Námið
Rannsóknir
HR

3. september 2025

Hvetur nemendur til að láta til sín taka í kennslustundum

Kristín Edwald hefur gengið til liðs við lagadeild HR. Hún er einn af reyndustu málflytjendum landsins fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti Íslands. Kristín kemur frá lögmannsstofunni LEX þar sem hún hóf störf árið 2002. Hún er meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði vátryggingaréttar og skaðabótaréttar ásamt að hafa mikla reynslu af lögfræðiráðgjöf til stjórna og stjórnenda fyrirtækja á sviði félagaréttar og samninga- og kröfuréttar.

Kristín lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1997, varð héraðsdómslögmaður árið 1998 og hæstaréttarlögmaður árið 2005.

Hún hefur áður kennt sem stundakennari við lagadeild HR og kennt um árabil á námskeiði til öflunar málflutningaréttinda fyrir héraðsdómi. Þá hefur hún setið í stjórnum fyrirtækja, verið formaður Lögfræðingafélags Íslands, varaformaður Lögmannafélagsins og gegnir jafnframt ýmsum opinberum trúnaðarstörfum.

Kristín var í Verzló, þar sem lögfræði var hluti af náminu, og segir hún að strax þá hafi lögfræðin heillað sig. Lögfræðin hafi svo marga snertifleti við daglegt líf og lögfræðinámið sé mjög góður grunnur fyrir svo mörg störf. Á haustönn mun Kristín kenna námskeiðin fjármunarétt I, samningarétt og inngang að almennum hluta kröfuréttar og segir hún veturinn leggjast vel í sig;

Komandi vetur í HR leggst mjög vel í mig. Ég er virkilega spennt fyrir að starfa í akademíunni og sökkva mér í fræðin. Skemmtilegast við að kenna eru samskiptin við nemendurna og fá að vera hluti af þeim frábæra hópi sem starfar við lagadeild HR.

En skildi Kristín eiga góð til laganema fyrir veturinn?

Ég mæli með að vera skipulögð, sinna náminu jafnt og þétt og láta til sín taka í kennslustundum.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir