22. ágúst 2025
Skemmtilegast að sjá glaða nemendur útskrifast
22. ágúst 2025
Skemmtilegast að sjá glaða nemendur útskrifast
Nemendaskrá og námsmat er stórt tannhjól í þeirri keðju er knýr áfram daglegt starf við Háskólann í Reykjavík. Innan deildarinnar má segja að ferill nemendans fari fram, allt frá því að hann er skráður í nám og þar til hann útskrifast.
Verkefnastjórar sviðsins sjá um skráningu nemenda, útfærslu lokaprófa, gerð stundatöflu, útskriftargögn allra nemenda við skólann og aðstoð við kennara við að birta einkunnir úr prófum og námskeiðum. Auk þess er almenn upplýsingaöflun til ýmissa aðila á borði deildarinnar.
Anna Steinunn Gunnarsdóttir er forstöðukona nemendaskrár- og námsmats. Hún áréttar að mikilvægt sé fyrir nemendur að fylgjast með almanaki skólans og að ekkert gerist sjálfkrafa í þeim ferli sem háskólanám er.
Það er mikilvægt að nemendur fylgist með almanaki skólans en þar má sjá hvenær próftaflan er birt, hvenær sjúkra- og endurtektarpróf fara fram, hvenær skráning í námskeið opnar og lokar og annað slíkt. Eins má árétta við nemendur að athuga reglulega tölvupóstinn því þangað berast áminningar um það sem þarf að gera. Ekkert gerist sjálfskrafa og nemandinn þarf t.a.m. að skrá sig í útskrift sjálfur. Inni á heimasíðu skólans og deildarsíðum er líka hægt að finna allar helstu upplýsingar.
Anna Steinunn starfaði áður sem verkefnastjóri á skrifstofu lagadeilda. Hún segir gagnlegt að þekkja til innan háskólans og kunna skil á ólíku skipulagi og þörfum innan deildanna.
Það er dálítið misjafnt hvernig annirnar eru byggðar upp eftir deildum og því þarf heilmikið utanumhald og skipulag að eiga sér stað. Þú þarft að þekkja inn á deildirnar, uppbyggingu námsins, lota og prófa. Auk þess eigum við í góðu samstarfi við Náms- og starfsráðgjöf varðandi sérúrræði fyrir nemendur.
Á prófatímabilum berst háskólanum liðsauki en hópur yfirsetufólks er þá fastur punktur í tilverunni. Sum hver hafa starfað lengi við HR en Anna Steinunn segir þá elstu hafa sinnt starfinu í rétt rúmlega 20 ár og sé nú að nálgast nírætt.
Þau eru dásamleg og gaman að vera með þeim. Í lokaprófunum eru á milli 30-40 manns í hópnum, fólk úr ýmsum störfum sem komið er á eftirlaun. Ég get sagt ykkur það að þetta er vinsælt starf en það er tveggja ára biðlisti í yfirsetu og þeir sem eru að komast á aldur hafa sent okkur póst og vilja komast á listann! Ég veit að þeim finnst þetta mjög skemmtilegt en þetta er heilmikil vinna og langir dagar. Við fáum hlýtt í hjartað þegar hópurinn mætir í hús og það er skemmtilegt að hitta þau á morgnana þar sem þau eru að fá sér kaffi, spjalla og prjóna.
Ferlinum lýkur með útskrift nemenda og þá er mikill handagangur í öskjunni hjá Önnu Steinunni og samstarfskonum hennar, sérstaklega á vorin þegar stærsta útskriftin fer fram frá HR.
Þá erum við fyrst og fremst að prenta öll útskriftarrgögnin og fá undirritanir og slíkt. Síðan þarf að birta staðfestingu af útskrift og einkununum á rafrænu formi fyrir nemendur. Útskriftin fer fram eftir vel æfðu handriti í góðu samstarfi við viðburðastjóra háskólans svo þetta gengur oftast nær mjög smurt hjá okkur en er um leið mikil nákvæmnis vinna. Útskriftin er skemmtileg, hún er loka hnykkurinn og staðfesting á því að önnin sé búin og þetta hafi tekist hjá nemendum okkar. Það er einstaklega skemmtilegt að sjá glaða nemendur útskrifast.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir