilja geta átt möguleika á slíkri viðurkenningu segir Svala;

Til að eiga möguleika á þessari viðurkenningu er frumskilyrðið að ritgerðarefnið sé á sviði mannréttinda. En auðvitað þarf hún jafnframt að vera vönduð og áhugaverð.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir