Námið
Rannsóknir
HR

Department of Psychology Public Presentation of a Doctoral Thesis: Snæfríður Guðmundsdóttir Aspelund

Stress & Cognitive Function: Exploring the Impact of PTSD and Breast Cancer on Cognition and the Potential Benefit of Bright Light Therapy
30. janúar, 15:00 - 16:00
Háskólinn í Reykjavík - Stofa M208
Skrá í dagatal

Fimmtudaginn 30. janúar 2025 kl. 15:00 mun Snæfríður kynna doktorsrannsókn sína "Stress & Cognitive Function: Exploring the Impact of PTSD and Breast Cancer on Cognition and the Potential Benefit of Bright Light Therapy" en lokuð doktorsvörn fór fram 13. desember sl.

Ágrip

Hugræn virkni, þ.e. getan til að læra, leysa vandamál og beita upplýsingum á skilvirkan hátt, er nauðsynleg fyrir daglegt líf. Margir þættir geta leitt til hugrænnar skerðingar en í þessari doktorsrannsókn voru áhrif streitu á hugræna virkni rannsökuð sérstaklega. Streituvaldandi atburðir á lífsleiðinni (t.d. stríð, kynferðislegt ofbeldi, greining brjóstakrabbameins (BK) og krabbameinsmeðferð) geta valdið áfallastreituröskun (ÁSR), ásamt því að hafa áhrif á líffræðileg (t.d. kortisól) og sálræn (t.d. einkenni þunglyndis) streitumerki sem geta skert hugræna virkni. Þar sem hugræn skerðing getur haft umtalsverð neikvæð áhrif á einstaklinga og samfélagið í heild, var markmið þessarar doktorsrannsóknar að rannsaka nánar a) sambandið á milli streituvaldandi atburða og hugrænnar skerðingar, b) hvaða þættir geta haft áhrif á þetta samband og c) hvort ljósameðferð (LM) geti dregið úr áhrifum streituvaldandi atburða á líffræðileg og sálræn streitumerki og hugræna virkni. Doktorsrannsóknin var þríþætt og er rannsóknunum þremur lýst hér á eftir.

Fyrsta rannsóknin kannaði sambandið á milli ÁSR og hugrænnar virkni ásamt hugsanlegum mótunarþáttum þessa sambands með þriggja laga slembiáhrifa safngreiningu. Heimildaleit skilaði 54 ritrýndum vísindagreinum sem uppfylltu inntökuskilyrðin. Hugsanlegir mótunarþættir þessa sambands sem skoðaðir voru í þessari rannsókn voru aldur, rannsóknarsnið, tegund úrtaks, hugræn útkoma, kyn, gæði rannsókna, mælitæki ÁSR, heilahristingur, þunglyndi og notkun vímugjafa. Niðurstöðurnar gáfu til kynna tengsl milli ÁSR og þróunar á hugrænni skerðingu og einnig á milli ÁSR og heilabilunar, miðað við heilbrigða samanburðarhópinn (HS) og að auki, að þessi tengsl væru óháð þeim mótunarþáttum sem skoðaðir voru.

Önnur rannsóknin kannaði krabbameinstengda hugræna skerðingu (KHS) meðal kvenna sem greinst höfðu með BK. Fyrri rannsóknir á KHS hafa einkum kannað áhrif lyfjameðferðar á KHS en markmið þessarar rannsóknar var að meta hvort KHS meðal kvenna með BK geti komið fram áður en BK meðferð hefst og einnig hvort streita geti mögulega spilað þar hlutverk. Rannsóknin var lýðgrunduð með 112 þátttakendum með BK (fyrir BK meðferð) og 67 þátttakendum úr HS. Hugræn virkni var metin bæði með taugasálfræðiprófum og spurningalista. Sálræn streitumerki (þ.e. krabbameinstengd streita (tengd ÁSR), þunglyndis- og kvíðaeinkenni) voru mæld með spurningalistum. Líffræðileg streitumerki (þ.e. kortisól og α-amýlasi) voru mæld í munnvatnssýnum. Niðurstöðurnar sýndu að þátttakendur með BK stóðu sig verr á taugasálfræðiprófum sem mældu vinnsluhraða og orðaminni og töldu hugræna virkni sína vera verri miðað við þátttakendur í HS. Marghliða línuleg aðhvarfsgreining sýndi að a) betri hugrænni virkni fylgdi hærri α-amýlasa-hallastuðull, yngri aldur og minni krabbameinstengd streita og að b) þátttakendur með alvarlegri þunglyndiseinkenni töldu hugræna virkni sína vera verri. Niðurstöðurnar benda til að KHS geti komið fram áður en meðferð við BK hefst og að streita getur átt sinn þátt í skerðingunni.

Þriðja rannsóknin byggir á niðurstöðum hinna tveggja sem gáfu til kynna að streituvaldandi atburðir á lífsleiðinni geti átt þátt í hugrænni skerðingu með áhrifum sínum á streitumerki. Þar sem bæði krabbameinið sjálft ásamt skurðaðgerð því tengd geta framkallað streituviðbrögð og einnig raskað dægursveiflum, og þar með enn frekar aukið hættuna á KHS, þá var í þriðju rannsókninni skoðað hvort LM geti dregið úr neikvæðum áhrifum tengdum BK (þar með skurðaðgerð við BK) á hugræna virkni og streitu. Til að skoða þetta nánar var tvíblind slembirannsókn framkvæmd á sama úrtaki og notað var í annarri rannsókninni. Þátttakendum var handahófskennt skipt í hópa þar sem íhlutunarhópurinn fékk dægursveiflu-örvandi bjart ljós (BL, N = 60) á meðan samanburðarhópurinn fékk dimmt ljós án dægursveiflu-örvunar (DL, N = 57). LM stóð yfir í fjórar vikur að skurðaðgerð lokinni. Línulegar aðhvarfsgreiningar og leiðargreiningar sýndu að BL hópurinn, í samanburði við DL hópinn, taldi hugræna virkni sína vera marktækt betri. Að auki var ómarktæk tilhneiging (með litlum til meðal áhrifastærðum) hjá BL hópnum til hraðari viðbragðstíma, minni krabbameinstengdrar streitu (tengdri ÁSR) og færri uppáþrengjandi hugsana samanborið við DL hópinn.

Á heildina litið þá undirstrika niðurstöður þessarar doktorsrannsóknar nauðsyn þess að fylgjast með hugrænni virkni hjá einstaklingum sem hafa orðið fyrir meiriháttar streituvaldandi atburðum á lífsleiðinni en einnig mikilvægi snemmtækrar íhlutunar eftir þörfum. Framtíðarrannsóknir ættu að rannsaka nánar hvort LM geti dregið úr hugrænni skerðingu og streitu meðal einstaklinga sem hafa upplifað meiriháttar streitu á lífsleiðinni, ásamt því að skoða undirliggjandi þætti.

Lykilorð: Hugræn virkni, streita, áfallastreituröskun, krabbameinstengd hugræn skerðing, ljósameðferð

Vinsamlegast athugið að á viðburðum Háskólans í Reykjavík (HR) eru teknar ljósmyndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi HR. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á ru.is eða með því að senda tölvupóst á netfangið personuvernd@ru.is.

Please note that at events hosted at Reykjavík University (RU), photographs and videos are taken which might be used for RU marketing purposes. Read more about this on out ru.is or send an e-mail: personuverd@ru.is.

Fara efst