4. september 2025
Vill að rannsóknaþjónustan sé staður þar sem öll sem hafa áhuga á rannsóknum finna að þau eru velkomin, fá hvatningu og viðeigandi stuðning
4. september 2025
Vill að rannsóknaþjónustan sé staður þar sem öll sem hafa áhuga á rannsóknum finna að þau eru velkomin, fá hvatningu og viðeigandi stuðning
Sigríður Lára Guðmundsdóttir er nýr forstöðumaður hjá rannsóknaþjónustu HR. Sigríður Lára er með doktorspróf í heilbrigðisvísindum og mikill reynslubolti þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun á almennum vinnumarkaði og úr háskólasamfélaginu. Hugðarefni hennar þegar kemur að rannsóknum er að byggja upp hvetjandi umhverfi og skapa rými fyrir framþróun.
Sigríður Lára er full tilhlökkunar fyrir nýju starfi í HR:
Ég sé Háskólann í Reykjavík sem framsækinn og spennandi vinnustað með mikla möguleika í rannsóknum og nýsköpun. Þar sem ég hef starfað bæði sem akademískur starfsmaður og í nýsköpunargeiranum hef ég trú á að reynsla mín og þekking geti nýst vel til að efla rannsóknaumhverfið við skólann, styðja við vísindamenn, og auka áhrif rannsókna okkar á samfélagið. Ég hlakka mikið til að vinna með frábæru fólki og vera hluti af því að byggja upp enn sterkari rannsóknaþjónustu.
Sigríður Lára vann áður hjá Sidekick Health sem sérhæfir sig í stafrænum heilbrigðislausnum. Hún bar meðal annars ábyrgð á stefnu og framkvæmd klínískra- og raunheimsrannsókna, fjármögnun, hönnun og stýringu rannsókna í samstarfi við hagaðila og í samskiptum við innlenda og erlenda sérfræðinga í viðkomandi fræðigrein, umsjón með greiningu gagna, birtingum vísindagreina og ráðstefnukynninga.
Þegar kemur að áskorunum í starfi segist Sigríður Lára heillast mest af þeim sem kalla á nýsköpun og samstarf til að bæta rannsóknir og auka áhrif vísinda:
Ég hef mikinn áhuga á að finna leiðir til að styðja við unga vísindamenn, efla samstarf á milli eininga og út á við. Ég hef sérstaklega gaman af því að leysa úr málum sem krefjast þverfaglegra lausna og skapandi hugsunar.
Sigríður Lára hefur alltaf haft mikinn áhuga á vísindum, hreyfingu og heilsu:
Þess vegna valdi ég upphaflega að læra íþróttafræði og áhuginn þróaðist síðar yfir í heilbrigðisvísindi. Ég man mjög vel eftir því að sitja í fyrirlestri á fyrsta ári í íþróttafræði við NTNU í Þrándheimi þar sem Dr. Liv Berit Augestad prófessor ögraði viðteknum skoðunum á hreyfingu kvenna. Ég heillaðist af nálgun hennar og nokkrum árum síðar varð hún leiðbeinandinn minn í doktorsnámi í heilbrigðisvísindum. Þar fékk ég tækifæri til að þróa færni mína í rannsóknum, sem hefur sannarlega nýst mér vel allar götur síðan.
Aukin samvinna, nýsköpun, og áhrif rannsókna eru atriði sem Sigríður Lára leggur mikla áherslu á:
Ég vænti þess líka að fá að vinna með frábæru fólki af ólíkum fagsviðum og læra af þeim, og að starfið verði bæði gefandi og krefjandi. Umfram allt vil ég að Rannsóknaþjónustan sé staður þar sem öll sem hafa áhuga á rannsóknum finna að þau eru velkomin, fá hvatningu og viðeigandi stuðning.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir